Önnur Makkabeabók 8 - Biblían (2007)

Júdas Makkabeus gerir uppreisn

1Júdas, sem kallaður var Makkabeus, og menn hans fóru á laun um þorpin og söfnuðu um sig liði meðal landa sinna. Gengu sex þúsund, sem haldið höfðu trúnað við gyðingdóm, til liðs við þá.

2Þeir ákölluðu Drottin að líta til þjóðarinnar, sem var þjökuð af öllum, taka að sér musterið, sem guðlausir höfðu saurgað,

3og miskunna sig yfir hina eyddu borg sem var nær jöfnuð við jörðu. Báðu þeir Drottin að heyra blóð hinna myrtu sem hrópaði á hann

4og minnast þess að guðleysingjarnir hefðu myrt saklaus börn og lastað nafn hans. Báðu þeir hann að sýna að hann hataði vonskuna.

5Þegar Makkabeus hafði safnað liði varð ógerlegt fyrir heiðingjana að standa gegn honum því að reiði Drottins hafði snúist í miskunn.

6Er minnst varði réðst Júdas á borgir og þorp og brenndi þau. Hann vann hernaðarlega mikilvæga staði er hann hrakti þaðan fjölmenn lið

7en slíkar árásir gerði hann oftast með bestum árangri í skjóli náttmyrkurs. Hvarvetna fór orð af hreysti hans.

Ptólemeus sendir Níkanor til árásar á Júdas

8Þegar Filippusi varð ljóst að maður þessi styrkti smám saman stöðu sína og bar sífellt oftar hærri hlut skrifaði hann Ptólemeusi, landstjóra í Norður-Sýrlandi og Fönikíu, og bað hann að koma málstað konungs til hjálpar.

9Hann valdi strax Níkanor Patróklusson, sem var einn fremstur vina konungs, og setti hann yfir ríflega tuttugu þúsundir manna, sem voru af öllu hugsanlegu heiðnu þjóðerni, og sendi hann af stað til að eyða allri Gyðingaþjóðinni. Hann sendi Gorgías með honum en hann var gamalreyndur herforingi.

10Níkanor einsetti sér að afla tvö þúsund talentna, sem konungur skuldaði Rómverjum í skatt, með því að selja hertekna Gyðinga í ánauð.

11Lét hann þá þegar boð út ganga til borganna við ströndina og bauð þeim gyðinglega þræla til kaups. Bauð hann níutíu fyrir talentuna og var grunlaus um að refsing Hins almáttuga vofði yfir honum.

Júdas kemst að fyrirætlunum Níkanors

12Júdasi bárust fregnir af herför Níkanors og þegar hann hafði sagt liðsmönnum sínum frá því að senn mundi her að mæta

13flýðu þeir sem huglausir voru og þeir sem ekki báru traust til réttlætis Guðs og komu sér undan.

14Hinir seldu allt sem þeir áttu og sameinuðust í bæn til Drottins um að bjarga sér frá hinum guðlausa Níkanor, sem hafði selt þá í ánauð, áður en á hólminn væri komið,

15ef ekki þeirra vegna þá sakir sáttmálanna sem Drottinn hafði gert við feður þeirra og vegna hins háa og heilaga nafns sem þjóðin bar.

16Síðan safnaði Júdas mönnum sínum saman, en þeir voru sex þúsund talsins, og hvatti þá til að missa ekki móðinn, er þeir sæju þennan aragrúa heiðingja stefna gegn sér með illt í huga, heldur berjast ódeigir.

17Skyldu þeir hafa hugfast ofbeldið sem hinn heilagi staður hafði mátt þola af heiðingjunum og það hvílík svívirða og misþyrmingar höfðu gengið yfir borgina og valdið upplausn arfhelgra siða.

18„Þeir treysta á vopn sín og dirfsku,“ sagði hann, „en við treystum almáttugum Guði sem með einni bendingu megnar að eyða bæði þessu árásarliði og jafnvel öllum heimi.“

19Einnig minnti hann þá á hve feðrum þeirra var oft komið til hjálpar, svo sem þegar eitt hundrað áttatíu og fimm þúsund óvinum var eytt á tímum Sanheríbs,

20og hvernig stríðinu gegn Galötum í Babýloníu lyktaði. Þá höfðu einungis átta þúsund þeirra gengið til liðs við fjögur þúsund Makedóníumenn í orrustu. Makedóníumönnum féllust hendur en átta þúsund eyddu eitt hundrað og tuttugu þúsund óvinum með Guðs hjálp og tóku mikið herfang.

Júdas sigrar Níkanor

21Þegar Júdas hafði stappað í þá stálinu með orðum sínum voru þeir albúnir að deyja fyrir lögmálið og föðurlandið. Hann skipaði her sínum í fjórar fylkingar

22og setti bræður sína yfir hverja þeirra. Símon, Jósef og Jónatan höfðu hver fimmtán hundruð mönnum á að skipa

23og einnig Eleasar. Er Júdas hafði lesið fyrir þá upp úr hinni helgu bók gaf hann þeim herópið: „Með Guðs hjálp!“ Fór hann sjálfur fyrir fremstu hersveitinni og lagði til atlögu við Níkanor.

24Þar sem Hinn almáttugi var í liði með þeim felldu þeir meira en níu þúsund óvini, særðu og limlestu bróðurpartinn af her Níkanors og stökktu öllu liði hans á flótta.

25Þeir tóku peningana af þeim sem komnir voru til að kaupa þá sjálfa og ráku flótta óvinanna lengi en urðu að snúa aftur því að tíminn var naumur.

26Þetta var enda aðfangadagur hvíldardagsins og þess vegna gátu þeir ekki veitt þeim eftirför.

27Þegar þeir höfðu safnað vopnum óvinanna saman og fært þá úr herklæðum héldu þeir hvíldardaginn, fluttu Drottni þakkargjörð og fögnuðu og lofsungu honum sem bjargaði þeim þennan dag og auðsýndi þeim fyrsta tákn miskunnar sinnar.

28Að hvíldardeginum liðnum deildu þeir hluta herfangsins meðal fórnarlamba ofsóknanna, ekkna og munaðarleysingja. Afganginum skiptu þeir milli sín og barna sinna.

29Þegar því var lokið sameinuðust þeir í bæn og báðu miskunnsaman Drottin að taka þjóna sína að fullu í sátt.

Júdas sigrar Tímóteus og Bakkídes

30Síðar kom til bardaga milli þeirra og manna Tímóteusar og Bakkídesar. Felldu þeir meira en tuttugu þúsund af liði þeirra og tóku nokkrar rammlega víggirtar borgir herskildi. Þegar þeir skiptu miklu herfangi létu þeir fórnarlömb úr ofsóknunum, ekkjur, munaðarlausa og gamalmenni hafa til jafns við sig.

31Þeir söfnuðu vopnum óvinanna vandlega saman og komu þeim fyrir á hentugum stöðum en það sem eftir var af herfanginu fluttu þeir til Jerúsalem.

32Þeir deyddu foringja riddaraliðs Tímóteusar. Var það mesta hrakmenni sem gert hafði Gyðingum mikið til miska.

33Þegar þeir síðan fögnuðu sigri í borg feðranna brenndu þeir þá inni sem kveikt höfðu í musterishliðunum. Meðal þeirra var Kallistenes sem hafði falið sig í litlu húsi. Hann fékk þar makleg málagjöld fyrir ódæði sín.

34En erkihrakmennið Níkanor, sem kom með þúsund kaupmenn til að selja þeim Gyðinga,

35var nú auðmýktur með Guðs hjálp af þeim sem hann sjálfur taldi aumasta allra. Varð hann að afskrýðast veglegum skrúða sínum og flýja aleinn um landið þvert rétt eins og strokuþræll. En hann mátti sannarlega hrósa happi að komast þó til Antíokkíu eins og farið hafði fyrir her hans.

36Og þessi maður, sem ætlaði að ná inn fyrir öllum stríðsskattinum til Rómverja með því að selja fanga frá Jerúsalem, varð nú að tilkynna að Gyðingar ættu Guð að bandamanni og væru þeir ósigrandi af því að þeir hlýddu lögmálinu sem hann hafði sett þeim.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help