1Um þessar mundir var lesið úr bók Móse fyrir fólkið. Þá fannst ritað í henni: „Hvorki Ammóníti né Móabíti má nokkru sinni ganga í söfnuð Guðs
2af því að þeir færðu Ísraelsmönnum hvorki brauð né vatn. Móab keypti Bíleam til að bölva þeim. En Guð okkar breytti bölvuninni í blessun.“
3Eftir að hafa hlýtt á lögmálið greindu þeir allt fólk af blönduðum uppruna frá Ísrael.
4Áður hafði Eljasíb prestur verið settur yfir geymsluherbergið í húsi Guðs okkar. Hann var ættingi Tobía
5og hafði útbúið handa honum stórt herbergi. Þar hafði áður verið geymt mjöl til kornfórnar, reykelsi og áhöld, einnig hin lögbundnu afgjöld af korni, víni og olíu til Levítanna, söngvaranna og hliðvarðanna og greiðslur til prestanna.
6Ég var ekki í Jerúsalem þegar allt þetta gerðist því að á þrítugasta og öðru stjórnarári Artaxerxesar Babýloníukonungs hafði ég farið til konungs. En að nokkrum tíma liðnum beiddist ég orlofs af konungi.
7Þegar ég kom aftur til Jerúsalem komst ég að því hvílíka óhæfu Eljasíb hafði unnið fyrir Tobía með því að búa honum herbergi í forgörðum húss Guðs.
8Mér mislíkaði þetta mjög og kastaði öllum húsmunum Tobía út úr herberginu á götuna
9og skipaði að herbergið skyldi hreinsað. Því næst lét ég flytja þangað aftur áhöld húss Guðs, mjölið í kornfórnina og reykelsið.
10Ég komst einnig að því að framlög til Levítanna höfðu ekki verið innt af hendi og að Levítar og söngvarar, sem gegndu þjónustu, hefðu hrökklast til jarða sinna.
11Ég ásakaði því embættismennina og spurði: „Hvers vegna er hús Guðs vanrækt?“ Því næst sótti ég Levítana og lét þá gegna störfum sínum að nýju.
12Allir Júdamenn tóku nú aftur að greiða tíund af korni, víni og olíu í birgðageymslurnar
13og ég skipaði Selemja prest, Sadók fræðimann og Pedaja, einn af Levítunum, yfir birgðageymslurnar. Þeim til aðstoðar skipaði ég Hanan Sakkúrsson, Mattanjasonar. Þeir voru taldir traustir menn og þeim bar að skipta tíundinni á meðal starfsbræðra sinna.
14Guð minn, minnstu mín vegna þessa. Afmáðu ekki þau góðu verk sem ég hef unnið fyrir hús Guðs míns og þjónustuna í því.
15Um þessar mundir sá ég fólk troða vínþrær á hvíldardegi í Júda. Einnig sá ég fólk hirða korn og klyfja asna. Það flutti einnig vín, vínber, fíkjur og alls kyns vörur til Jerúsalem á hvíldardegi en ég varaði það við að selja matarbirgðir sínar á þessum degi.
16Fólk frá Týrus, sem bjó í Jerúsalem, flutti þangað fisk og alls kyns vörur og bauð íbúum í Júda til kaups í Jerúsalem á hvíldardegi.
17Þá ávítaði ég höfðingjana í Júda og sagði við þá: „Hvílíka svívirðu vinnið þið með því að vanhelga hvíldardaginn!
18Var það ekki þetta sem feður ykkar gerðu svo að Guð okkar sendi þessa ógæfu yfir okkur og þessa borg? Nú ætlið þið að kalla enn meiri reiði yfir Ísrael með því að vanhelga hvíldardaginn.“
19Þegar skuggar borgarhliða Jerúsalem lengdust við upphaf hvíldardagsins skipaði ég að hliðunum skyldi lokað. Eins mælti ég fyrir um að þau skyldu ekki opnuð fyrr en við lok hvíldardagsins. Jafnframt setti ég nokkra af mönnum mínum á vörð við hliðin svo að enginn flutningur færi um þau á hvíldardeginum.
20Þá létu kaupmennirnir og vörusalarnir fyrirberast um nótt utan við Jerúsalem í eitt eða tvö skipti.
21En ég ávítaði þá og sagði: „Hvers vegna látið þið fyrirberast úti fyrir múrnum að næturlagi? Ef þið gerið það aftur læt ég leggja hendur á ykkur.“ Upp frá því komu þeir ekki aftur á hvíldardegi.
22Þá skipaði ég Levítunum að þeir skyldu hreinsa sig og koma til að standa vörð við hliðin svo að helgi hvíldardagsins yrði virt.
Guð minn, minnstu mín einnig vegna þessa. Vertu mér miskunnsamur sakir þinnar miklu gæsku.
23Um þessar mundir sá ég Gyðinga sem höfðu gengið að eiga konur frá Asdód, Ammón og Móab.
24Helmingur barna þeirra talaði tungu Asdód eða mál einhverrar af hinum þjóðunum en kunni ekki að tala mál Gyðinga.
25Ég ávítaði þá og bölvaði þeim, sló nokkra þeirra og hárreytti þá og særði þá við Guð: „Þið megið hvorki gefa dætur ykkar sonum þeirra né taka dætur þeirra handa sonum ykkar eða sjálfum ykkur að eiginkonum.
26Var það ekki vegna slíkra kvenna sem Salómon, konungur Ísraels, syndgaði? Meðal allra hinna mörgu þjóða var enginn konungur hans jafningi. Hann var elskaður af Guði sínum og þess vegna gerði Guð hann að konungi yfir öllum Ísrael en hinar útlendu konur gátu leitt jafnvel hann til syndar.
27Þarf það nú að heyrast um ykkur að þið fremjið sömu svívirðu og rjúfið trúnað við Guð okkar með því að ganga að eiga útlendar konur?“
28Einn af sonum Jójada Eljasíbssonar æðsta prests var tengdasonur Sanballats frá Hóron. Ég rak hann frá mér.
29Guð minn, minnstu þeirra því að þeir hafa saurgað prestdóminn og sáttmála presta og Levíta.
30Ég hreinsaði þá af öllu framandlegu og setti reglur um þjónustu presta og Levíta, sem kváðu á um verk hvers og eins.
31Ég setti einnig reglur um að flytja skyldi brenni á tilteknum tímum og einnig um frumgróðann.
Guð minn, minnstu þessa mér til góðs.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.