Síraksbók 32 - Biblían (2007)

1Hafi menn valið þig veislustjóra, ofmetnast ekki,

ver heldur sem jafningi þeirra.

Huga fyrst að því sem þeim kemur,

tak þér síðan sæti.

2Þegar þú hefur gert allt sem þér ber máttu setjast til borðs

svo að þú getir fagnað með hinum

og hlotið heiður fyrir vel unnið verk.

3Tala þú, öldungur, því að það er þinn réttur

en með góðri dómgreind og spill ekki tónlist.

4Haf eigi uppi mælgi er á annað er hlustað

og lát ekki í ótíma ljós þitt skína.

5Eins og roðasteinn á innsiglishring af gulli

er tónlistarflutningur við samdrykkju.

6Eins og smaragðsinnsigli greypt í gull

er strengleikur með ljúfu víni.

7Tala þú, ungi maður, ef þú mátt til

og eigi nema tvisvar og þrábeðinn.

8Kom þér að efni og vertu gagnorður,

sýn að þú veist þínu viti en kannt að þegja.

9Haf þig eigi frammi meðal höfðingja

og lát ekki móðan mása meðal öldunga.

10Eins og elding fer fyrir þrumu

fer hyllin fyrir hæverskum manni.

11Stattu upp í tíma og rektu ekki lestina,

haltu rakleiðis heim og tef ekki.

12Þar getur þú glaðst og gert sem þú vilt

en syndga eigi með stærilæti í orðum.

13Síðan skalt þú lofa hann sem skapaði þig

og mettar þig gæðum sínum.

Óttist Drottin og haldið lögmálið

14Sá sem óttast Drottin hlýtir leiðsögn hans,

þeir sem árla leita hans munu náðar njóta.

15Sá sem rannsakar lögmálið eignast auð þess

en hræsnara verður það til falls.

16Þeir sem óttast Drottin öðlast skilning á réttlæti

og úrskurðir þeirra lýsa sem ljós.

17Syndarinn tekur eigi ávítum,

hann túlkar lögmálið eins og honum sýnist.

18Hygginn maður tekur ætíð ábendingum

en hrokafullur útlendingur fer ávallt sínu fram.

19Án yfirvegunar skaltu ekkert gera,

þá þarftu ekki að iðrast að unnu verki.

20Legg ei leið þína um ójafnan veg

svo að þú hrasir þar ekki um steina.

21Vertu eigi ugglaus þó að gatan sé greið.

22Gæt þín jafnvel fyrir eigin börnum.

23Treystu á sjálfan þig í hverju verki,

einnig það er að halda boðorðin.

24Sá er treystir lögmálinu heldur boðorðin,

sá sem treystir Drottni mun eigi hljóta skaða.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help