Esekíel 5 - Biblían (2007)

Táknrænn hárskurður

1Mannssonur, taktu þér hárbeitt sverð, notaðu það eins og rakhníf og rakaðu af þér bæði hár og skegg. Taktu síðan vog og vigtaðu hárið.

2Þriðjung skaltu brenna á báli inni í borginni þegar umsáturstímanum er lokið. Annan þriðjung skaltu taka og höggva allt í kringum hann með sverðinu og þriðjungi skaltu dreifa fyrir vindinum og ég mun elta hann með brugðnu sverði.

3En þú skalt taka fáein hár og vefja þau inn í skikkjulaf þitt,

4en loks taka nokkur þeirra, fleygja þeim á eld og brenna þau upp. Þaðan mun eldurinn breiðast út um allan Ísrael.

Skýring hinnar táknrænu athafnar

5Svo segir Drottinn Guð: Þetta er Jerúsalem. Ég kom henni fyrir mitt á meðal þjóðanna og lönd eru umhverfis.

6En íbúar hennar risu upp gegn lögum mínum þar sem þeir urðu guðlausari en þjóðirnar og andsnúnari ákvæðum mínum en íbúar landanna sem eru umhverfis þá. Þeir höfnuðu lögum mínum og fylgdu ekki ákvæðum mínum.

7Þess vegna segir Drottinn Guð: Þið hafið verið þrjóskari en þjóðirnar sem búa umhverfis ykkur, ekki farið eftir lögum mínum og ekki framfylgt ákvæðum mínum og hafið heldur ekki framfylgt reglum þjóðanna sem búa umhverfis ykkur.

8Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Nú kem ég sjálfur gegn þér og held dóm í þér miðri fyrir augum þjóðanna.

9Ég mun gera þér það sem ég hef aldrei áður gert og mun aldrei gera aftur vegna allra þinna viðurstyggilegu verka.

10Þess vegna munu feður eta syni sína í þér miðri og synir eta feður sína. Ég mun framfylgja refsidómum yfir þér og því sem eftir verður af þér mun ég dreifa í allar áttir.

11Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Þar sem þú hefur saurgað helgidóm minn með öllum þínum viðurstyggilegu skurðgoðum og andstyggilegu athöfnum mun ég nota rakhnífinn án vægðar og miskunnar.

12Þriðjungur íbúa þinna skal farast úr drepsótt og verða hungurmorða í þér, þriðjungur skal falla fyrir sverði umhverfis þig og þriðjungi mun ég dreifa í allar áttir og elta þá með brugðnum brandi.

13Ég mun svala reiði minni og heift á þeim og hefna mín. Þeir munu skilja að ég, Drottinn, talaði af ákafa mínum þegar ég svalaði heift minni á þeim.

14Ég mun leggja þig í rúst og láta þjóðirnar umhverfis þig hæðast að þér fyrir augum allra sem eiga leið þar um.

15Þú verður þjóðunum sem umhverfis þig búa að háði og spotti, til viðvörunar og skelfingar þegar ég framfylgi refsidómum gegn þér í heift og reiði. Það verður hræðileg refsing. Ég, Drottinn, hef talað.

16Þegar ég sendi gegn ykkur hinar skæðu, eyðandi hungursörvar til að eyða ykkur, magna ég hungrið og brýt staf brauðsins fyrir ykkur.

17Ég mun senda hungur og villidýr gegn ykkur til að svipta þig börnum þínum, drepsótt og morð skulu dynja á þér og ég mun senda sverð gegn þér. Ég, Drottinn, hef talað.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help