1Á áttunda degi kallaði Móse saman Aron og syni hans ásamt öldungum Ísraels
2og sagði við Aron: „Sæktu nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn, lýtalaus dýr, og færðu þau fram fyrir auglit Drottins.
3Því næst skaltu ávarpa Ísraelsmenn og segja: Sækið geithafur í syndafórn, kálf og sauðkind í brennifórn, bæði veturgömul og lýtalaus,
4naut og hrút í heillafórn, sem slátra skal frammi fyrir augliti Drottins, og kornfórn blandaða olíu því að Drottinn mun birtast ykkur í dag.“
5Þeir komu með það sem Móse hafði boðið fram fyrir samfundatjaldið. Þá kom allur söfnuðurinn og gekk fram fyrir auglit Drottins.
6Móse sagði: „Þetta er það sem Drottinn hefur boðið ykkur að gera, gerið það og dýrð Drottins mun birtast ykkur.“
7Þá sagði Móse við Aron: „Gakktu að altarinu og færðu syndafórn þína og brennifórn og friðþægðu fyrir þig og ætt þína. Færðu síðan fram gjöf þjóðarinnar og friðþægðu fyrir hana eins og Drottinn hefur boðið.“
8Aron gekk þá að altarinu og slátraði syndafórnarkálfinum sem honum var ætlaður.
9Synir Arons færðu honum blóðið. Hann dýfði fingri í blóðið og rauð því á horn altarisins en öllu sem eftir var af blóðinu hellti hann á fótstall altarisins.
10Mörinn, nýrun og lifrarblaðið úr syndafórnardýrinu lét hann líða upp í reyk af altarinu eins og Drottinn hafði boðið Móse.
11Kjötið og húðina brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar.
12Því næst slátraði hann brennifórnardýrinu. Synir Arons réttu honum blóðið og hann stökkti því á allar hliðar altarisins.
13Síðan réttu þeir honum brennifórnina í stykkjum ásamt höfðinu og hann lét hana líða upp í reyk af altarinu.
14Hann þvoði innyflin og fæturna og lét það líða upp í reyk af altarinu ásamt brennifórninni.
15Þá færði hann fram gjöf þjóðarinnar. Hann sótti geithafurinn sem átti að verða syndafórn fólksins, slátraði honum og færði hann í syndafórn eins og þann fyrri.
16Hann færði brennifórnina samkvæmt reglunum.
17Hann færði einnig kornfórnina, tók handfylli af henni og lét hana líða upp í reyk af altarinu, og morgunbrennifórn að auki.
18Síðan slátraði hann nautinu og hrútnum í heillafórn fyrir þjóðina. Synir Arons réttu honum blóðið og hann stökkti því á allar hliðar altarisins.
19Þeir réttu honum einnig mörinn úr nautinu og hrútnum, rófuna, netjuna sem hylur innyflin, nýrun og lifrarblaðið.
20Þeir lögðu mörinn ofan á bringurnar og Aron lét mörinn líða upp í reyk af altarinu.
21Því næst veifaði Aron bringunum og hægra lærinu fram og aftur frammi fyrir augliti Drottins eins og Móse hafði boðið.
22Síðan hóf Aron upp hendur sínar yfir fólkið og blessaði það. Hann gekk niður frá altarinu eftir að hafa fært syndafórn, brennifórn og heillafórn.
23Þá gengu Móse og Aron inn í samfundatjaldið. Þegar þeir komu út aftur blessuðu þeir fólkið. Þá birtist dýrð Drottins allri þjóðinni
24og eldtungur loguðu út frá Drottni og gleyptu brennifórnina, heillafórnina og mörinn á altarinu. Þegar fólkið sá það hóf það upp fagnaðaróp og féll fram á ásjónur sínar.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.