Jósúabók 18 - Biblían (2007)

Frekari skipting landsins

1Allur söfnuður Ísraelsmanna kom saman í Síló

2og sló þar upp opinberunartjaldinu. Þeir höfðu nú lagt allt landið undir sig. Enn voru þó sjö ættbálkar í Ísrael sem ekki hafði verið úthlutað erfðahlut sínum.

3Þá ávarpaði Jósúa Ísraelsmenn:

„Hversu lengi ætlið þið að hika við að fara og taka landið til eignar sem Drottinn, Guð feðra ykkar, hefur fengið ykkur?

4Veljið þrjá menn úr hverjum ættbálki sem ég get sent. Þeir skulu halda af stað og fara um allt landið til að kanna það og skrifa um það skýrslu með skiptingu þess í erfðahluti fyrir augum. Síðan skulu þeir koma aftur til mín.

5Því næst eiga þeir að skipta landinu í sjö hluta. Júda á að vera um kyrrt á landsvæði sínu fyrir sunnan og ætt Jósefs á að vera kyrr á sínu landsvæði fyrir norðan.

6Þið eigið að skrifa skýrslu um landið þegar því hefur verið skipt í sjö hluta og færa mér hana hingað. Þá mun ég varpa hlutkesti fyrir ykkur hér frammi fyrir augliti Drottins, Guðs okkar.

7En Levítarnir eiga ekki að hljóta erfðahlut með ykkur því að prestsembætti Drottins er erfðahlutur þeirra. Gað, Rúben og hálfur ættbálkur Manasse hafa þegar hlotið erfðahlut sinn, austan við Jórdan, sem Móse, þjónn Drottins, fékk þeim.“

8Þá héldu mennirnir sem skrifa áttu skýrsluna af stað en Jósúa hafði gefið þeim þessi fyrirmæli: „Haldið af stað, ferðist um landið og gerið skýrslu um það. Snúið síðan aftur til mín og þá mun ég varpa hlutkesti fyrir ykkur hér frammi fyrir augliti Drottins í Síló.“

9Mennirnir héldu af stað, fóru um landið og skrifuðu skýrslu um það í sjö hlutum á bók, eftir borgum, og sneru aftur til Jósúa í herbúðunum við Síló.

10Þegar þeir komu varpaði hann hlutkesti fyrir þá í Síló frammi fyrir augliti Drottins. Þar skipti Jósúa landinu fyrir Ísraelsmenn svo að hver ættbálkur fékk sinn hlut.

Land Benjamíns

11Hlutur ættbálks Benjamíns kom upp, hverrar ættar fyrir sig. Hann hlaut landsvæði milli niðja Júda og Jósefs.

12Landamæri þeirra að norðanverðu lágu frá Jórdan og upp að fjallshryggnum norðan við Jeríkó og þaðan í vestur upp í fjalllendið og síðan allt að eyðimörkinni við Betaven.

13Þaðan lágu landamærin yfir til Lús og yfir hálsinn sunnan við fjallshrygginn við Lús, það er Betel. Þaðan niður til Aterót Addar á fjallinu sem er sunnan við Neðra-Bet Hóron.

14Þaðan lágu landamærin í kröppum sveig að vestanverðu við fjallið og til suðurs frá fjallinu, sem er gegnt Bet Hóron að sunnanverðu, og þaðan til Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím, sem er borg í eigu Júdamanna. Þetta voru vesturlandamærin.

15Suðurlandamæri lágu frá útjaðri Kirjat Jearím og í vestur í átt til Neftóalindar.

16Þaðan lágu landamærin niður að hlíðum fjallsins sem er gegnt Hinnomssonardal sem er norðan Refaímsléttu. Þau lágu niður í Hinnomssonardal sunnan við fjallsöxl Jebúsíta og þaðan niður að Rógellind.

17Þá lágu landamærin í kröppum sveig til norðurs og til Semeslindar og beint áfram til Gilgal gegnt stígnum við Adúmmím og þaðan niður að steini Bóhans Rúbenssonar.

18Því næst lágu þau norðan við fjallshrygginn við Araba og áfram niður á Arabasléttuna.

19Þaðan lágu þau norðan við fjallshrygginn við Bet Hogla og enduðu við nyrstu vík salta vatnsins sunnan við ósa Jórdanar. Þar voru suðurmörk landsins.

20Jórdan myndar landamærin til austurs.

Þetta var erfðaland niðja Benjamíns, hverrar ættar fyrir sig, eins og það var afmarkað á allar hliðar.

Borgir Benjamíns

21Borgirnar sem ættbálkur niðja Benjamíns átti, hver ætt fyrir sig, voru: Jeríkó, Bet Hogla, Emek Kesís,

22Bet Araba, Semaraím, Betel,

23Avím, Para, Ofra,

24Kefar Ammóní, Ofní og Geba, alls tólf borgir ásamt þorpunum sem heyrðu þeim til.

25Auk þeirra Gíbeon, Rama, Beerót,

26Mispe, Kefíra, Mósa,

27Rekem, Jirpeel, Tarala,

28Sela, Elef, Jebúsítaborg, það er Jerúsalem, Gíbeat og Kirjat, alls fjórtán borgir ásamt þeim þorpum sem heyrðu þeim til.

Þetta var erfðaland Benjamíns sem ættir hans hlutu hver fyrir sig.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help