Jobsbók 14 - Biblían (2007)

1Maður, af konu fæddur,

lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi.

2Hann vex eins og blóm og visnar,

hverfur sem hvikull skuggi.

3Samt hefurðu á honum vakandi auga

og kallar hann fyrir dóm þinn.

4Hver getur leitt hreint af óhreinu?

Ekki nokkur maður.

5Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir

og tala mánaða hans ákveðin af þér,

hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,

6líttu þá af honum svo að hann fái hvíld

og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

7Tréð á sér framtíð,

verði það höggvið vex það á ný

og teinungarnir halda áfram að vaxa.

8Þótt rótin eldist í jörðinni

og stofninn deyi í moldinni

9vex það áfram fyrir kraft vatnsins

og ber greinar eins og ungur kvistur.

10En deyi maðurinn liggur hann máttvana,

gefi maðurinn upp andann, hvað verður þá um hann?

11Vatn hverfur úr hafinu,

fljótið rénar og þornar upp,

12maðurinn leggst til hvíldar og rís ekki upp aftur.

Hann vaknar ekki fyrr en himinninn ferst,

hann verður ekki vakinn af svefni sínum.

13Æ, að þú vildir fela mig í undirheimum,

hylja mig uns reiði þinni slotar,

ákveða mér stund og minnast mín þá.

14Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?

Þá héldi ég út alla daga herþjónustunnar

uns sá kæmi sem leysti mig af.

15Þá hrópaðir þú og ég svaraði þér,

þú mundir þrá verk handa þinna.

16Þú teldir skref mín,

gættir ekki að víxlsporum mínum.

17Synd mína mundirðu innsigla í böggli

og kalka yfir sekt mína.

18Fjall getur hrunið og molnað

og klettur færst úr stað.

19Vatn holar steina

og steypiregn skolar burt jarðvegi.

Þannig gerir þú von mannsins að engu.

20Þú berð hann ofurliði um aldur og ævi

og hann hverfur á braut.

Þú afmyndar ásjónu hans

og sendir hann frá þér.

21Komist börn hans til virðingar

veit hann það ekki,

verði þau lítils metin

tekur hann ekki eftir því,

22því að líkami hans skynjar aðeins eigin kvöl

og hugur hans hryggist aðeins sjálfs sín vegna.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help