Malakí 3 - Biblían (2007)

1Sjá, ég sendi sendiboða minn, hann á að ryðja mér braut. Drottinn, sem þið leitið, kemur skyndilega til musteris síns og boðberi sáttmálans, sem þið þráið, hann kemur, segir Drottinn hersveitanna.

2Hver getur afborið daginn þegar hann kemur, hver fær staðist þegar hann birtist? Hann er eins og eldur í bræðsluofni, eins og lútur sem bleikir þvott.

3Hann sest til að bræða silfrið og hreinsa það, hann hreinsar syni Leví, hann gerir þá sem hreint silfur og skíragull. Þá munu þeir færa Drottni fórnargjafir á réttan hátt.

4Þá verða fórnir Júdamanna og Jerúsalembúa þóknanlegar eins og forðum daga og á löngu liðnum árum.

5Ég mun koma til ykkar og halda dómþing. Ég kem brátt og vitna gegn galdramönnum, hórkörlum og meinsærismönnum, gegn öllum sem halda launum fyrir daglaunamönnum, kúga ekkjur og munaðarleysingja og þjaka aðkomumenn og óttast mig ekki, segir Drottinn hersveitanna.

6Því að ég, Drottinn, er ekki breyttur og þið ekki hættir að vera synir Jakobs.

7Allt frá dögum forfeðra ykkar hafið þið vikið frá lögum mínum, þið hélduð þau ekki. Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar, segir Drottinn hersveitanna.

En þið spyrjið: „Hvernig getum við snúið aftur?“ Getur maðurinn prettað Guð? Samt svíkið þið mig.

8En þið spyrjið: „Með hverju höfum við svikið þig?“ Með tíundum og afgjöldum.

9Bölvun hvílir á ykkur því að þið svíkið mig, þjóðin öll.

10Færið tíundina alla í forðabúrið svo að matföng séu til í húsi mínu. Reynið mig með þessu, segir Drottinn hersveitanna, og sjáið hvort ég lýk ekki upp flóðgáttum himins og helli yfir ykkur óþrjótandi blessun.

11Ég mun reka burt átvarginn fyrir ykkur svo að hann eyði ekki afrakstri jarðar og vínuppskeran bregðist ekki í landinu, segir Drottinn hersveitanna.

12Þá munu allar aðrar þjóðir telja ykkur sæla því að þið eigið dýrindis land, segir Drottinn hersveitanna.

Dagur réttlætisins

13Þið farið hörðum orðum um mig, segir Drottinn. Þið spyrjið: „Hvað höfum við sagt um þig?“

14Þið segið: „Það er til einskis að þjóna Guði. Hvaða ávinning höfum við af að hlýða boðum hans og ganga í sorgarklæðum frammi fyrir Drottni hersveitanna?

15Við teljum hrokagikkina sæla, óguðlegum vegnar vel. Þeir freista Guðs en sleppa við hegningu.“

16Um þetta töluðu þeir hver við annan, sem óttuðust Drottin, og Drottinn hlýddi á með athygli. Frammi fyrir honum var skrifuð bók til að minna á alla sem óttast Drottin og virða nafn hans.

17Þeir skulu verða mín eign, segir Drottinn hersveitanna, á þeim degi sem ég hefst handa. Ég mun vægja þeim eins og maður vægir syni sínum sem þjónar honum.

18Þá munuð þið enn einu sinni sjá muninn á réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki.

19Sjá, dagurinn kemur, logandi sem eldstó. Þá verða allir hrokagikkir og óguðlegir að hálmi og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim, segir Drottinn hersveitanna, svo að hvorki verður eftir af þeim rót né grein.

20En sól réttlætisins mun rísa yfir ykkur, sem virðið nafn mitt, og vængir hennar færa lækningu. Þá munuð þið koma út, stökkva eins og kálfar sem hleypt er úr fjósi.

21Þið munuð traðka óguðlega niður svo að þeir verða að ryki undir iljum ykkar daginn sem ég hefst handa, segir Drottinn hersveitanna.

Endurkoma Elía spámanns

22Hafið lögmál Móse, þjóns míns, hugfast. Vegna alls Ísraels fékk ég honum það á Hóreb, með boðum þess og ákvæðum.

23Sjá, ég sendi Elía spámann til ykkar áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.

24Hann mun sætta feður við syni og syni við feður svo að ég verði ekki að helga landið banni þegar ég kem.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help