1Þegar máltíðinni var lokið vildu þau ganga til hvílu. Fylgdu þau unga manninum inn í herbergið.
2Tóbías minntist orða Rafaels og tók lifur og hjarta fisksins upp úr pokanum sem hann hafði geymt það í og lagði á reykelsisglæður.
3Lyktin af fiskinum hrakti illa andann frá og flýði hann alla leið til Egyptalands. En Rafael elti hann uppi, tók hann til fanga og fjötraði hann þar.
4Er hin höfðu gengið út úr herberginu og lokað dyrum reis Tóbías úr rekkjunni og sagði: „Systir, stattu upp. Við skulum ákalla og biðja Drottin okkar að hann veiti okkur miskunn og vernd.“
5Hún stóð upp og þau tóku að ákalla Guð og biðja um hjálp og hóf Tóbías bæn sína með þessum orðum:
Bæn TóbíasarLofaður sért þú, Guð feðra vorra,
lofað sé nafn þitt hjá öllum kynslóðum um eilífð.
Himnarnir og öll sköpun þín lofsyngi þér um aldir alda.
6Þú skapaðir Adam
og Evu konu hans honum til hjálpar og stuðnings.
Frá þeim báðum er allt mannkyn komið.
Þú sagðir: „Eigi er það gott að maðurinn sé einsamall.
Látum oss gera hjálp honum líka.“
7Þú veist að það er ekki af girnd
sem ég tek mér þessa systur mína fyrir eiginkonu,
heldur af einlægni.
Ég bið þig, miskunna mér og henni,
gef oss að verða öldruð saman.
8Einum rómi sögðu þau: „Amen, amen,“
9og lögðust síðan til svefns.
Kvíðnir foreldrarEn Ragúel reis úr rekkju, kallaði á þjóna sína og fór út með þeim og tóku þeir gröf
10því að hann hugsaði með sér: „Tóbías deyr sennilega líka og við verðum að athlægi og spotti.“
11Er þeir höfðu lokið við að taka gröfina hélt Ragúel inn og kallaði á konu sína:
12„Sendu eina af þjónustustúlkunum og láttu hana gæta að hvort Tóbías sé á lífi. En sé hann dáinn þá getum við greftrað hann og enginn verður neins vísari.“
13Þau sendu þjónustustúlkuna, kveiktu á lampa og luku upp hurðinni á herberginu. Þegar þjónustustúlkan kom inn sá hún að bæði lágu sofandi.
14Gekk hún þá út og sagði hjónunum að Tóbías væri á lífi og að allt væri með felldu.
15Þau lofuðu Guð himinsins og sögðu:
Lofgjörð Ragúels og EdnuLofaður sért þú, Guð,
með sérhverri hreinni lofgjörð.
Lofaður sért þú að eilífu.
16Lofaður sért þú fyrir að gleðja mig
og að það varð eigi sem ég kveið,
heldur auðsýndir þú oss mikla miskunn.
17Lofaður sért þú
fyrir að miskunna einkabörnunum báðum.
Veittu þeim, Drottinn, miskunn og vernd.
Lát þau njóta náðar og gleði til æviloka.
18Þá sagði Ragúel þjónum sínum að fylla gröfina áður en lýsti af degi.
Brúðkaupsveislan19Síðan sagði Ragúel konu sinni að baka mikið af brauði. Sjálfur gekk hann til hjarðar sinnar, tók tvö naut og fjóra hrúta sem hann bauð að búa skyldi til slátrunar og var hafist handa um það.
20Hann sendi eftir Tóbíasi og sagði: „Í fjórtán daga máttu ekki hreyfa þig héðan. Þú skalt dvelja hjá mér og eta og drekka. Það mun gleðja dóttur mína sem liðið hefur mikið.
21Og af öllu sem ég á máttu taka helminginn nú þegar og fara með það heill á húfi til föður þíns. Hinn helminginn fáið þið þegar ég og kona mín erum öll. Vertu áhyggjulaus, barnið mitt. Ég er faðir þinn og Edna móðir þín og við munum standa við hlið þér og systur þinnar héðan í frá og að eilífu. Vertu áhyggjulaus, barn.“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.