Orðskviðirnir 19 - Biblían (2007)

1Betri er fátækur maður og ráðvandur

en sá sem er flár í orðum og heimskur.

2Kapp er best með forsjá

og sá hrasar sem hraðar sér.

3Flónska mannsins eyðir efnum hans

en hjarta hans kennir Drottni um.

4Auður fjölgar vinum

en fátækum manni bregst vinur.

5Falsvotti verður ekki látið órefsað,

sá sem fer með lygar kemst ekki undan.

6Margir smjaðra fyrir tignarmanninum,

allir eru vinir hins örláta.

7Allir bræður hins snauða fyrirlíta hann,

hve miklu fremur forðast þá vinir hans hann.

8Sá sem öðlast skilning vinnur sér mest gagn,

sá sem ann skynseminni hlýtur hamingju.

9Falsvotti verður ekki látið órefsað

og sá sem fer með lygar tortímist.

10Sællífi hæfir ekki heimskum manni,

hvað þá þræli að drottna yfir höfðingjum.

11Það er viska að vera seinn til reiði

og sæmd að láta rangsleitni ekki á sig fá.

12Reiði konungs er eins og ljónsöskur

en hylli hans sem dögg á grasi.

13Heimskur sonur steypir föður sínum í glötun,

konuþras er sem sífelldur þakleki.

14Hús og auður er arfur frá feðrunum

en hyggin kona er gjöf frá Drottni.

15Letin svæfir þungum svefni

og iðjuleysingjann mun hungra.

16Sá sem hlýðir lögmálinu varðveitir líf sitt

en sá deyr sem ekki hefur gát á vegum sínum.

17Sá lánar Drottni sem líknar fátækum,

hann mun endurgjalda honum.

18Agaðu son þinn meðan enn er von,

gættu þess að gera ekki út af við hann.

19Hinn skapbráði mun hljóta refsingu,

reynir þú að bjarga honum gerir þú illt verra.

20Hlýddu ráðum og taktu umvöndun

svo að þú verðir vitur að lokum.

21Mörg er ráðagerð mannshjartans

en áform Drottins standa.

22Maðurinn þráir miskunnarverk

og betri er fátækur maður en lygari.

23Að óttast Drottin leiðir til lífs,

þá hvílast menn mettir og óhultir.

24Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina

en nennir ekki að bera hana upp að munni sér.

25Sláir þú spottarann verður hinn fávísi hygginn,

sé vandað um við skynsaman mann vex hann að viti.

26Sá sem misþyrmir föður sínum og rekur burt móður sína,

sá sonur fremur smán og óhæfu.

27Sonur minn, hættu að hlýða á umvöndun

og þú fjarlægist orð þekkingarinnar.

28Gagnslaust vitni hæðir réttinn

og illkvittni býr í munni ranglátra.

29Spottarar eiga refsingar í vændum

og bök heimskingjanna verða barin.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help