Speki Salómons 6 - Biblían (2007)

Ábyrgð valdhafa

1Heyrið, þér konungar, og skiljið.

Nemið, þér sem drottnið um víða veröld.

2Hlýðið á, þér sem ríkið yfir mönnum,

þér sem hreykið yður af fjöld þegna yðar.

3Drottinn hefur veitt yður valdið

og Hinn hæsti gefið yður ríkið.

Hann mun rannsaka verk yðar og grandskoða ráð yðar.

4Þér eruð þjónar í ríki hans en hafið ekki drottnað réttlátlega.

Þér hafið ekki haldið lögmálið

og ekki breytt eftir vilja Guðs.

5Óvænt og ógnandi mun hann standa andspænis yður.

Vægðarlaus dómur mun ganga yfir valdhafana.

6Guð mun miskunna og fyrirgefa smælingjum

en voldugum verður vald hans óþyrmilegt.

7Því að sá sem yfir öllum ríkir fer ekki í manngreinarálit

og er ófeiminn við steigurlæti.

Hann hefur sjálfur skapað háan og lágan

og elur jafnt önn fyrir öllum.

8En hinna voldugu bíður ströng rannsókn.

9Til yðar, þér einvaldar, beini ég nú máli mínu

svo að þér nemið speki og hrasið ekki.

10Þeir sem halda heilagt lögmál Guðs munu heilagir verða,

þeim sem hafa numið það mun varnar auðið.

11Verið því sólgnir í orð mín

og girnist þau og þér munuð fræðslu fá.

Gildi spekinnar

12Ljómandi er spekin og ófölnandi,

auðþekkt þeim sem elska hana

og auðfundin þeim er leita hennar.

13Að fyrra bragði birtist hún þeim sem þrá hana.

14Sá sem árla rís til að leita hennar þarf ekki að erfiða

því hann finnur hana sitjandi við dyrnar.

15Það eitt að hugsa um hana eru fullkomin hyggindi.

Sá sem vakir hennar vegna verður skjótt áhyggjulaus.

16Sjálf fer hún um og leitar þeirra sem eru hennar verðir.

Hún birtist þeim hliðholl hvar sem þeir fara

og kemur ætíð til móts við þá þegar þeir hugsa um hana.

17Einlæg þrá eftir fræðslu er upphaf spekinnar.

18Viðleitni til að fræðast er að elska hana.

Að elska hana er að halda boð hennar.

Að halda boð hennar tryggir ódauðleika.

19Ódauðleikinn færir mann í nánd við Guð.

20Þannig leiðir þrá eftir speki til konungdóms.

21Fyrst þér einvaldar dáið hásæti og veldissprota

skuluð þér hafa spekina í hávegum, þá munuð þér ríkja um aldur.

22Ég skal kunngjöra hvað spekin er og hvernig hún er til orðin

og eigi dylja neina leyndardóma fyrir yður

heldur rekja spor hennar frá upphafi sköpunar,

gera þekkingu á henni ljósa

og í engu hvika frá sannleikanum.

23Ekki á ég samleið með tærandi öfundinni

því að hún á ekkert sameiginlegt með spekinni.

24Nei, margir spekingar eru heiminum hjálpráð

og hygginn konungur er þjóðarheill.

25Látið því fræðast af orðum mínum, það mun yður að gagni koma.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help