Síraksbók 42 - Biblían (2007)

1Blygðast þín fyrir að bera út orðróm

og að ljóstra því upp sem leynt á að fara.

Með þessu sýnir þú rétta blygðunarsemi

og hlýtur ástsæld af öllum lýð.

Það sem ekki er blygðunarefni

Eigi skalt þú blygðast þín fyrir eftirfarandi

og lát eigi undanlátssemi leiða til syndar:

2Fyrir lögmál Hins hæsta og sáttmálann

eða réttarkröfur svo að þú sýknir guðlausan,

3fyrir að krefja félaga eða förunaut reikningsskapar

eða deila arfi með öðrum.

4Fyrir nákvæmni um reislu og vog

eða hagnað, stóran og smáan,

5ekki fyrir gróða af viðskiptum

eða fyrir að beita börn þín miklum aga

og húðstrýkja illan þræl.

6Ráðlegt er að loka öllu tryggilega fyrir illri konu

og hafa vel læst þar sem hendur margra eru.

7Telja skaltu og vega allt er þú færð öðrum til geymslu,

skrifa niður allt sem þú lætur og tekur á móti.

8Blygðast þín ekki fyrir að áminna aula og flón

eða hruman öldung sem drýgir hór.

Farir þú að þessu sýnir þú að þú ert vel uppalinn

og verður mikils metinn af öllum lifandi mönnum.

Um feður og dætur

9Dóttir varnar föður svefns þótt hann leyni því,

áhyggjur af henni valda honum andvökum.

Þegar hún er í æsku að hún felli yndisblómann

og er hún er gift að maðurinn verði henni afhuga,

10á æskuárum að hún verði fífluð

og ali barn í föðurhúsum,

er hún er gift að hún reynist ótrú

eða verði barnlaus í hjónabandi.

11Haf nánar gætur á gjálífri dóttur

svo að hún geri þig ekki að athlægi óvina

og illræmdan í borginni, lastaðan af lýðnum,

og baki þér smán fyrir augum allra.

12Legg eigi um of upp úr yndisþokka neins,

tak þér ekki sæti í kvennahópi.

13Því að mölflugan kemur úr klæðum

og illska konu frá konunni.

14Betri er illska karls en góðvild konu,

ósiðprúð kona veldur vansæmd.

Dýrð Guðs í sköpunarverkinu

15Nú vil ég minnast verka Drottins,

skýra frá því sem ég hef séð.

Verk Drottins urðu til fyrir orð hans.

16Ljómandi sólin lítur yfir allt,

verk Drottins eru full dýrðar hans.

17Jafnvel hina heilögu Drottins gerði hann ekki færa um

að greina frá öllum dásemdum sínum

sem almáttugur Drottinn kom svo fyrir

að dýrð hans sé grundvöllur alls.

18Drottinn rannsakar hyldýpið og hjarta manns,

alla leyndardóma þeirra þekkir hann til hlítar,

enda býr Hinn hæsti yfir allri þekkingu,

ræður þær rúnir sem stýra heimsrás,

19kunngjörir það sem liðið er og koma mun

og leiðir í ljós hulin ummerki.

20Engin hugsun fer fram hjá honum,

ekkert orð hylst fyrir honum.

21Fagurlega bjó hann máttarverk speki sinnar,

hann er einn og hinn sami frá eilífð til eilífðar.

Engu verður við bætt og ekkert tekið af

og ekki þarfnast hann heldur neinnar ráðgjafar.

22Hversu yndisrík eru öll verk hans,

jafnvel smæsti neisti gleður augað.

23Allt þetta lifir og varir um aldur,

hver þörf mun uppfyllt og allt hlýðir Drottni.

24Allt eru tvenndir, eitt andhverfa annars,

hann skapaði ekkert ófullkomið.

25Eitt eykur á annars gildi,

hver getur þreyst á að skoða dýrð Drottins?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help