Esekíel 15 - Biblían (2007)

Gagnslaus vínviður

1Orð Drottins kom til mín:

2Mannssonur. Hvað hefur vínviðurinn

fram yfir aðra teinunga sem vaxa innan um skógartrén?

3Er af honum tekinn efniviður til að smíða eitthvað?

Fæst úr honum snagi sem hengja megi amboð á?

4Nei, hann er hafður í eldivið.

Þegar eldurinn hefur brennt báða enda

og miðjan er sviðin

er hann þá til nokkurs nýtur?

5Á meðan hann var heill

mátti ekkert gagn af honum hafa,

enn síður er hann til neins

þegar eldur hefur sviðið hann og brennt.

6Þess vegna segir Drottinn Guð:

Eins og ég hef farið með vínviðinn

sem óx innan um skógartrén

en ég fleygði á eld sem brenni,

þannig fer ég með yður,

Jerúsalembúar.

7Ég mun beina augliti mínu gegn þeim.

Þá verða þeir sem sleppa úr eldinum

gleyptir af eldi.

Þér munuð skilja að ég er Drottinn

þegar ég beini augliti mínu gegn þeim.

8Ég mun gera landið að auðn

af því að þeir hafa brugðist mér með svikum,

segir Drottinn Guð.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help