Önnur Mósebók 4 - Biblían (2007)

1Móse svaraði og sagði: „En ef þeir trúa mér ekki og hlusta ekki á mig, heldur segja: Drottinn hefur ekki birst þér.“

2Þá sagði Drottinn: „Hvað ertu með í hendinni?“ „Staf,“ svaraði hann.

3Þá sagði Drottinn: „Varpaðu honum til jarðar.“ Móse varpaði stafnum til jarðar og varð hann að eiturslöngu og Móse hörfaði undan henni.

4Þá sagði Drottinn við Móse: „Réttu út höndina og gríptu um halann á henni.“ Hann rétti út höndina, tók um hann og varð hún þá aftur að staf í hendi hans.

5„Þetta verður til þess að þeir geti trúað því að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér.“

6Enn fremur sagði Drottinn við hann: „Stingdu hendinni í barm þér.“ Móse stakk hendinni í barm sér en þegar hann dró hana aftur út var hönd hans hvít sem snjór af holdsveiki.

7Þá sagði Drottinn: „Stingdu hendinni aftur í barm þér.“ Hann stakk hendinni í barm sér en þegar hann dró hana til sín var hún aftur orðin eins og annað hörund hans.

8„Ef þeir trúa þér hvorki né láta sannfærast af fyrra jarteikninu munu þeir láta sannfærast af hinu síðara.

9En fari svo að þeir trúi hvorki þessum tveimur jarteiknum né hlusti á þig skaltu sækja vatn í Níl og ausa því á þurrt land. Þá verður vatnið, sem þú sóttir í ána, að blóði.“

10Þá sagði Móse við Drottin: „Æ, Drottinn, ég hef aldrei málsnjall verið, hvorki áður fyrr né nú eftir að þú fórst að tala við mig, þjón þinn. Mér er tregt um mál og tungutak.“

11Drottinn svaraði honum: „Hver gefur manninum munn, hver gerir hann mállausan eða heyrnarlausan, sjáandi eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn?

12En farðu nú. Ég verð með munni þínum og kenni þér hvað þú átt að segja.“

13Móse sagði: „Æ, Drottinn, sendu einhvern annan.“

14Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: „Er ekki Levítinn, Aron, bróðir þinn? Ég veit að hann er vel máli farinn. Hann er meira að segja í þann veginn að halda af stað til móts við þig og hann mun gleðjast af heilum hug þegar hann sér þig.

15Þú skalt tala til hans og leggja honum orð í munn en ég verð sjálfur með munni þínum og munni hans og ég mun kenna ykkur hvað þið skuluð gera.

16Hann á að tala til þjóðarinnar fyrir þig, hann verður munnur þinn en þú verður honum Guð.

17Þú skalt taka þennan staf þér í hönd og gera jarteiknin með honum.“

Móse snýr aftur til Egyptalands

18Móse fór nú aftur til Jetró, tengdaföður síns, og sagði við hann: „Ég vil fara til ættbræðra minna, sem eru í Egyptalandi, og sjá hvort þeir eru enn á lífi.“ Jetró svaraði: „Far þú í friði.“

19Drottinn sagði við Móse í Midían: „Farðu aftur til Egyptalands því að allir, sem sóttust eftir lífi þínu, eru dánir.“

20Móse sótti þá konu sína og syni, setti þau upp á asna og hélt aftur til Egyptalands. Móse hafði staf Guðs í hendi sér.

21Drottinn sagði við Móse: „Þegar þú kemur til Egyptalands á ný skaltu gæta þess að gera öll þau undur sem ég hef falið þér að gera frammi fyrir faraó. En ég mun herða hjarta hans svo að hann leyfi þjóðinni ekki að fara.

22Þá skaltu segja við faraó: Svo segir Drottinn: Ísrael er frumburður minn.

23Því segi ég við þig: Slepptu syni mínum svo að hann geti þjónað mér. Ef þú sleppir honum ekki mun ég drepa frumburð þinn.“

24Það gerðist á leiðinni á næturstað einum að Drottinn réðst á hann og ætlaði að drepa hann.

25Þá tók Sippóra tinnustein og skar yfirhúðina af syni sínum. Hún snerti með henni fætur hans og sagði: „Þú ert mér blóðbrúðgumi.“

26Þá sleppti hann honum. Það var þá sem hún notaði orðið „blóðbrúðgumi“ vegna umskurnarinnar.

27Drottinn sagði við Aron: „Farðu út í eyðimörkina til móts við Móse.“ Hann fór, mætti honum við fjall Guðs og kyssti hann.

28Móse skýrði Aroni frá öllum fyrirmælum Drottins sem hann hafði gefið honum og öllum þeim táknum sem hann hafði boðið honum að gera.

29Síðan héldu Móse og Aron af stað og stefndu saman öllum öldungum Ísraelsmanna.

30Aron flutti allt það sem Drottinn hafði boðað Móse. Hann gerði líka táknin í augsýn fólksins

31og það trúði. Þegar Ísraelsmenn heyrðu að Drottinn hefði liðsinnt þeim vegna þess að hann hefði séð þjáningu þeirra lutu þeir og féllu fram.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help