Jesaja 14 - Biblían (2007)

Útlegðinni lýkur

1En Drottinn mun miskunna Jakobi og velja Ísraelsmenn að nýju og láta þá setjast að í sínu eigin landi. Aðkomumenn munu tengjast þeim og sameinast Jakobs ætt.

2Framandi þjóðir munu taka þá að sér og flytja þá heim til sín. En Ísraels ætt mun slá eign sinni á þá og gera þá að þrælum og ambáttum í landi Drottins. Þeir sem gerðu Ísraelsmenn útlæga verða sjálfir útlægir. Ísraelsmenn munu ríkja yfir þeim sem kúguðu þá.

Háðkvæði um Babýloníukonung

3Þegar Drottinn hefur veitt þér hvíld frá þjáningu þinni og skelfingu og hinni hörðu áþján sem þú máttir þola,

4þá muntu hæða konunginn í Babýlon með þessu kvæði:

Hvílíkan endi hlaut kúgarinn,

endi er bundinn á árásir hans.

5Drottinn braut barefli óguðlegra,

veldissprota valdsmannanna.

6Hann barði þjóðirnar í heiftaræði

með höggum á högg ofan

og traðkaði þjóðirnar niður í heift

með vægðarlausum ofsóknum.

7Öll jörðin nýtur hvíldar og friðar,

fagnaðaróp kveða við.

8Jafnvel kýprustrén fagna yfir þér

ásamt sedrustrjánum á Líbanon:

„Fyrst þú ert að velli lagður

kemur enginn hingað til að fella oss.“

9Niðri í helju var allt í uppnámi vegna þín

til að taka á móti þér þegar þú kæmir.

Vofurnar voru reknar á fætur þín vegna,

allir sem voru leiðtogar jarðar.

Allir konungar þjóðanna

voru upp reknir úr hásætum sínum.

10Allir munu þeir taka til máls

og segja við þig:

„Jafnvel þú ert orðinn máttvana,

jafningi vor.“

11Hátign þín steyptist niður í helju

ásamt hörpuhljómi þínum.

Ormar eru breiddir undir þig

og maðkar eru ábreiða þín.

12Nú ertu fallinn af himni,

ljósberi, sonur morgunroðans.

Nú ert þú að velli lagður,

sigurvegari þjóðríkja.

13Þú sagðir við sjálfan þig:

„Ég skal stíga upp til himins,

ofar stjörnum Guðs,

þar skal ég reisa hásæti mitt.

Á þingfjalli guðanna tek ég mér sæti,

yst í norðri.

14Ég skal stíga ofar hæstu skýjum,

líkjast Hinum hæsta.“

15En þér var varpað niður til heljar,

í hina dýpstu gryfju.

16Þeim sem líta þig verður starsýnt á þig,

þeir virða þig vandlega fyrir sér:

„Er þetta maðurinn sem skók alla jörðina,

lét konungsríki riða?

17Hann gerði jörðina að eyðimörk,

reif niður borgir

og sleppti föngum sínum ekki heim.“

18Allir konungar þjóðanna hvíla í viðhöfn,

hver í sínu grafhýsi,

19en þér var fleygt út án greftrunar

eins og ómerkilegri hríslu.

Lík veginna þekja þig,

þeirra sem lagðir voru sverði

og steypt var niður í grjótið í gryfjunni

eins og fótum troðnu hræi.

20Þú munt ekkert samneyti hafa

við þá sem lagðir voru í steingrafir

því að þú hefur eytt eigið land

og drepið eigin þjóð.

Afsprengi illvirkja mun aldrei framar nefnt á nafn.

21Búið blóðvöllinn fyrir syni hans

vegna sektar feðra þeirra.

Aldrei skulu þeir rísa upp til að leggja undir sig jörðina

og fylla hana borgum.

22Ég mun rísa gegn þeim,

segir Drottinn allsherjar.

Ég mun afmá nafn Babýlonar,

leifar hennar, ætt hennar og afkvæmi, segir Drottinn.

23Ég mun fá hana broddgöltum til eignar

og gera hana að fúamýri.

Ég mun sópa henni burt með sópi eyðingarinnar,

segir Drottinn allsherjar.

Gegn Assýríu

24Drottinn allsherjar hefur svarið:

Það sem ég hef fyrirhugað verður,

það sem ég hef áformað kemur fram.

25Ég myl Assýríu í landi mínu

og treð hana niður á fjöllum mínum.

Þá verður oki hennar létt af þeim

og byrði hennar tekin af herðum þeirra.

26Þetta er ákvarðað fyrir allan heiminn

og þetta er höndin sem reidd er gegn öllum þjóðum.

27Hafi Drottinn allsherjar áformað eitthvað,

hver getur ónýtt það?

Sé hönd hans upp reidd,

hver getur snúið henni?

Gegn Filisteum

28Árið sem Akas konungur andaðist var þessi boðskapur kunngjörður:

29Fagnið ekki, Filistear,

þó að stafurinn sem laust yður sé brotinn,

því að af rót snáksins kemur naðra

og ávöxtur hennar verður fljúgandi dreki.

30Hinum aumustu aumra verða fundin engi

og hinir fátæku munu hvílast óhultir.

En rót þína læt ég deyja úr hungri

og tek leifar þínar af lífi.

31Kveina þú, hlið, grát þú, borg,

nötrið af ótta, Filistear,

því að reykjarmökkur kemur úr norðri

og enginn hleypur undan merkjum.

32Hverju á að svara konungum þjóðarinnar?

Að Drottinn hafi lagt grunninn að Síon

og að þar leiti hinir þjáðu meðal lýðs hans hælis.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help