1Móse kallaði allan Ísrael saman og sagði: Heyr þú, Ísrael, lögin og ákvæðin sem ég boða ykkur nú í dag. Lærið þau, haldið þau af kostgæfni.
2Drottinn, Guð okkar, gerði sáttmála við okkur hjá Hóreb.
3Drottinn gerði þennan sáttmála ekki við feður okkar heldur okkur sem nú lifum, okkur öll sem erum hér í dag.
4Drottinn talaði við ykkur á fjallinu, augliti til auglitis úr eldinum.
5Þá stóð ég á milli Drottins og ykkar til að flytja ykkur ræðu Drottins því að þið höfðuð ekki gengið á fjallið af ótta við eldinn. Drottinn sagði:
6„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
7Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
8Þú skalt ekki gera þér skurðgoð í líkingu neins sem er á himnum uppi eða á jörðu niðri eða í vatninu undir jörðinni.
9Þú skalt ekki tilbiðja skurðgoð og ekki dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð. Ég refsa börnum þeirra sem eru mér fjandsamlegir í þriðja og fjórða ættlið fyrir afbrot feðra þeirra.
10En þeim sem elska mig og halda boð mín sýni ég gæsku í þúsund ættliði.
11Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
12Minnstu hvíldardagsins, að halda hann heilagan eins og Drottinn, Guð þinn, hefur fyrir þig lagt.
13Í sex daga skalt þú starfa og vinna öll þín verk.
14En sjöundi dagurinn er hvíldardagur, helgaður Drottni, Guði þínum. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú, sonur þinn né dóttir, þræll þinn né ambátt, naut þitt né asni né neitt af búfénaði þínum né aðkomumaðurinn sem hefur hæli hjá þér í borg þinni. Þræll þinn og ambátt eiga að hvílast eins og þú sjálfur
15og þú skalt minnast þess að þú varst sjálfur þræll í Egyptalandi. Drottinn, Guð þinn, leiddi þig þaðan með sterkri hendi og útréttum armi. Þess vegna hefur Drottinn, Guð þinn, boðið þér að halda hvíldardaginn.
16Heiðra föður þinn og móður þína eins og Drottinn, Guð þinn, hefur boðið þér svo að þú verðir langlífur og þér vegni vel í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
17Þú skalt ekki morð fremja.
18Þú skalt ekki drýgja hór.
19Þú skalt ekki stela.
20Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
21Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns, akur hans, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna, né neitt sem náungi þinn á.“
22Þessi boðorð flutti Drottinn öllum söfnuði ykkar á fjallinu. Hann talaði út úr eldinum, skýjaþykkninu og myrkrinu, með þrumuraust og bætti engu við. Síðan skráði hann þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.
Meðalgangari milli Guðs og Ísraels23Þegar þið höfðuð heyrt þrumuraustina úr myrkrinu og fjallið stóð enn í björtu báli komuð þið til mín, allir höfðingjar ættbálka ykkar og öldungar,
24og sögðuð: „Drottinn, Guð okkar, hefur birt okkur dýrð sína og mátt og við heyrðum rödd hans úr eldinum. Í dag höfum við reynt að Guð hefur talað til manna og þeir haldið lífi.
25Hví skyldum við þá deyja? Þessi mikli eldur gæti gleypt okkur. Ef við heyrum raust Drottins, Guðs okkar, einu sinni enn munum við deyja.
26Því að hvaða dauðlegur maður hefur nokkru sinni heyrt raust hins lifanda Guðs úr eldi eins og við og haldið lífi?
27Þú skalt fara einn og hlusta á allt sem Drottinn, Guð okkar, segir og skýra okkur síðan frá öllu sem Drottinn, Guð okkar, segir við þig. Við munum hlusta á það og hlýða.“
28Drottinn heyrði hvað þið sögðuð þegar þið töluðuð við mig og sagði við mig: „Ég heyrði hvað þetta fólk sagði þegar það talaði við þig. Allt sem það sagði var rétt.
29Megi það ávallt vera sama sinnis og óttast mig og halda öll boð mín svo að því og niðjum þess vegni ævinlega vel.
30Farðu og segðu fólkinu: Snúið aftur til tjalda ykkar.
31En þú skalt sjálfur vera hér kyrr hjá mér. Ég ætla að flytja þér öll þau fyrirmæli, lög og ákvæði sem þú átt að kenna því að breyta eftir í landinu sem ég fæ því til eignar.“
32Gætið þess að breyta eins og Drottinn, Guð ykkar, hefur boðið ykkur. Víkið ekki frá því, hvorki til hægri né vinstri.
33Gangið þann veg einan sem Drottinn, Guð ykkar, hefur bent ykkur á svo að þið lifið og ykkur vegni vel og þið verðið langlíf í landinu sem þið munuð taka til eignar.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.