1Drottinn talaði til Móse og sagði:
2„Talaðu við Aron og segðu við hann: Þegar þú setur upp lampana skulu þeir lýsa fram fyrir ljósastikuna allir sjö.“
3Þetta gerði Aron. Hann setti lampana þannig upp að þeir lýstu fram fyrir ljósastikuna eins og Drottinn hafði boðið Móse.
4Ljósastikan var gerð úr gulli með drifnu smíði. Bæði stétt hennar og blóm var drifið smíði. Móse hafði gert ljósastikuna eftir þeirri fyrirmynd sem Drottinn hafði sýnt honum.
Vígsla Levítanna5Drottinn talaði til Móse og sagði:
6„Greindu Levíta frá öðrum Ísraelsmönnum og hreinsaðu þá.
7Þetta skaltu gera við þá til að hreinsa þá: Stökktu á þá vatni sem hreinsar þá af synd. Síðan skulu þeir raka allan líkama sinn, þvo klæði sín og hreinsa sig.
8Því næst skulu þeir sækja ungneyti og þá kornfórn sem heyrir til, fínt mjöl, blandað olíu, til brennifórnar og annað naut til syndafórnar.
9Þá skaltu láta Levítana ganga fram fyrir samfundatjaldið og stefna saman öllum söfnuði Ísraels.
10Því næst skaltu láta Levítana ganga fram fyrir auglit Drottins og Ísraelsmenn skulu leggja hendur sínar yfir Levítana.
11Aron skal vígja Levítana frammi fyrir augliti Drottins fyrir hönd Ísraelsmanna. Síðan skulu Levítarnir hefja þjónustu við Drottin.
12Levítarnir skulu leggja hendur sínar á höfuð nautanna. Þá skaltu búa annað þeirra til syndafórnar en hitt til brennifórnar Drottni til handa til að friðþægja fyrir Levítana.
13Þú skalt leiða Levítana fram fyrir Aron og syni hans og vígja þá frammi fyrir augliti Drottins.
14Greindu þá frá öðrum Ísraelsmönnum, þannig verða Levítarnir mín eign.
15Síðan skulu Levítarnir koma og gegna þjónustu við samfundatjaldið. Þú skalt hreinsa þá og vígja.
16Af því að þeir voru greindir frá öðrum Ísraelsmönnum og fengnir mér að gjöf í stað þess sem opnar móðurlíf, í stað allra frumburða Ísraelsmanna, hef ég tekið þá mér til handa.
17Því að allir frumburðir Ísraelsmanna eru mín eign, bæði frumburðir manna og dýra. Daginn, sem ég laust alla frumburði í Egyptalandi til bana, helgaði ég mér þá
18og tók við Levítunum í stað allra frumburða Ísraelsmanna.
19Ég greini Levíta frá öðrum Ísraelsmönnum og fæ þá Aroni og sonum hans að gjöf til að gegna þjónustu fyrir Ísraelsmenn í samfundatjaldinu, til þess að þeir friðþægi fyrir Ísraelsmenn svo að ekki komi plága yfir þá þegar þeir koma nærri helgidóminum.“
20Móse, Aron og allur söfnuður Ísraelsmanna gerðu nákvæmlega allt það við Levítana sem Drottinn hafði boðið Móse.
21Levítarnir hreinsuðu sig af synd og þvoðu klæði sín og Aron vígði þá frammi fyrir augliti Drottins. Þannig friðþægði Aron fyrir þá til að hreinsa þá.
22Því næst komu Levítarnir og hófu störf sín við samfundatjaldið undir stjórn Arons og sona hans. Þeir gerðu nákvæmlega það sem Drottinn hafði boðið Móse.
23Drottinn talaði til Móse og sagði:
24„Þetta gildir um Levítana: Sérhver, sem er tuttugu og fimm ára eða eldri, skal koma til þjónustu og sinna störfum sínum við samfundatjaldið.
25En þegar hann er orðinn fimmtugur skal hann hætta þjónustu og störfum við samfundatjaldið.
26Hann má hjálpa bræðrum sínum við skyldustörf þeirra í samfundatjaldinu en ekki gegna neinni þjónustu. Þannig skaltu skipuleggja skyldustörf Levíta.“
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.