1Drottinn kallaði á Móse, talaði við hann úr samfundatjaldinu og sagði:
2„Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu við þá: Þegar einhver ykkar ætlar að færa Drottni gjöf skuluð þið færa honum búfénað að gjöf, af nautgripum eða sauðfé.
3Sé gjöf hans brennifórn af nautgripum skal það sem hann fórnar vera lýtalaust karldýr. Hann skal færa það að dyrum samfundatjaldsins til þess að hann hljóti velþóknun frammi fyrir augliti Drottins
4og leggja síðan hönd sína á höfuð brennifórnardýrsins svo að hann hljóti velþóknun og friðþægt verði fyrir sekt hans.
5Hann skal slátra nautinu frammi fyrir augliti Drottins en synir Arons, prestarnir, skulu síðan bera fram blóðið og dreypa því á allar hliðar altarisins sem stendur við inngang samfundatjaldsins.
6Því næst skal hann flá brennifórnardýrið og hluta það niður.
7Synir Arons, prestarnir, skulu setja eld á altarið og raða viði á eldinn.
8Þá skulu synir Arons, prestarnir, raða stykkjunum, höfði og mör, ofan á viðinn sem er á eldinum á altarinu.
9Innyfli og fætur skal hann þvo í vatni. Presturinn skal því næst láta það allt líða upp í reyk af altarinu.
Þetta er brennifórn, eldfórn, Drottni þekkur ilmur.
10Sé gjöf hans brennifórn af fénaði, af sauðfé eða geitum, skal það sem hann fórnar vera lýtalaust karldýr.
11Hann skal slátra því við norðurhlið altarisins, frammi fyrir augliti Drottins. Synir Arons, prestarnir, skulu dreypa blóði þess á allar hliðar altarisins.
12Hann skal hluta það niður og síðan skal presturinn raða stykkjunum ásamt höfði og mör á viðinn sem er á eldinum á altarinu.
13Innyfli og fætur skal hann þvo í vatni. Presturinn skal því næst láta það líða upp í reyk af altarinu.
Þetta er brennifórn, eldfórn, Drottni þekkur ilmur.
14Sé gjöf hans til Drottins brennifórn af fuglum skal hann bera fram turtildúfu eða aðra dúfu að gjöf.
15Presturinn skal færa hana að altarinu, snúa höfuðið af henni og láta það líða upp í reyk af altarinu. Blóðið skal kreist á hlið altarisins.
16Því næst skal hann fjarlægja sarpinn með því sem í honum er og fleygja honum við hliðina á altarinu austan megin þar sem fórnaraskan er.
17Því næst lætur presturinn fuglinn ofan á viðinn sem er á eldinum og lætur hann líða upp í reyk af altarinu.
Þetta er brennifórn, eldfórn, Drottni þekkur ilmur.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.