Esekíel 6 - Biblían (2007)

Gegn blótstöðum á fjöllum

1Orð Drottins kom til mín:

2Mannssonur, snúðu andlitinu gegn fjöllum Ísraels, flyttu boðskap gegn þeim og segðu:

3Fjöll Ísraels, heyrið orð Drottins Guðs. Svo segir Drottinn Guð við fjöllin og hæðirnar, árfarvegina og dalina: Ég held gegn ykkur með sverði og eyði fórnarhæðum ykkar.

4Ölturu ykkar verða lögð í rúst og reykelsisölturun brotin og ég mun fleygja föllnum mönnum úr ykkar hópi fyrir framan skurðgoð ykkar.

5Ég mun setja lík Ísraelsmanna fyrir framan skurðgoð þeirra og dreifa beinum ykkar umhverfis ölturu ykkar.

6Hvar sem þið búið munu borgir ykkar liggja í rúst og fórnarhæðirnar verða yfirgefnar. Þar sem ölturu ykkar verða rústir og yfirgefin verða skurðgoð ykkar brotin eða gerð útlæg, reykelsisölturun mölbrotin, verk ykkar þurrkuð út.

7Vegnir menn munu liggja mitt á meðal ykkar. Þá skuluð þið skilja að ég er Drottinn.

8Ég mun skilja nokkra ykkar eftir. Þegar þeir ykkar sem sluppu undan sverðinu eru komnir meðal þjóðanna og ykkur hefur verið dreift um löndin

9munu þeir ykkar sem sluppu minnast mín á meðal þjóðanna sem þeir voru gerðir útlægir til. Þeir munu minnast mín sem hef kramið hórsek hjörtu þeirra sem sviku mig og hórsek augu þeirra sem tóku fram hjá mér með skurðgoðum sínum. Þá mun þeim bjóða við sjálfum sér vegna þeirra illverka sem þeir unnu með svívirðilegu athæfi sínu.

10Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn og að hótanir mínar um þessa ógæfu voru ekki innantóm orð.

11Svo segir Drottinn Guð: Sláðu saman lófunum og stappaðu með fætinum. Hrópaðu vei yfir öllum svívirðingum Ísraelsmanna. Þeir skulu falla fyrir sverði, hungri og drepsótt.

12Sá sem er fjarri skal deyja úr drepsótt og sá sem er í nánd skal falla fyrir sverði og sá sem kemst undan heill á húfi skal deyja úr hungri. Ég mun svala reiði minni á þeim.

13Þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar valkestirnir liggja innan um skurðgoðin, umhverfis ölturu þeirra á öllum háum hæðum og fjallatindum, undir hverju grænu tré og hverri laufgaðri eik, alls staðar þar sem þeir færðu skurðgoðum sínum þekkan fórnarilm.

14Ég mun rétta út hönd mína gegn þeim og gera landið að auðn og eyðimörk alls staðar þar sem þeir búa, frá eyðimörkinni og til Ríbla. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help