Jeremía 5 - Biblían (2007)

Orsök stríðsins

1Gangið um stræti Jerúsalem,

litist um, spyrjist fyrir,

leitið á torgunum hvort nokkur finnist,

hvort þar sé aðeins einn

sem stundar réttlæti og leitar sannleikans,

og þá mun ég fyrirgefa borginni, segir Drottinn.

2Þótt þeir segi: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir,“

sverja þeir meinsæri.

3Drottinn, leita augu þín ekki sannleikans?

Þú slóst þá en þá sveið ekki undan,

þú gerðir nærri út af við þá

en þeir létu sér ekki segjast.

Þeir þverskölluðust

og vildu ekki snúa við.

4Ég hugsaði: Þetta eru lítilmenni

sem hegða sér heimskulega

því að þau rata ekki veg Drottins,

þekkja ekki kröfur Guðs síns.

5Þá vil ég heldur fara til stórmennanna

og tala við þau

því að þau rata veg Drottins,

þekkja kröfur Guðs síns.

En þau höfðu öll sem eitt brotið af sér okið,

slitið fjötrana.

6Þess vegna drepur skógarljónið þau,

sléttuúlfurinn eyðir þeim,

pardusdýrið liggur í leyni við borgir þeirra,

hver sem út úr þeim fer

verður rifinn sundur

því að afbrot þeirra eru mörg,

svik þeirra mikil.

7Hvers vegna ætti ég að fyrirgefa þér?

Synir þínir hafa yfirgefið mig

og svarið við þá sem ekki eru guðir.

Ég mettaði þá en þeir hóruðust

og gistu vændishús.

8Þeir eru stríðaldir stóðhestar

og hvía hver að annars konu.

9Ætti ég ekki að refsa þeim fyrir það? segir Drottinn,

ætti ég ekki að hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

10Farið upp í víngarðana og rífið þá niður

en gereyðið þeim ekki,

rífið burtu teinungana

því að þeir eru ekki eign Drottins.

11Íbúar Ísraels og íbúar Júda

hafa brugðist mér, segir Drottinn.

12Þeir hafa afneitað Drottni og sagt:

„Hann er ekkert.

Engin ógæfa kemur yfir oss,

vér munum hvorki sjá sverð né hungur.

13Spámennirnir eru loftið tómt,

orðið er ekki í munni þeirra,

það kemur þeim í koll.“

14Þess vegna segir Drottinn, Guð hersveitanna:

Af því að þeir hafa talað

geri ég orð mín að eldi í munni þér

og þetta fólk að eldiviðnum

sem hann gleypir.

15Hyggið að, Ísraelsmenn.

Ég leiði gegn yður þjóð úr fjarlægu landi,

segir Drottinn.

Sú þjóð er ósigrandi,

þetta er eldforn þjóð.

Tungu þessarar þjóðar kannt þú ekki

og skilur ekki hvað hún segir.

16Örvamælir hennar er sem opin gröf,

allir eru þeir hetjur.

17Þeir gleypa kornuppskeru þína og brauð,

þeir gleypa syni þína og dætur,

rífa í sig sauðfé þitt og naut,

vínvið þinn og fíkjutré,

þeir höggva niður með sverði

hinar víggirtu borgir sem þú treystir á.

18En á þeim dögum, segir Drottinn, mun ég ekki gereyða yður.

19Ef menn spyrja: „Hvers vegna hefur Drottinn, Guð vor, gert oss allt þetta?“ skalt þú svara þeim: „Á sama hátt og þér yfirgáfuð mig og þjónuðuð framandi guðum í landi yðar verðið þér að þjóna útlendingum í landi sem ekki er yðar.“

Þrjóska þjóðarinnar

20Kunngjörið meðal Jakobs niðja,

boðið í Júda og segið:

21Hlýddu á, heimska og skilningslausa þjóð,

sem hefur augu en sérð ekki,

eyru en heyrir ekki:

22Óttist þér mig eigi? segir Drottinn,

skjálfið þér eigi fyrir augliti mínu?

Ég setti hafinu skorður með fjörusandinum,

varanleg mörk sem það fer eigi yfir.

Þótt öldurnar æði fær það engu áorkað,

þótt þær drynji kemst það eigi yfir þau.

23Þessi þjóð er þverúðarfull og þrjósk í hjarta.

Þeir hafa vikið af leið og horfið burt.

24Þeir hugsuðu eigi með sér:

„Óttumst Drottin, Guð vorn,

sem gefur regn, haustregn og vorregn, á réttum tíma,

tryggir oss ákveðna uppskerutíð.“

25Afbrot yðar hafa fært þetta allt úr skorðum,

syndir yðar hafa svipt yður blessuninni.

Hinir guðlausu meðal þjóðar Drottins

26Illmenni er að finna meðal þjóðar minnar.

Þau leynast eins og veiðimenn sem læðast,

setja upp gildrur

og veiða menn.

27Eins og fuglabúr full af fuglum

eru hús þeirra full af svikum.

Þess vegna eru þau voldug og rík,

28feit og sælleg.

Þau styðja málstað illmenna,

kveða eigi upp rétta dóma

í þágu munaðarleysingja

svo að þeim farnist vel

og reka eigi réttar fátæklinga.

29Ætti ég ekki að refsa þeim fyrir það? segir Drottinn,

ætti ég ekki að hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

30Óttalegt og hræðilegt er það sem við ber í landinu.

31Spámennirnir boða lygi,

prestarnir kenna að eigin geðþótta

og þjóð minni fellur það vel.

En hvað ætlið þér að gera

þegar kemur að skuldadögunum?

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help