1Þá komu allir herforingjarnir, Jóhanan Kareason og Asarja Hósajason ásamt öllu fólkinu, bæði háum og lágum,
2og sögðu við Jeremía spámann: „Vér biðjum þig innilega að gera bón vora og biðja til Drottins, Guðs þíns, fyrir oss öllum sem eftir erum. Vér erum aðeins fáir eftir af öllum þeim fjölda sem áður var eins og þú getur séð með eigin augum.
3Drottinn, Guð þinn, skal vísa oss veginn sem vér eigum að fara og segja oss hvað vér eigum að gera.“
4Jeremía spámaður svaraði þeim: „Já, ég skal biðja til Drottins, Guðs yðar, eins og þér óskið. Því næst skýri ég yður frá öllu sem Drottinn svarar án þess að leyna yður nokkru.“
5Þá sögðu þeir við Jeremía: „Drottinn skal vera sannorður og áreiðanlegur vottur gegn oss ef vér breytum ekki eftir hverju orði sem Drottinn, Guð þinn, sendir til vor með þér,
6hvort sem það verður gott eða illt. Vér munum hlýða fyrirmælum Drottins, Guðs vors, sem vér sendum þig til. Vér munum hlýða fyrirmælum Drottins, Guðs vors, svo að oss farnist vel.“
Svar Drottins7Tíu dögum síðar kom orð Drottins til Jeremía.
8Hann kallaði þá á Jóhanan Kareason og alla herforingjana, sem með honum voru, ásamt öllu fólkinu, háum og lágum,
9og sagði við þá: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels, sem þér senduð mig til svo að ég legði fyrir hann bæn yðar:
10Ef þér búið um kyrrt í þessu landi mun ég byggja yður upp en ekki brjóta niður, ég mun gróðursetja yður en ekki uppræta. Já, ég iðrast þeirrar ógæfu sem ég hef leitt yfir yður.
11Óttist ekki konunginn í Babýlon sem þér nú óttist. Óttist hann ekki, segir Drottinn, því að ég er með yður. Ég mun hjálpa yður og bjarga yður úr greipum hans.
12Ég mun sýna yður miskunn svo að hann miskunni sig yfir yður og leyfi yður að snúa heim til ættjarðar yðar.
13En ef þér segið: Nei, vér viljum ekki vera um kyrrt í þessu landi, og óhlýðnist fyrirmælum Drottins, Guðs yðar,
14og hugsið: Nei, vér viljum fara til Egyptalands og setjast þar að þar sem vér þurfum hvorki að sjá stríð né heyra lúðurþyt og þurfum ekki að líða hungur,
15heyrið þá orð Drottins, þér sem eruð eftir af Júdamönnum: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Ef þér eruð staðráðnir í að fara til Egyptalands að leita þar hælis
16mun sverðið, sem þér óttist, ná til yðar þar, í Egyptalandi, og hungrið, sem þér hræðist, mun elta yður til Egyptalands og þar munuð þér láta lífið.
17Allir þeir sem eru ákveðnir í að fara til Egyptalands til að leita þar hælis munu falla fyrir sverði, úr hungri og drepsótt. Enginn þeirra mun bjargast eða komast undan bölinu sem ég mun leiða yfir þá.
18Því að svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Á sama hátt og heift mín og reiði steyptist yfir Jerúsalem mun reiði mín steypast yfir yður þegar þér farið til Egyptalands. Þér verðið efni bölbæna og ímynd hryllings, bölvunar og smánar og þennan stað sjáið þér aldrei framar.
19Drottinn hefur talað til yðar sem eftir eruð af Júdamönnum: Farið ekki til Egyptalands. Gerið yður ljóst að nú hef ég varað yður við.
20Þér stofnið lífi yðar í hættu með því að blekkja sjálfa yður. Þér senduð mig sjálfir til Drottins, Guðs yðar, og sögðuð: Bið fyrir oss til Drottins, Guðs vors. Skýrðu oss nákvæmlega frá öllu sem Drottinn, Guð vor, segir, og vér munum breyta eftir því.
21Í dag hef ég skýrt yður frá því en þér hafið ekki hlýtt fyrirmælum Drottins, Guðs yðar, í neinu af öllu því sem hann sendi mig með til yðar.
22Nú skuluð þér vita að þér munuð falla fyrir sverði, úr hungri og drepsótt á þeim stað sem þér viljið fara til og leita hælis.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.