1Samúel sagði við Sál: „Drottinn sendi mig til þess að smyrja þig til konungs yfir lýð sínum, Ísrael. Þess vegna skaltu nú hlýða orði Drottins.
2Svo segir Drottinn herskaranna: Ég vil refsa Amalekítum fyrir það sem þeir gerðu Ísrael: Þeir lokuðu leiðinni fyrir Ísrael þegar hann fór út úr Egyptalandi.
3Nú skaltu fara og sigra Amalek. Helgaðu þá banni og allt sem þeim tilheyrir. Hlífðu engum. Dreptu karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, kameldýr og asna.“
4Þá kallaði Sál herinn saman og kannaði hann í Telaím. Reyndist hann tvö hundruð þúsund fótgönguliðar og tíu þúsund Júdamenn.
5Síðan hélt Sál til borgar Amalekíta og lagðist í launsátur í dalnum.
6Því næst sagði Sál við Keníta: „Búist til ferðar, farið burt og segið skilið við Amalekíta svo að ég eyði ykkur ekki ásamt þeim. Þið komuð vel fram við Ísraelsmenn þegar þeir voru á leiðinni frá Egyptalandi.“ Kenítar sögðu þá skilið við Amalekíta
7og Sál sigraði Amalekíta á svæðinu frá Havíla til Súr, austan við Egyptaland.
8Hann tók Agag, konung Amalekíta, lifandi til fanga en allan herinn helgaði hann banni og hjó niður með sverðseggjum.
9Sál og her hans þyrmdu lífi Agags og vænstu sauðunum og holdmestu nautunum, lömbunum og öllu öðru sem álitlegt var. Ekkert af þessu helguðu þeir banni. En allt sem þeir mátu lítils eða þeim fannst rýrt helguðu þeir banni.
Sál hafnað sem konungi10Þá kom orð Drottins til Samúels:
11„Mig iðrar þess að ég gerði Sál að konungi því að hann hefur snúið baki við mér og ekki framkvæmt skipanir mínar.“ Þessu reiddist Samúel og hann hrópaði til Drottins alla nóttina.
12Árla næsta morgun gekk hann út til að leita Sáls en var þá sagt: „Sál fór til Karmel og reisti sér þar minnismerki. Þaðan hélt hann áfram til Gilgal.“
13Þegar Samúel kom til Sáls sagði Sál við hann: „Drottinn blessi þig. Ég hef gert það sem Drottinn bauð.“
14Þá spurði Samúel: „Hvaða jarm er þetta sem mér berst til eyrna og hvaða baul er það sem ég heyri?“
15Sál svaraði: „Það eru gripir sem liðið tók frá Amalekítum. Herinn þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að færa þau Drottni, Guði þínum, að fórn. Annað höfum við helgað banni.“
16Þá sagði Samúel við Sál: „Hættu nú. Ég skal segja þér hvað Drottinn sagði mér í nótt.“ „Já, gerðu það,“ svaraði Sál.
17Samúel sagði: „Ertu ekki leiðtogi ættbálka Ísraels þó að þér finnist þú smár? Drottinn hefur smurt þig til konungs yfir Ísrael
18og Drottinn sendi þig af stað og skipaði: Farðu og helgaðu Amalekíta banni, þessa syndara. Þú skalt berjast gegn þeim þar til þú hefur afmáð þá.
19Hvers vegna hlýddir þú ekki boði Drottins? Þess í stað kastaðir þú þér yfir herfangið og gerðir það sem illt er í augum Drottins.“
20Sál svaraði Samúel: „Ég hlýddi boði Drottins og fór þangað sem hann sendi mig. Ég tók Agag, konung Amalekíta, með mér og helgaði Amalek banni.
21En herinn tók sauðfé og naut af herfanginu, það besta af því sem átti að vígja banni, til þess að fórna því Drottni, Guði þínum, í Gilgal.“
22Þá sagði Samúel:
Hefur Drottinn þá sömu velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum
og hlýðni við boð sín?
Hlýðni er betri en fórn,
eftirtekt betri en hrútafeiti.
23Þrjóska er eins og spádómskukl,
þvermóðska áþekk hjáguðadýrkun.
Af því að þú hafnaðir orði Drottins
hefur hann hafnað þér sem konungi.
24Þá sagði Sál við Samúel: „Ég hef syndgað með því að brjóta boð Drottins og fyrirmæli þín. Ég óttaðist fólkið og lét undan kröfu þess.
25Fyrirgefðu synd mína og snúðu með mér aftur svo að ég geti beðið til Drottins.“
26„Ég sný ekki aftur með þér,“ svaraði Samúel Sál. „Af því að þú hefur hafnað orði Drottins hefur hann hafnað þér sem konungi yfir Ísrael.“
27Þegar Samúel sneri sér við til að fara greip Sál í skikkjulaf hans svo að það rifnaði.
28Þá sagði Samúel: „Í dag hefur Drottinn rifið frá þér konungdóminn yfir Ísrael og fengið hann öðrum sem er þér fremri.
29Hann sem er dýrð Ísraels lýgur ekki og iðrast ekki því að hann er ekki maður sem iðrast.“
30Sál sagði: „Ég hef að vísu syndgað en sýndu mér samt þann heiður frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa aftur með mér svo að ég geti beðið til Drottins, Guðs þíns.“
31Þá sneri Samúel aftur með Sál og Sál tilbað Drottin.
32Því næst sagði Samúel: „Leiðið Agag, konung Amaleks, til mín.“ Agag gekk þá glaður til hans og sagði: „Beiskja dauðans er svo sannarlega horfin.“
33En Samúel sagði: „Eins og sverð þitt hefur gert konur barnlausar skal móðir þín nú verða barnlaus.“ Því næst hjó Samúel Agag niður frammi fyrir augliti Drottins í Gilgal.
34Síðan fór Samúel til Rama en Sál fór heim til Gíbeu Sáls.
35Samúel sá Sál aldrei aftur á meðan hann lifði. Samúel hryggðist vegna Sáls því að Drottin hafði iðrað þess að hafa gert Sál að konungi yfir Ísrael.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.