1Drottinn talaði við Móse og sagði:
2„Gefðu Aroni og sonum hans þessi fyrirmæli: Þetta eru lögin um brennifórnina: Brennifórnin skal liggja á eldstæðinu ofan á altarinu alla nóttina til morguns. Með henni skal eldinum á altarinu haldið lifandi.
3Presturinn skal fara í línklæði sín, hylja hold sitt með línbuxum. Því næst skal hann fjarlægja fórnaröskuna eftir að eldurinn hefur eytt brennifórninni á altarinu og henda henni við hliðina á altarinu.
4Þá skal hann fara úr klæðum sínum og fara í önnur klæði og bera fórnaröskuna út fyrir herbúðirnar á hreinan stað.
5Eldinum á altarinu skal haldið logandi, hann má ekki slokkna. Presturinn skal leggja við á hann hvern morgun, koma brennifórninni fyrir á honum og láta mör heillafórnarinnar líða upp í reyk.
6Eldinum skal ætíð haldið lifandi á altarinu, hann má ekki slokkna.
Kornfórn7Þetta eru lögin um kornfórnina: Synir Arons skulu bera hana fram fyrir auglit Drottins að framhlið altarisins.
8Presturinn skal taka handfylli af mjöli kornfórnarinnar og olíu ásamt öllu reykelsinu, sem er ofan á kornfórninni, og láta það líða upp í reyk af altarinu. Þetta er þekkur ilmur, minningarhluti handa Drottni.
9Aron og synir hans skulu neyta þess sem eftir er af kornfórninni. Það skal etið sem ósýrðar kökur á helgum stað, í forgarði samfundatjaldsins.
10Ekki má baka það sem sýrt brauð. Það er hluti eldfórnar minnar sem ég gef þeim. Það er háheilagt eins og syndafórn og sektarfórn.
11Allir karlmenn meðal niðja Arons mega neyta þessa hluta eldfórna Drottins. Þetta er ævarandi regla sem gildir fyrir ykkur frá einni kynslóð til annarrar. Hver sem snertir fórnina verður heilagur.“
12Drottinn talaði við Móse og sagði:
13„Tíundi hluti úr efu af fínu mjöli er gjöfin sem Aron og synir hans skulu færa Drottni daginn sem þeir verða smurðir. Það skal fært í daglega kornfórn, helmingur að morgni og helmingur að kvöldi.
14Þessi kornfórn skal tilreidd á pönnu og mjölið hrært saman við olíu. Þú skalt brjóta fórnina í mola og bera hana fram sem kornfórn, sem Drottni þekkan ilm.
15Sá sona Arons sem verður smurður prestur í hans stað skal tilreiða þessa fórn. Það er ævarandi regla að hún skal öll látin líða upp í reyk sem alfórn handa Drottni.
16Sérhver kornfórn sem prestur færir er alfórn. Hennar má ekki neyta.“
17Drottinn talaði við Móse og sagði:
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu:
18Þetta eru lögin um syndafórnina. Syndafórnardýrinu skal slátrað frammi fyrir augliti Drottins á sama stað og brennifórnardýrinu. Það er háheilagt.
19Presturinn, sem færir syndafórnina, skal neyta hennar. Hennar skal neytt á helgum stað, í forgarði samfundatjaldsins.
20Hver sem snertir kjöt fórnardýrsins verður heilagur. Ef eitthvað af blóðinu slettist á klæðnað skal bletturinn þveginn úr á helgum stað.
21Hafi kjötið verið soðið í leirpotti skal hann brotinn en hafi það verið soðið í eirpotti skal hann burstaður og þveginn í vatni.
22Sérhver karlmaður í fjölskyldum prestanna má neyta þessa kjöts. Það er háheilagt.
23En af syndafórnum skal einskis neytt hafi hluti af blóði þeirra verið borinn inn í samfundatjaldið til friðþægingar í helgidóminum. Þær skal brenna í eldi.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.