Jósúabók 11 - Biblían (2007)

Landvinningar í norðri

1Þegar Jabín, konungur í Hasór, frétti þetta sendi hann boð til Jóbabs, konungs í Madón, konungsins í Simron, konungsins í Aksaf

2og konunganna norður í fjalllendinu og á Arabasléttunni sunnan Kinneret og á láglendinu og á Dórhæðum í vestri,

3einnig til Kanverjanna í austri og vestri, Amorítanna, Hetítanna, Peresítanna og Jebúsítanna í fjalllendinu og til Hevítanna undir Hermon í Mispalandi.

4Þeir héldu af stað með allar hersveitir sínar. Voru hermennirnir sem sandur á sjávarströnd og auk þess mikill fjöldi hesta og vagna.

5Allir þessir konungar komu nú saman, héldu af stað og slógu upp einum herbúðum við Merómvatn og bjuggust til bardaga við Ísraelsmenn.

6Þá sagði Drottinn við Jósúa:

„Óttastu ekki frammi fyrir þeim. Um þetta leyti á morgun mun ég láta þá alla liggja gegnumstungna frammi fyrir Ísrael. Þá skalt þú skera hásinarnar á hestum þeirra og brenna vagna þeirra í eldi.“

7Jósúa og allur her hans kom að þeim óvörum hjá Merómvatni og réðst á þá

8og Drottinn seldi þá Ísraelsmönnum í hendur. Þeir sigruðu þá og veittu þeim eftirför alla leið að Sídon hinni miklu og Misrefót Majím allt austur á Mispasléttu í austri. Þeir gjörsigruðu þá og komst enginn af.

9Jósúa fór með þá eins og Drottinn hafði fyrir hann lagt: Hann skar hásinar hesta þeirra og brenndi vagna þeirra í eldi.

10Því næst sneri Jósúa aftur og vann Hasór og felldi konung hennar með sverði. Áður var Hasór mest þessara konungsríkja.

11Þeir felldu alla íbúa borgarinnar með sverðseggjum og helguðu banni og þyrmdi Jósúa engu lifandi og lagði eld að Hasórborg.

12Jósúa náði öllum þessum konungsborgum á sitt vald. Hann felldi konunga þeirra með sverðseggjum og helgaði þær banni eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið.

13Samt brenndi Ísrael ekki allar þessar borgir sem enn standa á hæðum sínum, aðeins Hasór eina.

14Ísraelsmenn tóku allt herfang borganna sér til handa, einnig búfé þeirra, en hins vegar felldu þeir alla íbúana með sverðseggjum og tortímdu þeim. Þeir þyrmdu engu kviku.

15Það sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse, þjón sinn, bauð Móse Jósúa sem framfylgdi öllu sem Móse bauð og lét ekkert ógert af því sem Drottinn hafði boðið Móse.

16Jósúa tók fjalllendið og allt Suðurlandið, allt Gósenland og láglendið, Arabasléttuna og fjalllendi Ísraels og láglendið

17frá Halakfjalli, sem gnæfir yfir Seír, að Baal Gað í Líbanondalnum undir Hermonfjalli. Hann tók alla konunga þessara landa og hjó þá til bana.

18Jósúa háði stríð við alla þessa konunga langa hríð.

19Engin borg samdi frið við Ísraelsmenn nema Hevítarnir sem bjuggu í Gíbeon: Allar aðrar borgir varð að vinna með hernaði

20því að það var frá Drottni komið að efla þeim kjark í stríðinu gegn Ísrael til þess að þeir yrðu vægðarlaust helgaðir banni og þeim tortímt eins og Drottinn hafði boðið Móse.

21Á þessum tíma fór Jósúa upp í fjalllendið og eyddi einnig Anakítum úr fjöllunum, úr Hebron, Debír og Anab og úr öllu fjalllendi Júda og Ísraels. Jósúa helgaði þá banni og borgir þeirra.

22Engir Anakítar urðu eftir í landi Ísraelsmanna heldur aðeins í Gasa, Gat og Asdód.

23Jósúa vann allt landið eins og Drottinn hafði lagt fyrir Móse. Jósúa fékk Ísrael það að erfðahlut, hverjum ættbálki sinn hlut. Þar með var ófriði lokið og landið hvíldist.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help