Jóel 2 - Biblían (2007)

Dagur Drottins

1Þeytið hornið á Síon

og látið varnaðaróp gjalla frá hinu heilaga fjalli mínu.

Skjálfi nú öll heimsbyggð

því að kominn er dagur Drottins,

nálægur er hann,

2dagur myrkurs og drunga,

dagur niðdimmu og dökkra skýja.

Þau síga sem sorti yfir fjöllin,

þar fer risavaxin og máttug þjóð.

Engan líka hefur þetta átt sér

frá upphafi vega

og ekkert þessu líkt

mun aftur verða um aldir alda.

Framrás engisprettuhersins

3Fyrir þeim fer eyðandi eldur

og slóð þeirra er logandi bál,

fyrir þeim er landið sem Edensgarður,

í slóð þeirra öræfi og auðn

sem enginn fær flúið.

4Áþekkir hestum eru þeir,

fráir sem gæðingar,

5það glymur sem í stríðsvögnum

er þeir þjóta um fjallatindana,

snarkar sem í loga af hálmi,

kliðar sem máttugur her

búist til bardaga.

6Fyrir þeim skjálfa þjóðirnar,

allar ásjónur skipta litum.

7Þeir þjóta fram sem stríðsgarpar,

klífa borgarmúra sem hermenn.

Hver heldur eigin stefnu,

enginn villist í annars braut.

8Enginn hamlar öðrum,

hver stefnir eigin leið.

Þótt kastvopnum sé beitt gegn þeim

bíða þeir ekkert tjón.

9Þeir ráðast á borgina,

þjóta um borgarmúrinn,

klifra upp húsin,

fara inn um gluggana

eins og þjófar.

10Fyrir þeim skelfur jörðin

og himinninn nötrar,

sól og tungl myrkvast

og stjörnurnar synja um birtu sína.

11Drottinn hefur upp raustina frammi fyrir her sínum.

Afar fjölmennt er lið hans

og óteljandi þeir sem hlíta skipun hans

því að vissulega er dagur Drottins mikill og ógurlegur.

Hver fær þá staðist?

Hvatt til iðrunar

12En jafnvel nú,

segir Drottinn,

skuluð þér snúa yður til mín af öllu hjarta yðar,

með föstu, með gráti, með harmakveini.

13Rífið hjörtu yðar

fremur en klæði yðar

og snúið aftur til Drottins, Guðs yðar.

Miskunnsamur er hann og líknsamur,

seinn til reiði og gæskuríkur

og iðrast hins illa.

14Hver veit nema hugur hans snúist enn og mildist

svo að hann láti blessun hljótast af,

svo að þér getið

aftur fært Drottni,

Guði yðar,

matfórn og dreypifórn.

15Þeytið hornið á Síon,

boðið helga föstu,

efnið til helgrar samkundu.

16Kallið fólkið saman,

helgið söfnuðinn,

safnið saman öldungunum,

safnið saman börnunum,

jafnvel þeim sem enn eru á brjósti.

Brúðguminn komi út úr herbergi sínu

og brúðurin undan tjaldhimni sínum.

17Milli fordyris og altaris

skulu prestarnir, þjónar Drottins,

gráta og segja:

„Þyrmdu þjóð þinni, Drottinn,

ofurseldu arfleifð þína ekki smáninni

svo að þjóðirnar hæði hana.

Hví skyldu þjóðirnar spyrja:

Hvar er Guð þeirra?

18Megi vandlæting Drottins kvikna vegna lands hans

og megi hann sýna þjóð sinni umhyggju.“

Endurreisn heitið

19Og Drottinn svaraði og sagði við þjóð sína:

Sjá, nú sendi ég yður

korn, vínlög og olíu,

þar munuð þér hljóta fylli yðar.

Og ég mun aldrei framar

gera yður að aðhlátursefni þjóðanna.

20Andstæðinginn í norðri

rek ég langt frá yður,

hann hrek ég á öræfi og óbyggðir,

framvarðarsveit hans að hafinu í austri

og baksveitir hans að hafinu í vestri.

Af honum verður mikill óþefur,

stækur ódaunn stígur upp af honum

enda hefur hann afrekað mikið.

21Óttast ekki, land,

heldur fagna og gleðst

því að Drottinn hefur unnið mikil stórvirki.

22Óttist ekki, dýr merkurinnar.

Beitilönd öræfanna gróa,

trén bera ávöxt,

fíkjutrén og vínviðurinn veita þrótt sinn.

23Gleðjist, Síonarbúar,

og fagnið í Drottni, Guði yðar.

Af réttlæti sínu hefur hann sent yður vorregnið

og eins og fyrrum mun hann gefa yður vorregn og haustregn.

24Þreskivellir munu fyllast af korni

og kerin flóa yfir af vínlegi og olíu.

25Ég bæti yður árin

sem engisprettan át upp,

þau sem smávargurinn, grasvargurinn og jarðvargurinn átu,

sá mikli her sem ég sendi gegn yður.

26Þér munuð borða fylli yðar

og lofa nafn Drottins, Guðs yðar,

sem svo undursamlega hefur við yður breytt.

Og aldrei framar mun þjóð mín þola smán.

27Og þér munuð vita að ég dvelst með Ísrael

og er Drottinn, Guð yðar,

ég, enginn annar.

Og aldrei framar mun þjóð mín þola smán.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help