Fjórða Mósebók 13 - Biblían (2007)

Könnun fyrirheitna landsins

1Drottinn talaði til Móse og sagði:

2„Sendu menn til að kanna Kanaansland sem ég er í þann veginn að gefa Ísraelsmönnum. Þið skuluð senda einn mann frá hverjum ættbálki og skal hver þeirra vera höfðingi meðal Ísraelsmanna.“

3Móse sendi þá menn af stað frá Paraneyðimörk að boði Drottins. Þeir voru allir leiðtogar meðal Ísraelsmanna.

4Þetta voru nöfn þeirra:

Samúa Sakkúrsson af ættbálki Rúbens,

5Safat Hóríson af ættbálki Símeons,

6Kaleb Jefúnneson af ættbálki Júda,

7Jígeal Jósefsson af ættbálki Íssakars,

8Hósea Núnsson af ættbálki Efraíms,

9Paltí Rafúson af ættbálki Benjamíns,

10Gaddíel Sódíson af ættbálki Sebúlons,

11Gaddí Súsíson af ættbálki Jósefs, af ættbálki Manasse,

12Ammíel Gemallíson af ættbálki Dans,

13Setúr Mikaelsson af ættbálki Assers,

14Nakbí Vofsíson af ættbálki Naftalí og

15Geúel Makíson af ættbálki Gaðs.

16Þetta voru nöfn þeirra manna sem Móse sendi til að kanna landið. Móse gaf Hósea Núnssyni nafnið Jósúa.

17Þessa menn sendi Móse til að kanna Kanaansland og sagði við þá: „Farið um Suðurlandið og haldið svo áfram upp í fjalllendið.

18Skoðið landið og hvernig fólkið er sem í því býr, hvort það er sterkbyggt eða veikbyggt, fátt eða margt.

19Athugið einnig hvort landið, sem það býr í, er gott eða vont og hvernig borgirnar eru sem það býr í, hvort það eru óvarðar búðir eða víggirtar borgir,

20hvort landið er frjósamt eða harðbýlt, hvort þar vaxa tré eða ekki. Verið hugrakkir og komið með nokkuð af ávöxtum landsins.“ En þetta var á þeim tíma árs er fyrstu vínberin þroskast.

21Síðan fóru þeir upp eftir og könnuðu landið frá Síneyðimörk til Rehób við Lebó Hamat.

22Þeir fóru um Suðurlandið til Hebron. Þar bjuggu Ahíman, Sesaí og Talmaí, niðjar Anaks. Hebron hafði verið reist sjö árum áður en Sóan í Egyptalandi.

23Þeir komu inn í Eskóldal og skáru þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og þurfti tvo menn til að bera hana á burðarstöng. Einnig tóku þeir með sér nokkuð af granateplum og fíkjum.

24Þessi staður var nefndur Eskóldalur eftir vínberjaklasanum sem Ísraelsmenn skáru þar af.

25Þeir sneru aftur fjörutíu dögum síðar þegar þeir höfðu kannað landið.

26Þeir héldu af stað og komu til Móse, Arons og alls safnaðar Ísraelsmanna í Kades í Paraneyðimörk. Þeir sögðu þeim og öllum söfnuðinum ferðasöguna og sýndu þeim ávexti landsins.

27Þannig sögðu þeir Móse frá: „Við komum til landsins sem þú sendir okkur til. Það flýtur sannarlega í mjólk og hunangi og hérna eru ávextir þess.

28En fólkið, sem byggir landið, er sterkbyggt og borgirnar eru víggirtar og mjög stórar. Þar sáum við einnig niðja Anaks.

29Í Suðurlandinu búa Amalekítar en Hetítar, Jebúsítar og Amorítar í fjalllendinu. Kanverjar búa við hafið og með fram Jórdan.“

30Kaleb þaggaði niður í fólkinu sem hafði snúist gegn Móse og sagði: „Við getum áreiðanlega farið og tekið landið til eignar því að við getum unnið það.“

31En mennirnir, sem höfðu farið upp eftir með honum, sögðu: „Við getum ekki farið gegn þessu fólki því að það er öflugra en við.“

32Þeir báru út óhróður meðal Ísraelsmanna um landið sem þeir höfðu kannað og sögðu: „Landið, sem við fórum um til að kanna, gleypir íbúa sína. Allt fólk, sem við sáum í landinu, var mjög stórvaxið.

33Þar sáum við risa en niðjar Anaks eru risar og við vorum eins og engisprettur í eigin augum og einnig í þeirra augum.“

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help