Postulasagan 19 - Biblían (2007)

Í Efesus

1Meðan Apollós var í Korintu fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.

2Hann sagði við þá: „Fenguð þið heilagan anda er þið tókuð trú?“

Þeir svöruðu: „Nei, við höfum ekki einu sinni heyrt að heilagur andi sé til.“

3Hann sagði: „Upp á hvað eruð þið þá skírðir?“

Þeir sögðu: „Skírn Jóhannesar.“

4Þá mælti Páll: „Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði fólkinu að trúa á þann sem eftir sig kæmi, það er á Jesú.“

5Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.

6Er Páll hafði lagt hendur yfir þá kom heilagur andi yfir þá og þeir töluðu tungum og fluttu spámannlegan boðskap.

7Þessir menn voru alls um tólf.

8Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki.

9En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar.

10Þessu fór fram í tvö ár svo að allir þeir sem í Asíu bjuggu heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.

Synir Skeva

11Guð gerði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.

12Það bar við að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka og hurfu þá veikindi þeirra og illir andar fóru út af þeim.

13En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim er haldnir voru illum öndum. Þeir sögðu: „Ég særi ykkur við Jesú þann sem Páll prédikar.“

14Þetta reyndu einnig sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.

15En illi andinn sagði við þá: „Jesú þekki ég og Pál kannast ég við en hverjir eruð þið?“

16Maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.

17Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla og þeir vegsömuðu mikillega nafn Drottins Jesú.

18Margir þeirra sem trú höfðu tekið komu, gerðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.

19Og allmargir, er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.

20Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.

Æsingar í Efesus

21Þá er þetta var um garð gengið tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: „Þegar ég hef verið þar ber mér líka að sjá Róm.“

22Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu en dvaldist sjálfur í Asíu um sinn.

23Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum.

24Demetríus hét maður og var silfursmiður. Hann bjó til eftirlíkingar úr silfri af musteri Artemisar og veitti smiðum eigi litla atvinnu.

25Hann stefndi þeim saman og öðrum sem að slíku unnu og sagði: „Góðir menn, þið vitið að velmegun okkar hvílir á þessari atvinnu.

26Og þið sjáið og heyrið að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus heldur nær um gervalla Asíu. Hann segir að eigi séu það neinir guðir sem með höndum eru gerðir.

27Nú horfir þetta ekki einungis iðn okkar til smánar heldur einnig til þess að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni.“

28Er þeir heyrðu þetta urðu þeir afar reiðir og æptu: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“

29Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu.

30En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina leyfðu lærisveinarnir honum það ekki.

31Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn.

32Menn hrópuðu nú sitt hver því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi og vissu fæstir hvers vegna þeir voru saman komnir.

33Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders því að Gyðingar ýttu honum fram en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu.

34Þegar menn urðu þess vísir að hann var Gyðingur lustu allir upp einu ópi og hrópuðu nærfellt tvær stundir: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“

35En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: „Efesusmenn, hver er sá maður að hann viti ekki að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?

36Þar sem enginn má gegn því mæla ber ykkur að vera stilltir og hrapa ekki að neinu.

37Þið hafið dregið þessa menn hingað þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju okkar.

38Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sökótt við nokkurn þá eru þingdagar haldnir og til eru landstjórar. Þar geta menn borið upp mál sín.

39En ef þið hafið annars að krefja má gera út um það á löglegu þingi.

40Við eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni sem gæti afsakað slík ólæti.“ Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help