1Orðið, sem kom til Jeremía frá Drottni þegar Nebúkadresar konungur í Babýlon ásamt öllum her sínum og öllum konungsríkjum jarðar, sem hann ríkti yfir, og öllum þjóðum réðst gegn Jerúsalem og öllum borgunum umhverfis hana:
2Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Farðu og ávarpaðu Sedekía Júdakonung og segðu við hann: Svo segir Drottinn: Ég sel hér með þessa borg í hendur konunginum í Babýlon og hann mun brenna hana til ösku.
3Sjálfur munt þú ekki ganga honum úr greipum. Þú verður tekinn til fanga og seldur í hendur honum. Þú munt horfast í augu við konunginn í Babýlon. Hann mun tala við þig augliti til auglitis og þú munt koma til Babýlonar.
4En hlýddu nú á orð Drottins, Sedekía Júdakonungur: Svo segir Drottinn um þig: Þú munt ekki falla fyrir sverði,
5þú munt deyja í friði. Eldur verður kveiktur þér til heiðurs eins og eldur var kveiktur til heiðurs forfeðrum þínum, konungunum sem voru á undan þér, og menn munu syrgja þig og segja: „Vei, herra.“ Ég hef sjálfur talað þetta, segir Drottinn.
6Jeremía spámaður flutti Sedekía Júdakonungi öll þessi boð í Jerúsalem
7þegar her konungsins í Babýlon barðist gegn Jerúsalem og þeim borgum í Júda sem enn voru eftir, Lakís og Aseka. Það voru einu víggirtu borgirnar í Júda sem ekki höfðu verið teknar.
Sáttmálinn um frelsi þræla rofinn8Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni eftir að Sedekía konungur hafði komist að samkomulagi við allt fólkið í Jerúsalem um að lýsa yfir lausn þræla:
9Hver og einn átti að leysa þræl sinn eða ambátt úr ánauð væru þau hebresk. Enginn Júdamaður átti framar að hafa landa sinn að þræli.
10Allir höfðingjarnir og fólkið, sem átti hlut að samkomulaginu um að hver maður skyldi leysa þræl sinn og ambátt og ekki halda þeim lengur í þrældómi, héldu það og leystu þræla sína.
11En nokkru síðar skiptu þeir um skoðun, sóttu þrælana og ambáttirnar sem þeir höfðu leyst og hnepptu aftur í ánauð.
12Þá kom orð Drottins til Jeremía:
13Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég gerði sáttmála við feður yðar þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, og gaf þessi fyrirmæli:
14„Sjöunda hvert ár skal sérhver yðar leysa úr ánauð hebreskan ættbróður sinn sem hefur selt sig þér. Hann skal vera þræll þinn í sex ár, því næst skaltu leysa hann úr ánauð.“ En feður yðar hlýddu mér ekki og lögðu ekki við hlustir.
15En nú hafið þér tekið sinnaskiptum og gert það sem er rétt í augum mínum með því að lýsa yfir að hver og einn leysi landa sinn úr ánauð. Þér gerðuð samkomulag um þetta frammi fyrir augliti mínu í húsinu sem kennt er við nafn mitt.
16En þá skiptuð þér aftur um skoðun og vanhelguðuð nafn mitt með því að hver og einn sótti þræla og ambáttir sem höfðu verið leyst úr ánauð og hneppti þau aftur í þrældóm.
17Því segir Drottinn: Þér hafið ekki hlýtt mér. Enginn yðar hefur lýst því yfir að hann leysi ættbróður sinn og landa úr ánauð. Ég boða yður lausn, segir Drottinn, lausn með sverði, drepsótt og hungri. Ég geri yður skelfilega í augum allra konungsríkja jarðar.
18Ég fer með þá sem rufu samkomulagið og héldu ekki ákvæði samningsins, sem þeir gerðu fyrir augliti mínu, eins og kálfinn sem þeir skáru í tvennt og gengu síðan á milli hlutanna.
19Höfðingjana í Jerúsalem og Júda, hirðmennina, prestana og alla borgara landsins, sem gengu milli hluta kálfsins,
20mun ég selja fjandmönnum þeirra í hendur, í hendur þeim sem sækjast eftir lífi þeirra. Lík þeirra verða æti handa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar.
21Sedekía Júdakonung og höfðingja hans mun ég selja í hendur fjandmönnum þeirra, þeim sem sækjast eftir lífi þeirra, í hendur hers konungsins í Babýlon sem nú er að snúa frá yður.
22Ég gef skipun, segir Drottinn, um að þeir snúi aftur til þessarar borgar, ráðist á hana, taki hana og brenni til ösku. Borgirnar í Júda geri ég að eyðimörk þar sem enginn býr.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.