Prédikarinn 10 - Biblían (2007)

Orðtök um hyggindi

1Dauðar flugur valda ódaun

með því að hleypa gerjun í olíu smyrslarans.

Ofurlítill aulaskapur er þyngri á metunum en viska eða sómi.

2Hjarta viturs manns stefnir á heillabraut

en hjarta heimskingjans leiðir hann í ógæfu.

3Aulinn gengur veg sinn og brestur vitið

og segir við hvern mann að hann sé auli.

4Ef reiði drottnarans kviknar gegn þér, vertu þá staðfastur

því að stilling afstýrir miklum glappaskotum.

5Til er böl sem ég hef séð undir sólinni, yfirsjón af hálfu valdhafans:

6Heimskan er sett í háu stöðurnar en göfugmennin sitja í niðurlægingu.

7Ég sá þræla sitja hesta og höfðingja fótgangandi eins og þræla.

8Sá sem grefur gröf fellur í hana

og þann sem rífur niður vegg getur höggormur bitið.

9Sá sem sprengir steina getur meitt sig á þeim,

sá sem klýfur við getur stofnað sér í hættu.

10Sé öxin orðin sljó og eggin ekki brýnd,

þá verður maðurinn að neyta því meiri orku.

Það er ávinningur að undirbúa allt með hagsýni.

11Ef höggormurinn bítur af því að særingar hafa verið vanræktar,

þá kemur særingamaðurinn að engu liði.

12Orð af munni viturs manns eru yndisleg

en varir heimskingjans vinna honum tjón.

13Fyrstu orðin út úr honum eru heimska

og endir ræðu hans er ill flónska.

14Heimskinginn mælir mörg orð,

þó veit maðurinn ekki hvað verða muni.

Hvað verða muni eftir hans dag, hver segir honum það?

15Amstur heimskingjans þreytir hann,

hann ratar ekki veginn inn í borgina.

16Vei þér, land, sem hefur dreng að konungi

og höfðingjar þínir setjast að veislu að morgni dags!

17Sælt ert þú, land, sem hefur eðalborinn mann að konungi

og höfðingjar þínir matast á réttum tíma

sér til styrkingar en ekki til þess að verða drukknir.

18Vegna leti síga bjálkarnir niður

og vegna iðjulausra handa lekur húsið.

19Til gleðskapar búa menn máltíðir,

vín gerir lífið skemmtilegt

og peningarnir veita allt.

20Formæltu ekki konunginum, jafnvel ekki í huga þínum,

og formæltu ekki ríkum manni í svefnherbergjum þínum

því að fuglar loftsins kynnu að bera burt hljóminn

og hinir vængjuðu að hafa orðin eftir.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help