Orðskviðirnir 8 - Biblían (2007)

Spekin tekur til máls

1Heyr, spekin kallar.

Viskan hefur upp raust sína.

2Uppi á hæðunum, við veginn

og við krossgöturnar stendur hún,

3við hliðin út úr borginni, þar sem gengið er inn,

kallar hún hástöfum:

4Til yðar tala ég, menn,

og rödd minni er beint til mannanna barna.

5Þér óreyndu, lærið hyggindi,

og þér heimskingjar, lærið skynsemi.

6Hlýðið á því að ég boða það sem mikilvægt er

og varir mínar tjá það sem rétt er.

7Sannleikur kemur af munni mínum

og lygi er viðbjóður vörum mínum.

8Réttvísi boða öll orð munns míns,

í þeim er hvorki fals né fláræði.

9Öll eru þau auðskilin hinum skilningsríka

og augljós þeim sem hlotið hefur þekkingu.

10Þiggið leiðsögn mína fremur en silfur

og fræðslu mína fremur en skíragull.

11Viska er betri en perlur,

engir fjársjóðir jafnast á við hana.

12Ég, spekin, dvelst hjá viskunni,

hjá mér býr dómgreind og þekking.

13Að óttast Drottin er að hata hið illa,

hroka og dramb, meinfýsi og ósannsögli hata ég.

14Ráð veiti ég og velgengni,

hjá mér er hyggnin og minn er mátturinn.

15Vegna mín halda konungar völdum

og valdhafar úrskurða það sem rétt er.

16Vegna mín stjórna menn og hljóta mannaforráð,

allir valdsmenn veraldar.

17Ég elska þá sem mig elska

og þeir finna mig sem leita mín.

18Auður og sæmd eru hjá mér,

varanlegir sjóðir og velgengni.

19Ávextir mínir eru betri en gull og gimsteinar

og afrakstur minn betri en hreint silfur.

20Ég geng á götu réttlætisins

og stigum réttsýninnar.

21Ég færi þeim sanna auðlegð sem elska mig

og fylli sjóði þeirra.

22Drottinn skapaði mig í upphafi,

á undan öðrum verkum sínum, í árdaga.

23Fyrir óralöngu var ég mynduð,

í upphafi, áður en jörðin varð til.

24Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til,

þegar engar vatnslindir voru til.

25Áður en fjöllunum var hleypt niður,

á undan hæðunum fæddist ég,

26áður en hann skapaði lönd og akra

og fyrstu moldarköggla jarðar.

27Þegar hann þandi út himininn var ég þar,

þegar hann steypti hvelfingunni yfir hafdjúpin,

28þegar hann festi upp skýin af mætti sínum

og lét uppsprettur undirdjúpanna streyma fram,

29þegar hann setti hafinu skorður

til þess að vötnin staðnæmdust þar sem hann bauð,

þegar hann ákvað grundvöll jarðarinnar,

30þá var ég með í ráðum við hlið honum,

var yndi hans dag hvern

og lék mér fyrir augliti hans alla tíma,

31ég lék mér í byggðum heimi hans

og fagnaði með mannanna börnum.

32Hlýðið mér, synir, því að sælir eru þeir

sem halda sig á vegum mínum.

33Hlustið á hvatningu mína,

svo að þér verðið vitrir, og hafnið henni ekki.

34Sæll er sá maður sem hlýðir á mig,

kemur daglega að hliðum mínum og dvelst við dyr mínar.

35Sá sem finnur mig finnur lífið

og öðlast velþóknun Drottins.

36Sá sem missir mín vinnur sjálfum sér mein.

Þeir sem hata mig elska dauðann.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help