Speki Salómons 4 - Biblían (2007)

1Betra en þetta er barnleysi í dygð.

Orðstír dygðar deyr aldrei.

Bæði Guð og menn virða hana.

2Meðan hún er nálæg líkja menn eftir henni

og sakna hennar þegar hún er fjarri.

Í eilífðinni ber hún sigursveig

eftir unninn kappleik um flekklaus verðlaun.

3Guðlausum er barnamergð til einskis gagns.

Gallaðir kvistir skjóta ekki djúpum rótum

og ná ekki tryggri festu.

4Þótt þeir vaxi um stund og myndi greinar

standa þeir óstöðugir og skekjast af vindi

og sterkur stormur rífur þá upp með rótum.

5Greinarnar brotna áður en þær ná þroska,

ávöxturinn er ónýtur og óætur og til einskis hæfur.

6Börn sem getin eru í óheimilu sambandi

bera vitni við rannsóknina um rangindi foreldra sinna.

Réttlæti tekur langlífi fram

7En hinn réttláti mun hvíla í ró þótt hann deyi fyrir aldur fram.

8Æruverð elli felst ekki í lengd lífdaga,

hún er ekki talin í árum.

9Það er viskan sem er mönnunum hærur

og flekklaust líferni hin rétta elli.

10Hinn réttláti var þekkur Guði og elskaður af honum.

Guð tók hann til sín þar eð hann lifði meðal syndugra.

11Hann var hrifinn brott til þess að illskan spillti ekki skilningi hans

og svikin tældu ekki sál hans.

12Því að vélabrögð vonskunnar afskræma hið fagra

og víma girndanna spillir saklausu sinni.

13Við leiðarlok hafði hann lifað langa ævi á skömmum tíma.

14Sál hans var Drottni þekk,

því fékk hann að losna fljótt frá illskunni.

Fólkið, sem sá það, skildi ekki

og leiddi ekki að því hugann.

15Guð veitir sínum útvöldu náð og miskunn

og vitjar sinna heilögu.

16Hinn réttláti, sem dáinn er, mun dæma þá óguðlegu sem á lífi eru.

Sá sem deyr fyrir aldur fram mun dæma ranglátan öldung sem hærur ber.

17Þeir munu sjá endalok hins hyggna

án þess að skilja hvað Drottinn hafði í hyggju með hann

eða hvers vegna hann gerði hann óhultan.

18Þeir sjá það og hafa að engu

en Drottinn mun hlæja að þeim.

19Síðar munu þeir verða vanvirt hræ

til háðungar meðal hinna dauðu um aldur.

Drottinn mun ljósta þá til jarðar og þagga niður í þeim.

Hann mun svipta þá fótfestunni

og þeim mun gereytt.

Þeir munu líða kvalir

og minning þeirra mun líða undir lok.

20Skjálfandi munu þeir koma þangað sem syndir þeirra eru taldar saman

og lögmálsbrot þeirra munu rísa í gegn þeim og sakfella þá.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help