Jesaja 34 - Biblían (2007)

Sverð Drottins gegn Edóm

1Gangið nær, þjóðir, svo að þér heyrið,

hlýðið á, lýðir.

Jörðin heyri og allt sem á henni er,

heimurinn og allt sem í honum býr.

2Drottinn er reiður öllum þjóðum,

ofsareiður öllum þeirra her.

Hann hefur helgað þær banni,

framselt þær til slátrunar.

3Vegnum mönnum þeirra er burt kastað,

daun leggur af náum þeirra,

fjöllin fljóta í blóði þeirra.

4Allur himinsins her leysist upp

og himinninn vefst saman eins og bókfell

og allur her hans bliknar

eins og lauf á vínviði visnar

og ávöxtur skrælnar á fíkjutré.

5Sverð mitt birtist á himni,

nú lýstur því niður á Edóm

til að fullnægja dóminum

yfir þjóðinni sem ég hef helgað banni.

6Sverð Drottins er alblóðugt,

löðrandi af feiti,

af blóði lamba og geithafra

og nýrnamör hrúta.

Því að Drottinn heldur fórnarveislu í Bosra,

mikla slátrun í Edóm.

7Þá falla villinaut ásamt þeim,

ungneyti og uxar.

Land þeirra verður mettað blóði,

jarðvegurinn blandaður feiti.

8Því að þetta er hefndardagur Drottins,

ár endurgjaldsins til að reka réttar Síonar.

9Lækir Edóms verða að biki,

jarðvegurinn að brennisteini,

land hans breytist í brennandi bik

10sem slokknar hvorki dag né nótt

og reyk leggur upp af um aldur og ævi.

Landið mun liggja í eyði frá kyni til kyns,

frá eilífð til eilífðar mun enginn fara þar um.

11Ugla og broddgöltur munu slá eign sinni á það,

náttugla og hrafn munu setjast þar að.

Drottinn mældi það með mælivað upplausnar

og mælilóði auðnar.

12Þar verður enginn konungur hylltur framar,

engir höfðingjar verða þar til.

13Þyrnar munu spretta í höllunum,

netlur og þistlar í virkjunum.

Landið verður bæli sjakala,

dvalarstaður strútfugla.

14Urðarkettir og sjakalar munu koma þar saman

og geitapúkar munu mætast þar.

Þar staldrar Lilít einnig við og finnur þar hvíldarstað.

15Naðran á sér þar hreiður,

hún verpir þar, liggur á og klekur í skugganum.

Þar munu gammar safnast saman

hver hjá öðrum.

16Leitið í bók Drottins og lesið:

Ekkert þeirra mun vanta,

ekkert þeirra saknar annars

því að munnur Drottins hefur boðið þetta,

andi hans hefur sjálfur stefnt þeim saman.

17Hann hefur varpað hlutkesti fyrir þau,

með eigin hendi hefur hann skipt landinu milli þeirra með mælivað:

Þau munu eiga það um aldur og ævi

og búa þar frá einni kynslóð til annarrar.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help