Þriðja Mósebók 17 - Biblían (2007)

Heilagleikalögin

1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2„Ávarpaðu Aron og syni hans og alla Ísraelsmenn og segðu: Svo hefur Drottinn boðið:

3Sérhver sá af Ísraelsætt sem slátrar nauti, kind eða geit, hvort heldur hann slátrar inni í herbúðunum eða utan þeirra,

4en leiðir dýrið ekki að inngangi samfundatjaldsins til að færa það fram sem gjöf til Drottins, frammi fyrir bústað Drottins, sá maður skal teljast sekur um blóðsúthellingu. Hann hefur úthellt blóði og skal upprættur úr þjóð sinni.

5Þess vegna skulu Ísraelsmenn koma til Drottins með þau dýr sem ætluð eru til sláturfórna og þeir nú færa í sláturfórn úti á víðavangi. Þeir skulu fá þau prestinum við dyr samfundatjaldsins og færa Drottni sem heillafórn.

6Presturinn skal stökkva blóðinu á altari Drottins við inngang samfundatjaldsins og láta mörinn líða upp í reyk af altarinu sem Drottni þekkan ilm.

7Þeir mega ekki halda áfram að slátra sláturfórnum sínum handa geitapúkunum sem þeir hórast nú með. Það skal vera ykkur föst regla um aldur og ævi.

8Segðu enn fremur við þá:

Sérhver af Ísraels ætt eða aðkomumaður á meðal ykkar, sem færir brennifórn eða sláturfórn

9án þess að leiða fórnardýrið að dyrum samfundatjaldsins til að færa það Drottni, skal upprættur úr þjóð sinni.

10Ég mun snúa augliti mínu gegn sérhverjum manni af ætt Ísraels eða aðkomumanni á meðal ykkar sem neytir blóðs og uppræta hann úr þjóð sinni

11því að lífskraftur holdsins er í blóðinu og ég hef gefið ykkur það til þess að það friðþægi á altarinu fyrir líf ykkar því að það er blóðið sem friðþægir fyrir lífið.

12Þess vegna hef ég sagt við Ísraelsmenn: Enginn ykkar má neyta blóðs og aðkomumaður á meðal ykkar má ekki heldur neyta blóðs.

13Sérhver af ætt Ísraels eða aðkomumaður á meðal ykkar, sem veiðir villt dýr eða fugl, sem leyfilegt er að eta, skal láta blóðið renna úr dýrinu og hylja það mold

14því að blóðið er lífskraftur alls holds, líf þess. Ég hef sagt við Ísraelsmenn: Þið skuluð ekki neyta blóðsins í neinu kjöti því að blóðið er lífið í öllu holdi. Sá sem neytir þess skal upprættur.

15Sérhver maður, innfæddur eða aðkominn, sem etur sjálfdautt eða dýrrifið hræ, skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds en síðan verður hann hreinn.

16En þvoi hann ekki klæði sín og baði ekki líkama sinn í vatni skal hann taka afleiðingum sektar sinnar.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help