Jeremía 49 - Biblían (2007)

Gegn Ammónítum

1Um Ammóníta.

Svo segir Drottinn:

Á Ísrael enga syni,

engan sem tekur arf eftir hann?

Hvers vegna tók Milkóm ættbálk Gaðs í arf,

hví settist þjóð Milkóms að í borgum hans?

2Þeir dagar koma, segir Drottinn,

að ég læt heróp gjalla gegn Rabba, borg Ammóníta.

Hún skal verða að auðri grjótrúst

og dótturborgir hennar eyddar í eldi.

Þá mun Ísrael taka í arf

þá sem tóku arf hans, segir Drottinn.

3Kveinaðu, Hesbon,

því að eyðandinn heldur gegn þér.

Grátið, dætur Rabba,

gyrðist hærusekk, harmið,

reikið um með skinnsprettur

því að Milkóm fer í útlegð

ásamt prestum sínum og höfðingjum.

4Hvernig getur þú stært þig af dalnum þínum,

sjálfumglaða dóttir

sem treystir eigin auði og segir:

„Hver skyldi ráðast á mig?“

5Nú sendi ég skelfingu yfir þig úr öllum áttum,

segir Drottinn, Guð hersveitanna.

Þér verðið hraktir brott, hver í sína áttina,

og enginn mun sameina þá sem flýja.

6En eftir það mun ég snúa við högum Ammóníta,

segir Drottinn.

Gegn Edóm

7Um Edóm.

Svo segir Drottinn hersveitanna:

Er engin speki framar í Teman?

Eru góð ráð horfin hinum hyggnu?

Er speki þeirra spillt?

8Flýið, snúið við, skríðið í felur,

þér sem búið í Dedan.

Því að ég sendi böl yfir Esaú,

sá tími er kominn að ég geri sakirnar upp við hann.

9Ráðist vínyrkjar að þér

skilja þeir ekkert eftir.

Komi þjófar um nótt

gera þeir þann usla sem þeim sýnist.

10Já, ég mun sjálfur afhjúpa Esaú,

ljóstra upp um felustaði hans

svo að hann fái ekki dulist lengur.

Afkvæmi hans og skyldmenni verða upprætt,

nágrönnunum eytt svo að enginn getur sagt:

11„Skildu munaðarleysingjana eftir.“

Ég skal halda í þeim lífinu.

Ekkjurnar geta treyst mér.

12Já, svo segir Drottinn:

Takið eftir. Ef þeir sem ekki eru dæmdir til að drekka bikarinn verða að drekka hann verður þér þá hlíft við því? Þér verður ekki hlíft því að þú skalt drekka hann.

13Já, ég hef svarið við sjálfan mig, segir Drottinn, að Bosra verði til skelfingar og smánar, henni skal verða eytt og bölvun lögð á hana og allar borgirnar, sem tilheyra henni, verða lagðar í rúst um alla framtíð.

14Ég hef heyrt þau tíðindi frá Drottni

að boðberi hafi verið sendur til þjóðanna:

„Sameinist, ráðist gegn Edóm,

haldið til orrustu.“

15Ég geri þig smæsta þjóðanna,

fyrirlitna meðal manna.

16Skelfingin sem þú veldur

og stærilæti þitt blekktu þig,

þú sem býrð í klettaskorum,

heldur þig á háum tindum.

Þó að þú gerir þér hreiður jafnhátt og örn

steypi ég þér niður, segir Drottinn.

17Edóm mun valda skelfingu. Hver sem fer þar fram hjá verður skelfingu lostinn og blístrar háðslega yfir öllum áföllunum sem Edóm hefur orðið fyrir.

18Eins og þegar Sódóma og Gómorra og nágrannaborgir þeirra höfðu verið eyddar, segir Drottinn, þar mun enginn maður búa og enginn hafa viðdvöl.

19Líkt og ljón, sem rís upp úr kjarrinu á bökkum Jórdanar

og stígur upp á sígrænt engið,

mun ég flæma þá burt á augabragði

og velja mér bestu sauðina að bráð.

Því að hver er jafningi minn?

Hver krefur mig um reikningsskil?

Hvaða hirðir stenst frammi fyrir mér?

20Heyrið því ákvörðun Drottins

sem hann hefur tekið gegn Edóm,

ráðin sem hann hefur ráðið

gegn íbúunum í Teman:

Sannarlega verða jafnvel hinir minnstu í hjörðinni

dregnir í burtu,

sannarlega mun þeirra eigin bithaga

hrylla við örlögum þeirra.

21Jörðin nötrar við brakið af hruni þeirra,

kveinið þaðan heyrist alla leið að Sefhafinu.

22Fjandmaðurinn hefur sig til flugs,

kemur svífandi eins og örn

og þenur vængina út yfir Bosra.

Þann dag verður hjarta kappanna í Edóm

eins og hjarta konu í barnsnauð.

Gegn Damaskus

23Um Damaskus:

Hamat og Arpad eru felmtri slegnar

því að þeim hafa borist ótíðindi.

Þær eru iðandi af áhyggjum

eins og hafið sem aldrei getur verið kyrrt.

24Íbúana í Damaskus brestur kjark,

þeir leggja á flótta, gripnir skelfingu,

engjast eins og jóðsjúk kona.

25Er hin glæsta borg ekki gersamlega yfirgefin,

borg gleði og glaums?

26Því munu æskumenn hennar falla á torgunum

og allir hermenn farast á þeim degi,

segir Drottinn hersveitanna.

27Ég mun leggja eld að borgarmúrum Damaskus

svo að hann gleypi hallir Benhadads.

Gegn arabískum ættbálkum

28Um Kedar og konungsríki Hasórs sem Nebúkadresar Babýloníukonungur sigraði:

Svo segir Drottinn:

Komið, ráðist á Kedar.

Gereyðið austurbyggjum.

29Þeir munu ræna tjöldum þeirra og sauðahjörðum,

tjalddúkum þeirra og öllum búnaði,

taka úlfalda þeirra með sér

og hrópa yfir þeim: „Skelfing úr öllum áttum.“

30Leggið á flótta, flýið sem hraðast.

Skríðið í felur,

þér sem búið í Hasór, segir Drottinn,

því að Nebúkadresar, konungur í Babýlon,

hefur lagt á ráð gegn yður

og tekið ákvörðun.

31Komið, ráðist á þessa ugglausu þjóð

sem býr við öryggi, segir Drottinn,

og hefur hvorki hurðir né slagbranda og býr ein sér.

32Úlfaldar þeirra verða ránsfengur

og fjölmargar nautahjarðir herfang.

Ég mun dreifa þeim út í veður og vind,

þeim sem hafa skorið hárið frá gagnaugunum

mun ég senda böl úr öllum áttum, segir Drottinn.

33Hasór verður bústaður sjakala,

þar mun enginn maður búa og enginn hafa þar viðdvöl.

Gegn Elam

34Orð Drottins gegn Elam, sem kom til Jeremía spámanns við upphaf stjórnartíma Sedekía Júdakonungs:

35Svo segir Drottinn hersveitanna:

Nú brýt ég boga Elamíta,

öflugasta vopn þeirra.

36Ég hleypi á Elam fjórum vindum,

frá fjórum hornum himins.

Ég tvístraði þeim fyrir öllum þessum vindum

og engin sú þjóð verður til

að flóttamenn frá Elam komi þangað ekki.

37Ég skýt Elamítum skelk í bringu

frammi fyrir fjandmönnum þeirra,

frammi fyrir þeim sem sækjast eftir lífi þeirra.

Ég sendi böl gegn þeim,

logandi reiði mína, segir Drottinn.

Ég sendi sverðið á eftir þeim

þar til ég hef eytt þeim.

38Ég reisi hásæti mitt í Elam

og eyði þaðan konungi og höfðingjum, segir Drottinn.

39En eftir það mun ég snúa við högum Elams, segir Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help