Esterarbók 2 - Biblían (2007)

Ester verður drottning

1Síðar, er Xerxes konungi rann reiðin, minntist hann Vastí og athæfis hennar og einnig dómsins sem hún hafði hlotið.

2Hirðsveinar konungs sögðu þá: „Nú skal leitað að ungum og fögrum meyjum handa konunginum.

3Konungur setji til þess menn í öllum héruðum ríkisins að safna fallegum, ungum meyjum í kvennabúr konungs í virkisborginni Súsa. Þar skal Hegaí, geldingur konungs, sá sem gætir kvennanna, hafa umsjón með þeim og þeim skulu fengin fegrunarsmyrsl.

4Sú stúlka, sem gengur í augun á konungi, skal síðan verða drottning í stað Vastí.“ Þetta féll konungi vel og fór hann að þessu ráði.

5Í virkisborginni Súsa var Gyðingur að nafni Mordekaí, sonur Jaírs, sonar Símeí, sonar Kíss, af ætt Benjamíns.

6Var hann í hópi þeirra sem Nebúkadnesar Babýloníukonungur tók til fanga og flutti burt frá Jerúsalem ásamt Jekonja Júdakonungi.

7Mordekaí hafði tekið í fóstur Hadassa, það er Ester, dóttur föðurbróður síns, en hún átti hvorki föður né móður. Hún var fallega vaxin og fríð sýnum og hafði Mordekaí tekið hana sér í dóttur stað þegar faðir hennar og móðir önduðust.

8Þegar tilskipanir og boð konungs urðu kunn var mörgum stúlkum safnað saman til hallar konungs í Súsa í umsjá Hegaí, þess sem gætti kvennabúrsins, og var Ester í hópi þeirra.

9Hegaí gast vel að stúlkunni og vann hún hylli hans og sá hann henni án tafar fyrir fegrunarsmyrslum og nægum mat. Þá fékk hann henni einnig sjö valdar þernur úr höll konungs og eftirlét henni og þernum hennar besta staðinn í kvennabúrinu.

10Ester hafði hvorki gert uppskátt þjóðerni sitt né ætt því að það hafði Mordekaí bannað henni.

11En Mordekaí var daglega á stjái fyrir utan forgarð kvennabúrsins til að hyggja að því hvernig Ester vegnaði og hvernig með hana væri farið.

12Eftir tólf mánaða undirbúning kom að því að hver stúlka um sig skyldi ganga fyrir Xerxes konung. Svo langur tími var áskilinn samkvæmt siðvenju til snyrtingar kvenna, sex mánuðir með myrrukvoðu og aðrir sex með ilmefnum og öðrum fegrunarsmyrslum kvenna.

13Þegar stúlka gekk inn til konungs var henni fengið allt sem hún vildi hafa með sér úr kvennabúrinu til hallar konungs.

14Þangað gekk hún að kvöldi dags en að morgni fór hún í hitt kvennabúrið í umsjá Saasgasar, geldings konungs, sem gætti hjákvenna hans. Ekki fór hún til konungs aftur nema konungur hefði á henni dálæti og hún væri boðuð til hans með nafni.

15Kom nú röðin að Ester, dóttur Abíhaíls, föðurbróður Mordekaí sem hafði tekið hana sér í dóttur stað, og skyldi hún ganga fyrir konung. Bað hún þá ekki um neitt fram yfir það sem geldingur konungs, kvennavörðurinn Hegaí, hafði lagt til. Og Ester vann hylli allra sem sáu hana.

16Farið var með Ester til hallar Xerxesar konungs í tíunda mánuðinum, mánuðinum tebet, á sjöunda stjórnarári hans.

17Konungur fékk meiri ást á Ester en nokkurri konu annarri og naut hún meiri hylli og dálætis af honum en allar hinar meyjarnar. Hann setti því hina konunglegu kórónu á höfuð henni og tók hana sér fyrir drottningu í stað Vastí.

18Og konungur hélt mikla veislu öllum höfðingjum sínum og embættismönnum Ester til heiðurs. Hann fyrirskipaði hvíldardag í öllum löndum sínum og deildi út gjöfum af konunglegri rausn.

Mordekaí og Haman

19Tekið var á móti meyjunum í hitt kvennabúrið en Mordekaí sat þá við hallarhliðið.

20Ester fór að fyrirmælum Mordekaí og lét ekkert uppi um þjóð sína eða ætterni en hélt áfram að hlýða ráðum hans eins og áður þegar hún var í fóstri hjá honum.

21Meðan Mordekaí sat við hallarhliðið varð hliðvörðunum Bigtan og Teres, tveimur geldingum konungs, gramt í geði og áformuðu þeir að ráða Xerxes konung af dögum.

22Mordekaí komst að þessu og sagði Ester drottningu en hún greindi konungi frá og bar Mordekaí fyrir sögunni.

23Málið var kannað og sannreynt og voru þeir báðir festir á gálga. Var þetta allt fært í ríkisannála að konungi viðstöddum.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help