Viðaukar við Daníelsbók 3 - Biblían (2007)

Bæn Asarja og lofsöngur ungmennanna þriggjaBæn Asarja

24Þeir gengu um í logunum, sungu Guði lof og vegsömuðu Drottin.

25Þá nam Asarja staðar, tók að biðja, hóf upp raust sína umluktur logunum og sagði:

26Lofaður sért þú og tignaður, Drottinn Guð feðra vorra.

Vegsamað sé nafn þitt að eilífu.

27Réttlátur ert þú í öllu sem þú gerir,

öll verk þín eru sönn,

brautir þínar beinar

og allir dómar þínir réttlátir.

28Þeir dómar voru réttir sem þú lést yfir oss ganga

og yfir Jerúsalem, hina helgu borg feðra vorra.

Það var sakir sannleikans og réttlætisins

að þú lést þetta koma yfir oss.

Allt var það vegna synda vorra.

29Því að vér syndguðum,

afræktum lögmálið og snerum baki við þér.

Í öllu syndguðum vér.

30Vér hlýddum hvorki á né héldum boðorð þín

og breyttum ekki eins og þú hafðir boðið oss til blessunar.

31Allt, sem þú lést yfir oss koma og að höndum bera,

var að öllu leyti réttlátur dómur.

32Þú ofurseldir oss siðlausum óvinum,

fjandsamlegum guðleysingjum,

ranglátum konungi, þeim hatrammasta í heimi hér.

33Nú er oss varnað máls

og vér, sem þjónum þér og tilbiðjum þig,

megum bera hneisu og háðung.

34Útskúfa oss eigi um aldur og ævi sakir nafns þíns,

nem eigi sáttmála þinn úr gildi.

35Lát þú miskunn þína eigi hverfa frá oss

sakir Abrahams sem þú unnir og Ísaks þjóns þíns

og þíns heilaga Ísraels.

36Þú hést þeim

niðjamergð líkri stjörnum himins

eða sandkornum á sjávarströnd.

37En vér erum, Drottinn, orðnir smærri öllum þjóðum,

auvirðilegastir allra í heimi vegna synda vorra.

38Um þessar mundir er enginn höfðingi,

enginn spámaður eða leiðtogi,

hvorki er brenni- né sektarfórn,

matfórn eða reykelsi,

enginn staður til að bera þér fórn

og finna miskunn.

39Tak á móti oss er vér komum

með þjakaða sál og auðmjúkan anda

40eins og vér færðum þér hrúta og naut,

tíu þúsund feit lömb að brennifórn.

Lít þannig á fórn vora í dag,

veit oss að hlýðnast þér í öllu.

Þeir sem treysta þér munu eigi til skammar verða.

41Vér fylgjum þér af öllu hjarta,

vér óttumst þig og leitum auglitis þíns.

42Lát oss eigi til skammar verða.

Auðsýn oss náð þína og miklu mildi.

43Frelsa þú oss, Drottinn,

sakir undursamlegs máttar þíns,

og ger nafn þitt dýrlegt.

44Lát alla þá sem vinna þjónum þínum mein

til skammar verða.

Niðurlægðu þá og sviptu þá veldi og mætti,

brjót þú styrk þeirra á bak aftur.

45Lát þá komast að raun um

að þú einn ert Drottinn Guð,

tignaður um heimsbyggð alla.

46Þjónar konungs, sem varpað höfðu ungmennunum inn í ofninn, kyntu hann án afláts með olíu, biki, hampi og hrísi.

47Stóð eldstrókurinn fjörutíu og níu álnir upp af ofninum

48og dreifðist svo að hann brenndi Kaldeumennina sem stóðu nærri honum.

49En engill Drottins hafði stigið niður í eldinn til að vera hjá Asarja og félögum hans. Hann hratt logunum út úr ofninum

50svo að innst í honum varð sem í úrsvölum strekkingi. Eldurinn snerti mennina ekki og gerði þeim ekki heldur neitt til miska.

Lofsöngur ungmennanna þriggja

51Þá tóku mennirnir þrír að lofa Guð einum rómi, vegsama hann og

tigna með þessum orðum:

52Lofaður sért þú, Guð feðra vorra,

vegsamaður og miklaður að eilífu.

Lofað sé dýrlegt og heilagt nafn þitt,

vegsamað sé það stórum og miklað að eilífu.

53Lofaður sért þú í musteri heilagrar dýrðar þinnar,

lof sé þér sungið og dýrð umfram allt annað.

54Lofaður sért þú sem sérð ofan í djúpið

frá hásæti þínu á kerúbunum,

lofaður sért þú og hátt upphafinn að eilífu.

55Lofaður sért þú í hásæti ríkis þíns,

lof sé þér sungið og þú hátt upphafinn að eilífu.

56Lofaður sért þú á festingu himins,

lof sé þér sungið og miklaður sértu að eilífu.

57Lofið Drottin, öll hans verk,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

58Lofið Drottin, þér himnar,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

59Lofið Drottin, þér englar hans,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

60Lofið Drottin, vötnin öll ofar himnum,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

61Lofið Drottin, allar hersveitir hans,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

62Lofið Drottin, sól og máni,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

63Lofið Drottin, þér stjörnur himins,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

64Lofið Drottin, þér regn og dögg,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

65Lofið Drottin, þér vindar allir,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

66Lofið Drottin, þér eldur og breyskja,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

67Lofið Drottin, þér frost og funi,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

68Lofið Drottin, þér dögg og drífa,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

69Lofið Drottin, þér dagar og nætur,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

70Lofið Drottin, þér ljós og myrkur,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

71Lofið Drottin, þér hrím og ís,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

72Lofið Drottin, þér frost og hrím,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

73Lofið Drottin, þér eldingar og ský,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

74Lofa Drottin, jörð,

vegsama hann og mikla að eilífu.

75Lofið Drottin, þér fjöll og hæðir,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

76Lofa Drottin, allt sem grær á grundu,

vegsama hann og mikla að eilífu.

77Lofið Drottin, þér höf og fljót,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

78Lofið Drottin, þér lindir,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

79Lofið Drottin, þér hvalir og allt sem hrærist í vötnunum,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

80Lofið Drottin, allir fuglar himins,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

81Lofið Drottin, búfénaður og villidýr,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

82Lofa Drottin, mannkyn allt,

vegsama hann og mikla að eilífu.

83Lofið Drottin, þér Ísraelsmenn,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

84Lofið Drottin, þér prestar hans,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

85Lofið Drottin, þér þjónar hans,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

86Lofið Drottin, þér réttlátu sálir og andar,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

87Lofið Drottin, þér heilögu og auðmjúku í hjarta,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

88Lofið Drottin, þér Ananías, Asarja og Mísael,

vegsamið hann og miklið að eilífu.

Því að hann hefur hrifið oss úr helju,

frelsað oss undan valdi dauðans,

bjargað oss frá logum eldsofnsins,

úr bálinu miðju bjargaði hann oss.

89Þakkið Drottni því að hann er góður

og miskunn hans varir að eilífu.

90Lofið Drottin, guðanna Guð, allir þér sem dýrkið hann,

syngið honum lof og þakkargjörð

því að miskunn hans varir að eilífu.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help