Önnur Makkabeabók 4 - Biblían (2007)

Símon ákærir Ónías

1Símon sá sem fyrr var nefndur, og sagt hafði til fjárins og svikið föðurland sitt, tók nú að rægja Ónías og fullyrti að hann hefði hrætt Helíódórus og staðið fyrir ofbeldinu.

2Hann dirfðist að halda því fram að þessi velgjörðamaður borgarinnar og verndari landa sinna og ákafi forvígismaður lögmálsins sæti á svikráðum við stjórn ríkisins.

3En er fjandskapurinn magnaðist svo að einn af trúnaðarmönnum Símonar varð manni að bana

4varð Óníasi ljóst hve háskalegt sundurlyndið var orðið og að Appollóníus Menestevsson, landstjóri á Norður-Sýrlandi og Fönikíu, kynti undir heiftarhug Símonar.

5Fór Ónías til konungs, ekki til að ákæra landa sína, heldur til gagns fyrir alla þjóðina, til heilla fyrir almenning og einstaklinga.

6Enda sá hann það fyrir að friður kæmist ekki á að nýju ef konungur skærist ekki í leikinn því að ekki léti Símon af fásinnu sinni.

Jason innleiðir gríska siði

7En að Selevkusi látnum er Antíokkus, að viðurnefni Epífanes, var kominn til ríkis tókst Jason, bróður Óníasar, að sölsa undir sig æðstaprestsembættið með sviksamlegum hætti.

8Hann hét konunginum í bænarskjali þrjú hundruð og sextíu talentum silfurs og að auki áttatíu talentum af öðrum tekjum.

9Auk þess hét hann því að gjalda eitt hundrað og fimmtíu talentur ef konungur veitti sér umboð til að gera íþróttavöll og stofna ungliðaflokk og fengi sér vald til að skrá Jerúsalembúa borgara í Antíokkíu.

10Þegar konungur hafði samþykkt þetta og Jason tekið völdin hóf hann þegar að snúa siðum þjóðar sinnar til grískra hátta.

11Hann virti að vettugi réttindi þau sem Gyðingar höfðu hlotið fyrir náð konungs og tilstilli Jóhannesar, föður Evpólemeusar sem sendur var til Rómar til að gera vináttusamning og bandalag við Rómverja. Hann ógilti hið löglega stjórnskipulag og tók upp nýja siði sem stríddu gegn lögmálinu.

12Hann reyndist óðfús til að reisa íþróttamannvirki undir sjálfri háborginni og fylkti um sig göfugustu æskumönnum, en þeim leyfðist nú að bera hatta.

13Áhugi á öllu sem grískt var og eftiröpun á hátterni útlendinga jókst nú til mikilla muna sakir þess að guðleysi Jasonar, sem enginn æðsti prestur var, voru engin takmörk sett.

14Var jafnvel svo komið að prestarnir afræktu altarisþjónustuna. Þeir létu sér fátt um musterið og afræktu fórnirnar. En um leið og klukkur kvöddu til leikja, sem þó stríddu gegn lögmálinu, hröðuðu þeir sér til að taka þátt í kappleikjum á íþróttaleikvanginum.

15Þeir mátu það einskis sem feðurnir höfðu haldið í heiðri en sóttust eftir grískum vegtyllum.

16Sakir þessa komust þeir líka í æði miklar kröggur því að einmitt þeir sem þeim var svo sýnt um að apa eftir og reyndu að líkjast í öllu urðu óvinir þeirra og refsivöndur.

17Enda er það enginn hégómi að breyta í trássi við lögmál Guðs. Það sýnir framhald sögunnar.

Hellenísk áhrif í Jerúsalem

18Eitt sinn við kappleika, sem haldnir voru fjórða hvert ár í Týrus að konungi viðstöddum,

19sendi hrakmennið Jason menn þangað frá Jerúsalem. Höfðu þeir borgararétt í Antíokkíu og áttu að færa þrjú hundruð drökmur silfurs að fórn til Heraklesar. En þeir sem komu með féð færðust undan því að nota það til fórnar þar sem það væri ekki við hæfi og báðu um að féð yrði notað til annars.

20Sendandinn hafði ætlað Heraklesi þetta fé en vegna þeirra sem fluttu það var því varið til að búa galeiður.

21Þegar Appollóníus Menestevsson var sendur til Egyptalands til að vera við krýningu Fílometors konungs varð Antíokkus þess áskynja að Fílometor var orðinn mótsnúinn stjórn hans. Vildi hann því tryggja stöðu sína og fór í því skyni til Joppe og hélt þaðan til Jerúsalem.

22Jason og borgarbúar tóku höfðinglega á móti honum og var hann hylltur með hrópum er blysför var farin fyrir honum inn í borgina. Síðan hélt hann með lið sitt til Fönikíu.

Menelaus verður æðsti prestur

23Að þremur árum liðnum sendi Jason Menelaus, sem var bróðir Símonar sem fyrr gat, til að gjalda konunginum skatt og ráða nokkur mikilvæg mál til lykta.

24Á fundum sínum með konungi smjaðraði hann fyrir honum og lét sem hann ætti mikið undir sér. Komst hann yfir æðstaprestsembættið með því að borga þrjú hundruð talentum silfurs meira en Jason.

25Sneri hann aftur til Jerúsalem með konunglega skipan í embættið en var engan veginn hæfur til að gegna því enda ofsafenginn harðstjóri og hamslaus sem villidýr.

26Jason, sem sjálfur hafði bolað bróður sínum frá með svikum, var nú hrakinn burt af brögðum annars og hélt landflótta til Ammón.

27Menelaus hélt embættinu en stóð konungi engin skil á því fé sem hann hafði heitið honum,

28þó svo að Sóstrates, sem var yfirmaður setuliðsins í virkinu, krefði hann þess, en hann átti að innheimta skatta. Sakir þessa stefndi konungur þeim báðum á sinn fund.

29Menelaus lét Lýsimakkus, bróður sinn, gegna æðstaprestsembættinu fyrir sig en Sóstrates fékk Krates, sem var höfuðsmaður liðs Kýpurmanna, fyrir sig.

Ónías myrtur

30Meðan þessu fór fram hófu Tarsusbúar og Mellótar uppreisn vegna þess að borgir þeirra höfðu verið gefnar Antíokkíu, hjákonu konungs.

31Konungur hélt samstundis þangað til að stilla til friðar og lét stjórnina eftir í höndum Androníkusar sem var einn af tignustu mönnum ríkisins.

32Menelausi fannst nú bera vel í veiði og hnuplaði hann nokkrum gullkerum úr musterinu og færði þau Androníkusi að gjöf. Nokkur önnur hafði hann selt í Týrus og borgunum þar í grennd.

33Er Ónías komst að raun um þetta fordæmdi hann það harðlega en hann hafði leitað hælis í griðastaðnum í Dafne, nærri Antíokkíu.

34Sakir þess tók Menelaus Androníkus á eintal og hvatti hann til að ráða Ónías af dögum.

Androníkus fór til Óníasar og beitti hann brögðum. Hann hét honum vináttu sinni og griðum og lagði eið að og þó að Ónías grunaði hann um græsku gat Androníkus tælt hann til að yfirgefa griðastaðinn. Jafnskjótt réð hann Óníasi bana án alls tillits til laga og réttar.

35Þessu reiddust ekki Gyðingar einir heldur einnig menn af öðru þjóðerni og undu illa svívirðilegu morði þessa manns.

Androníkusi hegnt

36Þegar svo konungur sneri aftur frá Kilíkíu báru Gyðingar í borginni fram ákæru vegna réttarmorðsins á Óníasi og jafnvel Grikkir tóku upp þykkjuna með þeim.

37Antíokkus varð harmi sleginn, fann til sárrar meðaumkunar og grét er hann minntist breytni og dygða hins látna.

38Svo varð hann gripinn heift og lét óðara svipta Androníkus purpuraskikkjunni, rífa af honum klæðin og leiða hann um alla borgina og að staðnum þar sem hann framdi ódæðið á Óníasi. Þar lét hann deyða morðingjann sem hlaut þannig réttláta refsingu af Drottni.

Musterisræninginn Lýsimakkus deyddur

39Lýsimakkus hafði ítrekað rænt musterið í Jerúsalem með samþykki Menelausar. Þegar þetta varð heyrinkunnugt safnaðist fólkið til mótmælaaðgerða gegn Lýsimakkusi sem þegar hafði haft á brott fjölmarga gullmuni.

40Er reiði mannfjöldans magnaðist og æsingar jukust deildi Lýsimakkus út vopnum til nær þriggja þúsunda manna og átti því upphafið að ofbeldisverkum. Fyrir liðinu fór Áranus nokkur. Hann var kominn til ára sinna og glópska hans engu minni aldrinum.

41Þegar menn sáu hverju Lýsimakkus fór fram gripu sumir grjót, aðrir digra lurka eða handfylli af ösku sem hendi var næst og létu þetta hvað með öðru dynja á mönnum Lýsimakkusar.

42Af þessu urðu margir manna hans sárir og nokkrir féllu en allir aðrir voru reknir á flótta. Musterisræningjann sjálfan drápu þeir hjá fjárhirslunni.

Menelausi stefnt

43Sakir þessa var Menelausi stefnt fyrir rétt

44og er konungurinn kom til Týrusar fluttu þrír menn, sem ráðið sendi, málið fyrir honum.

45Menelaus var þegar orðinn sannur að sök en hann hét Ptólemeusi Dórýmenessyni miklu fé ef hann gerði konung vilhallan sér.

46Ptólemeus tók þá konunginn með sér inn í súlnagöng, undir því yfirskini að þar væri svala að finna, og taldi honum hughvarf.

47Sýknaði konungur Menelaus, sem átti sök á allri þessari ógæfu, en vesalings sendimennina dæmdi hann til dauða en þá hefði jafnvel dómstóll setinn Skýþum sýknað.

48Þessir menn máttu án tafar þola rangláta refsingu en þeir höfðu borið borgina og íbúa hennar og áhöldin helgu fyrir brjósti.

49En sumum Týrusbúum ofbauð svo níðingsverk þetta að þeir kostuðu veglega útför mannanna.

50Menelaus hélt hins vegar embættinu og átti það ágirnd valdhafanna að þakka. Gerðist hann sífellt illskeyttari og sat á svikráðum við landa sína.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help