Síraksbók 44 - Biblían (2007)

Lofgjörð um forfeður voraDýrð Guðs í sögunni

1Nú vil ég vegsama víðkunna menn,

feður vora sem vér erum komin af.

2Drottinn skapaði mikla vegsemd,

hátign hans er frá eilífð.

3Hann skapaði þá sem ríktu í konungsríkjum,

menn sem frægir urðu af afreksverkum,

vitringa sem gáfu holl ráð,

spámenn sem fluttu boðskap sinn.

4Hann skapaði menn sem leiddu þjóðir með hyggindum sínum

og með þekkingu á ritum lýðsins,

þeir kenna með vísdómsorðum sínum.

5Hann skapaði þá er sömdu tónlist og lög

og gerðu ljóð sín kunn í ritum.

6Hann skapaði efnaða atorkumenn

sem friðsamir sátu setur sín.

7Allir hlutu þeir sæmdir af samtíð sinni

og heiður í lifanda lífi.

8Sumir þeirra létu eftir góðan orðstír,

þeirra er lofsamlega getið.

9En annarra er ekki framar minnst,

þeir eru horfnir líkt og þeir hefðu aldrei verið,

því er líkast sem þeir hafi aldrei fæðst,

hvorki þeir né niðjar þeirra.

10En hinir eru menn sem nutu náðar,

réttlætisverkum þeirra mun eigi gleymt.

11Meðal niðja þeirra mun náðin dvelja,

afkomendur þeirra njóta góðs arfs.

12Niðjar þeirra eru trúir sáttmálanum

og börn þeirra einnig sakir þeirra.

13Að eilífu vara niðjar þeirra

og vegsemd þeirra mun aldrei afmáð.

14Í friði voru lík þeirra lögð í gröf

en nafn þeirra lifir frá kyni til kyns.

15Allar þjóðir munu segja frá speki þeirra

og söfnuðurinn kunngjöra lof þeirra.

Enok

16Enok þóknaðist Drottni og var numinn burt,

hann er komandi kynslóðum fyrirmynd afturhvarfs.

Nói

17Nói reyndist vammlaus og réttlátur.

Hann varð björgunarmaður á tíma reiðinnar.

Sakir hans varð leifð eftir á jörðu

þegar flóðið dundi yfir.

18Eilífur sáttmáli var gerður við hann

að flóð eyddi ei framar öllu lífi.

Abraham

19Abraham var mikill forfaðir fjölda þjóða,

enginn flekkur varð fundinn á vegsemd hans.

20Hann hélt lögmál Hins hæsta,

gerði sáttmála við hann.

Hann staðfesti sáttmálann á holdi sínu

og reyndist trúr þegar hann var reyndur.

21Þess vegna hét Drottinn honum með eiði

að af afkvæmi hans skyldu þjóðir blessun hljóta,

hann mundi margfalda kyn hans sem sand á jörðu

og hefja niðja hans svo hátt sem stjörnurnar,

hann mundi veita þeim land til eignar

er næði frá hafi til hafs,

frá fljótinu að endimörkum jarðar.

Ísak og Jakob

22Hið sama hét Drottinn Ísak,

sakir Abrahams föður hans,

23blessun öllum mönnum til handa og sáttmála

sem hann lét síðan fylgja Jakobi.

Drottinn viðurkenndi hann með blessun sinni

og veitti honum land að erfðum

er hann deildi upp og skipti í svæði

sem úthlutað var ættkvíslunum tólf.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help