Orðskviðirnir 14 - Biblían (2007)

1Viska kvennanna reisir húsið

en fíflska þeirra rífur það niður með berum höndum.

2Sá sem breytir rétt óttast Drottin

en sá sem fyrirlítur hann fer villur vegar.

3Í munni heimskingjans býr vöndur gegn hroka hans

en varir hinna vitru varðveita þá.

4Þar sem engin naut eru, er jatan tóm

en af krafti uxans fæst mikill ágóði.

5Sannorður vottur lýgur ekki

en falsvottur fer með lygar.

6Spottarinn leitar visku en finnur ekki

en hyggnum manni er hún auðfengin.

7Haltu þig fjarri heimskum manni,

engin viskuorð hlýtur þú af honum.

8Viska hins hyggna er að þekkja réttan veg

en fíflska heimskingjanna er blekking.

9Heimskingja má sætta með meðalgöngu

en hreinskilnum nægir góðvild.

10Hjartað eitt þekkir kvöl sína

og í gleði þess getur enginn annar blandað sér.

11Hús ranglátra eyðist

en tjald hreinskilinna blómgast.

12Margur vegurinn virðist greiðfær

en endar þó í helju.

13Þótt hlegið sé kennir hjartað til,

gleði kann að enda í trega.

14Rangsnúið hjarta hlýtur sín málagjöld,

svo og góður maður af verkum sínum.

15Einfaldur maður trúir öllu

en hygginn maður kann fótum sínum forráð.

16Vitur maður óttast hið illa og forðast það

en heimskinginn anar ugglaus áfram.

17Uppstökkan mann henda glöp

en hinn meinfýsni verður hataður.

18Einfeldningarnir erfa fíflsku

en vitrir menn krýnast þekkingu.

19Hinir vondu verða að lúta hinum góðu

og hinir ranglátu að standa fyrir dyrum réttlátra.

20Fátæklingurinn verður jafnvel hvimleiður jafningja sínum

en auðmaðurinn eignast fjölda vina.

21Sá sem fyrirlítur vin sinn drýgir synd

en lánsamur er sá sem sýnir nauðstöddum miskunn.

22Vissulega villast þeir sem áforma illt

en hinir góðviljuðu ávinna sér trausta vináttu.

23Allt erfiði færir ágóða

en fánýtt hjal leiðir til skorts.

24Prýði hinna vitru er auður þeirra

en fíflska heimskingjanna er og verður fíflska.

25Sannorður vottur bjargar lífi

en sá sem fer með lygar er svikari.

26Að óttast Drottin veitir manni öryggi,

börn hans munu eiga sér athvarf.

27Að óttast Drottin er lífslind

og forðar frá snörum dauðans.

28Mannfjöldi er konungsprýði

en mannfæð steypir höfðingjum.

29Sá sem er seinn til reiði er skynsamur

en hinn bráðláti setur heimskuna í hásæti.

30Hugarró er líkamanum líf

en öfund er eitur í beinum hans.

31Sá sem kúgar snauðan mann óvirðir skapara hans

en sá sem miskunnar snauðum heiðrar hann.

32Hinn rangláti fellur á illsku sinni

en hinum réttláta er ráðvendnin athvarf.

33Í hjarta hyggins manns hefur viskan hægt um sig,

á meðal heimskingja lætur hún mikið yfir sér.

34Réttlæti er sæmd þjóðar

en syndin er smán þjóðanna.

35Hæfur þjónn hlýtur hylli konungsins

en duglaus þjónn uppsker bræði hans.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help