Hósea 9 - Biblían (2007)

Ísrael refsað

1Gleðstu ekki, Ísrael,

fagnaðu ekki eins og aðrar þjóðir

því að þú hóraðist, yfirgafst Guð þinn.

Þú girntist skækjulaun

á hverjum þreskivelli.

2Þreskivöllur og vínpressa skulu ekki fæða þá

og vínuppskeran bregst þeim.

3Þeir fá ekki að búa í landi Drottins,

Efraím mun hverfa aftur til Egyptalands

og neyta óhreinnar fæðu í Assýríu.

4Ekki færa þeir Drottni vín að dreypifórn

og sláturfórnir þeirra gleðja hann ekki.

Brauðið verður þeim sem sorgarbrauð,

hver sem þess neytir verður óhreinn.

Brauðið seður aðeins hungur þeirra

en kemur ekki í hús Drottins.

5Hvað ætlið þér að gera á löghelgum,

á hátíðardögum Drottins?

6Þótt þeir sleppi frá eyðingunni

safnar Egyptaland þeim saman,

Memfis grefur þá,

hversu verðmætt sem silfur þeirra er

vex illgresi yfir það,

í tjöldum þeirra vaxa þyrnar.

7Dagar uppgjörsins eru komnir,

dagar endurgjaldsins eru komnir,

Ísrael mun sjá það.

„Spámaðurinn er kjáni,

andans maður ruglaður.“

Af því að misgjörð þín er mikil

verður fjandskapurinn mikill.

8Spámaðurinn er vörður Efraíms með Guði mínum,

þeir leggja fyrir hann gildrur hvert sem hann fer,

hann verður fyrir fjandskap í húsi Guðs síns.

9Þeir hafa grafið honum djúpa gröf

eins og á dögum Gíbeu.

Drottinn minnist sektar þeirra,

vitjar synda þeirra.

Efraím hafnað

10Ég fann Ísrael

eins og vínber í eyðimörkinni,

sem snemmsprottinn ávöxt á fíkjutré

sá ég feður yðar.

Þeir komu til Baals Peórs,

helguðu sig hinum svívirðilega

og urðu viðurstyggilegir

eins og sá sem þeir elskuðu.

11Efraím líkist fugli,

sæmd hans flögrar burt,

fæðingar, þungun og getnaður verða úr sögunni.

12Þótt þeir ali upp börn sín

geri ég þá barnlausa

og enginn maður verður eftir.

Vei þeim þegar ég sný frá þeim.

13Ég sá Efraím

sem pálmalund á engi.

Nú verður Efraím að senda börn sín til slátrara.

14Gefðu þeim, Drottinn.

Hvað áttu að gefa þeim?

Gefðu þeim móðurlíf óbyrju

og uppþornuð brjóst.

15Öll illska þeirra birtist í Gilgal,

þar fékk ég hatur á þeim.

Vegna illskuverka þeirra

mun ég reka þá úr húsi mínu.

Ég mun ekki elska þá framar,

allir höfðingjar þeirra eru uppreisnarmenn.

16Efraím var felldur,

rót hans er skrælnuð,

hann ber engan ávöxt.

Ef þeir eignast afkvæmi

mun ég deyða elskuð börn þeirra.

17Guð minn mun hafna þeim

því að þeir hafa ekki hlýtt á hann

og þeir munu ráfa um meðal framandi þjóða.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help