Fimmta Mósebók 22 - Biblían (2007)

Ýmis ákvæði

1Þú skalt ekki horfa aðgerðalaus á naut eða sauðfé bróður þíns á flækingi heldur skalt þú þegar í stað reka þau aftur til hans.

2Búi bróðir þinn ekki í grennd við þig eða þú þekkir hann ekki skaltu hafa dýrið heim með þér og hafa það hjá þér þar til bróðir þinn leitar þess. Þá skaltu fá honum það aftur.

3Eins skaltu fara með asna hans, klæðnað eða hvað annað sem bróðir þinn týnir en þú finnur. Þannig skaltu fara með það. Þú skalt ekki láta það afskiptalaust.

4Þú skalt ekki horfa aðgerðalaus á asna bróður þíns eða uxa liggja afvelta á veginum. Þú skalt ekki leiða það hjá þér heldur ber þér að hjálpa honum að reisa þá á fætur.

5Kona skal ekki bera karlmannaklæði og karlmaður skal ekki klæðast kvenfatnaði því að hver sem það gerir er Drottni, Guði þínum, viðurstyggð.

6Ef þú rekst á hreiður með ungum eða eggjum á leið þinni, hvort heldur er uppi í tré eða á jörðinni, og móðirin liggur á ungum eða eggjum, máttu ekki taka móðurina með eggjunum eða með ungunum.

7Þú skalt sleppa móðurinni en ungana máttu taka svo að þér vegni vel og þú lifir langa ævi.

8Þegar þú reisir nýtt hús skaltu gera brjóstrið umhverfis þakið svo að þú bakir húsi þínu ekki blóðsök ef einhver dytti ofan af þakinu.

9Þú skalt ekki sá neinu innan um vínviðinn í víngarði þínum því að þá fellur til helgidómsins bæði það sem þú sáðir og uppskeran úr víngarðinum.

10Þú skalt ekki plægja með nauti og asna saman.

11Þú skalt ekki klæðast fatnaði sem ofinn er úr tvenns konar efni, ull og hör.

12Þú skalt koma skúfum fyrir á fjórum hornum skikkju þinnar sem þú sveipar um þig.

Sifjaréttarákvæði

13Ef maður gengur að eiga konu og samrekkir henni en fær þá óbeit á henni,

14sakar hana um skammarlegt athæfi, spillir mannorði hennar og segir: „Ég kvæntist þessari konu en þegar ég nálgaðist hana fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,“

15þá skulu faðir stúlkunnar og móðir taka sönnunargagn um meydóm hennar og fara með það til öldunga borgarinnar, á þingstaðinn í borgarhliðinu.

16Faðir stúlkunnar skal segja við öldungana: „Ég gaf þessum manni dóttur mína fyrir eiginkonu en hann hefur óbeit á henni.

17Hann sakar hana um skammarlegt athæfi og spillir mannorði hennar og segir: Ég fann ekki meydómsmerki hjá dóttur þinni. En hér er sönnunin fyrir meydómi dóttur minnar.“ Því næst skulu þau breiða út rekkjuvoðina í augsýn öldunga borgarinnar.

18Þá skulu öldungar borgarinnar taka manninn og refsa honum.

19Þeir skulu sekta hann um hundrað sikla silfurs og afhenda föður stúlkunnar þá því að þessi maður hefur spillt mannorði óspjallaðrar meyjar í Ísrael. Hún skal vera eiginkona hans framvegis og honum skal ekki heimilt að skilja við hana alla ævi sína.

20En reynist ásökunin rétt og engin sönnunargögn fyrir meydómi stúlkunnar finnast

21skal færa stúlkuna að húsdyrum föður hennar. Þá skulu íbúar heimaborgar hennar grýta hana í hel því að hún hefur framið svívirðingu í Ísrael með því að hórast í föðurgarði. Þú skalt uppræta hið illa þín á meðal.

22Ef maður er staðinn að því að liggja með eiginkonu annars manns skulu bæði tekin af lífi, maðurinn sem lá hjá konunni og konan sjálf. Þú skalt eyða hinu illa úr Ísrael.

23Ef óspjölluð mey er föstnuð manni og einhver annar hittir hana í borginni og leggst með henni

24skuluð þið færa þau bæði að borgarhliðinu og grýta þau í hel, stúlkuna af því að hún hrópaði ekki á hjálp í borginni og manninn af því að hann spjallaði konu náunga síns. Þú skalt eyða hinu illa þín á meðal.

25Ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, tekur hana með valdi og leggst með henni skal maðurinn, sem lagðist með henni, einn deyja.

26Þú skalt ekki gera stúlkunni neitt, hún hefur ekkert gert sem varðar dauðasök. Þetta mál er áþekkt því að maður ráðist á annan og myrði hann.

27Þar sem hann hitti stúlkuna úti á víðavangi kann fastnaða stúlkan að hafa hrópað á hjálp en enginn verið þar til að hjálpa henni.

28Ef maður hittir óspjallaða stúlku sem ekki er föstnuð, tekur hana með valdi og leggst með henni og komið er að þeim

29skal maðurinn, sem lagðist með stúlkunni, greiða föður hennar fimmtíu sikla silfurs. Hún skal verða eiginkona hans sakir þess að hann spjallaði hana og honum skal ekki heimilt að skilja við hana alla ævi sína.

30Enginn má kvænast stjúpu sinni því að hann má ekki fletta upp ábreiðu föður síns.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help