Jeremía 32 - Biblían (2007)

Jarðakaup Jeremía

1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á tíunda stjórnarári Sedekía Júdakonungs en það var átjánda stjórnarár Nebúkadresars.

2Her konungsins í Babýlon sat þá um Jerúsalem og Jeremía spámaður var í haldi í garði varðliðsins við höll Júdakonungs.

3Sedekía Júdakonungur hafði hann þar í haldi og sagði: „Hvers vegna hefur þú flutt þennan boðskap: Svo segir Drottinn: Ég sel þessa borg í hendur konunginum í Babýlon sem mun vinna hana.

4Sedekía Júdakonungur mun ekki ganga Kaldeum úr greipum heldur verður hann seldur konunginum í Babýlon í hendur. Hann mun standa frammi fyrir honum og tala við hann augliti til auglitis.

5Hann mun flytja Sedekía til Babýlonar og þar verður hann þar til ég vitja hans, segir Drottinn. Ef þér berjist við Kaldea hafið þér ekki erindi sem erfiði?“

6Jeremía sagði: Orð Drottins kom til mín:

7Hanameel, sonur Sallúms, föðurbróður þíns, mun koma til þín og segja: Kauptu akur minn sem er í Anatót því að þér ber að kaupa hann samkvæmt innlausnarskyldunni.

8Hanameel, sonur föðurbróður míns, kom síðan til mín í garð varðliðsins eins og Drottinn hafði sagt. Hann sagði við mig: „Kauptu akur minn í Anatót í landi Benjamíns. Þar sem þú hefur innlausnarskylduna samkvæmt eignarréttinum skaltu kaupa hann.“

Þá skildi ég að þetta voru boð frá Drottni

9og keypti akurinn í Anatót af Hanameel, syni föðurbróður míns. Ég greiddi honum verðið, sautján sikla silfurs.

10Síðan skrifaði ég kaupsamninginn og innsiglaði hann. Þá lét ég votta staðfesta hann og vó silfrið á vog.

11Því næst tók ég kaupsamninginn, bæði innsiglaða eintakið og það opna,

12og fékk Barúk Neríasyni, Mahasejasonar, kaupsamninginn í viðurvist Hanameels, sonar föðurbróður míns, og vottanna sem höfðu undirritað samninginn og allra þeirra Júdamanna sem voru í garði varðliðsins.

13Ég gaf Barúk þessi fyrirmæli í viðurvist þeirra:

14Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Taktu við þessum skjölum, þessum kaupsamningi, bæði innsiglaða eintakinu og því opna, og settu þau í leirker svo að þau varðveitist lengi.

15Því að svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Að nýju verður verslað með hús, akra og víngarða í þessu landi.

Bæn Jeremía

16Þegar ég hafði afhent Barúk Neríasyni kaupsamninginn bað ég til Drottins og sagði:

17Æ, Drottinn minn og Guð. Þú hefur gert himin og jörð með miklum mætti þínum og útréttum armi. Ekkert er þér um megn.

18Þú auðsýnir þúsundum tryggð og kærleika og lætur synina gjalda fyrir sekt feðranna eftir þeirra dag, mikli, sterki Guð, sem berð nafnið Drottinn hersveitanna.

19Mikill ert þú í ráðum og máttugur í verkum þínum. Augu þín vaka yfir öllum vegum mannanna svo að þú getir goldið hverjum og einum eftir breytni hans og ávexti verka hans.

20Þú gerðir tákn og stórmerki í Egyptalandi og hefur gert þau allt til þessa dags, bæði í Ísrael og meðal annarra manna. Þannig vannst þú þér nafnfrægð sem enn varir.

21Þú leiddir lýð þinn, Ísrael, út úr Egyptalandi með undrum og stórmerkjum, sterkri hendi og útréttum armi og mikilli skelfingu.

22Þú fékkst þeim þetta land sem þú hafðir heitið feðrum þeirra að gefa þeim, land sem flýtur í mjólk og hunangi.

23En þegar þeir komu og tóku það til eignar hlýddu þeir ekki boðum þínum og fóru ekki eftir lögum þínum. Þeir hafa ekki gert neitt af því sem þú bauðst þeim. Þess vegna hefur þú sent þeim allt þetta böl.

24Árásarvirkin eru nú þegar komin að borginni, hún verður brátt unnin. Með sverði, hungri og drepsótt verður borgin seld í hendur Kaldeum sem ráðast á hana.

25Samt segir þú við mig, Drottinn minn og Guð: „Kauptu akur fyrir fé og láttu votta staðfesta það nú þótt borgin sé fallin í hendur Kaldeum.“

Svar Drottins

26Þá kom orð Drottins til Jeremía:

27Ég er Drottinn, Guð alls dauðlegs. Er mér nokkuð um megn?

28Þess vegna segir Drottinn: Ég sel þessa borg í hendur Kaldeum og Nebúkadresari konungi í Babýlon og hann mun taka hana.

29Kaldear, sem ráðast á þessa borg, munu ryðjast inn í hana. Þeir munu kveikja í borginni og brenna hana til ösku og húsin þar sem Baal voru færðar reykelsisfórnir á þökum uppi og öðrum guðum dreypifórnir til þess að vekja reiði mína.

30Enda hafa Ísraelsmenn og Júdamenn allt frá æsku sinni gert það eitt sem illt var í augum mínum. Ísraelsmenn hafa aðeins vakið reiði mína með handaverkum sínum, segir Drottinn.

31Allt frá þeim degi er þessi borg var reist og til þessa dags hefur hún vakið gremju mína og reiði. Nú mun ég fjarlægja hana frá augliti mínu

32vegna allra þeirra illu verka sem Ísraelsmenn og Júdamenn hafa unnið til að vekja reiði mína, þeir sjálfir, konungar þeirra, embættismenn, prestar og spámenn, bæði íbúar Júda og Jerúsalem.

33Þeir sneru við mér bakinu en ekki andlitinu. Ég hef kennt þeim án afláts en þeir hafa hvorki viljað hlusta né látið sér segjast.

34Þeir hafa komið sínum viðurstyggilegu guðum fyrir í húsinu sem kennt er við nafn mitt og vanhelgað það.

35Þeir byggðu fórnarhæðir handa Baal í Hinnomssonardal til þess að geta látið syni sína og dætur ganga gegnum eldinn fyrir Mólok. En ég hef hvorki boðið þeim það né hefur mér nokkru sinni komið til hugar að þeir mundu fremja svo viðurstyggilegt athæfi og tæla Júdamenn með því til syndar.

36En nú segir Drottinn, Guð Ísraels, um þessa borg sem þið segið að verði seld konunginum í Babýlon í hendur með sverði, hungri og drepsótt:

37Ég safna þeim saman frá öllum þeim löndum sem ég hrakti þá til í heift minni, reiði og bræði. Ég leiði þá aftur til þessa staðar og læt þá búa þar óhulta.

38Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.

39Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá.

40Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér.

41Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.

42Svo segir Drottinn: Eins og ég sendi þjóðinni þetta mikla böl sendi ég henni allt hið góða sem ég hét henni.

43Aftur verða jarðir keyptar og seldar í þessu landi sem þér segið um: Það er eyðimörk án fólks og fénaðar, seld Kaldeum í hendur.

44Akrar verða aftur keyptir fyrir fé, kaupsamningar gerðir, innsiglaðir og vottfestir, bæði í Benjamínslandi og héruðunum umhverfis Jerúsalem, í borgum Júda og í fjalllendinu, í borgunum á sléttlendinu og í Suðurlandinu því að ég sný við högum þeirra, segir Drottinn.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help