Jóel 1 - Biblían (2007)

1Orð Drottins sem barst Jóel Petúelssyni:

Engisprettuplága

2Hlustið, öldungar,

og hlýðið á þetta, allir sem landið byggið.

Hefur nokkuð þessu líkt gerst á ævi yðar

eða á dögum forfeðra yðar?

3Segið börnum yðar frá þessu

og segi þau það sínum börnum

og börn þeirra komandi kynslóð.

4Það sem smávargurinn leifði át engisprettan,

leifar engisprettunnar át grasvargurinn

og leifar grasvargsins át jarðvargurinn.

5Vaknið, drykkjusvolar, og grátið,

hefjið harmakvein, þér víndrykkjumenn.

Nú er nýja víninu svipt frá vörum yðar.

6Voldug þjóð hefur ráðist inn í land mitt,

meiri en svo að nokkurri tölu verði á komið,

tennur hennar ljónstennur

og skoltar hennar sem á ljónynju.

7Vínviði mínum hefur hún eytt

og tætt sundur fíkjutré mín.

Hún hefur flett berkinum af þeim

og varpað burt, hvítar greinar þeirra blasa við.

8Kveina þú eins og yngismær, klædd hærusekk,

sem harmar unnusta æsku sinnar.

9Matfórn og dreypifórn

eru horfnar úr húsi Drottins

og prestarnir,

þjónar Drottins,

eru harmi slegnir.

10Engin eru eydd

og sorg nístir svörðinn

því að kornið er kramið, vínlögurinn þornaður

og olían þránuð.

11Ráðþrota eru bændurnir

og vínyrkjarnir harma hlut sinn.

Hveitið, byggið,

öll uppskeran er þeim glötuð.

12Skrælnaður er vínviðurinn

og visnuð fíkjutrén,

granateplatrén, pálmarnir og eplatrén.

Visin öll tré merkurinnar

og öll gleði horfin mannanna börnum.

Hvatt til sinnaskipta og bæna

13Gyrðist hærusekk og harmið, prestar,

hefjið harmakvein, þér þjónar altarisins.

Hvílið náttlangt í hærusekk, þjónar Guðs míns.

Húsi Guðs yðar er nú synjað

um matfórn jafnt sem dreypifórn.

14Boðið helga föstu,

efnið til helgrar samkundu.

Stefnið saman öldungunum,

já, öllum landsbúum,

í húsi Drottins, Guðs yðar,

og hrópið til Drottins.

15Ó, sá dagur!

Dagur Drottins nálgast,

algjöra eyðingu færir hann frá Hinum almáttka.

16Er fæðunni ekki svipt burt

fyrir augum vorum

og fögnuði og gleði

úr húsi Guðs vors?

17Fræið er skrælnað

undir leirkökkum,

forðabúr standa auð

og hlöður niðurníddar

því að kornið er skrælnað.

18Ó, hve dýrin barma sér.

Nautgripirnir rása stefnulaust

og finna sér hvergi haga,

sömu nauð þolir sauðféð.

19Til þín, Drottinn, kalla ég.

Eldur hefur sviðið

hagaspildur öræfanna

og bálið eytt

skógum merkurinnar.

20Jafnvel dýr merkurinnar

beina til þín kveinstöfum sínum.

Farvegir lækjanna eru þornaðir

og eldurinn hefur sviðið burt

hagaspildur öræfanna.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help