Jeremía 47 - Biblían (2007)

Gegn Filisteum

1Orð Drottins um Filistea sem kom til Jeremía spámanns áður en faraó tók Gasa.

2Svo segir Drottinn:

Vatn sem streymir úr norðri

mun brjótast fram sem stórfljót,

það mun flæða yfir landið og allt sem í því er,

borgirnar og íbúa þeirra,

menn munu æpa hátt

og allir íbúar landsins hljóða.

3Þegar hófadynur stríðshesta þeirra glymur,

dynurinn í hervögnum þeirra ærir og hjól þeirra hvína,

munu feður ekki líta til barna sinna

því að hendur þeirra lémagnast.

4Sá dagur er kominn að öllum Filisteum verði eytt.

Öllum sem komast undan og gætu hjálpað Týrus og Sídon verður tortímt

því að Drottinn eyðir Filisteum,

öllum sem eftir eru af þeim sem koma frá Kaftór.

5Gasa hefur rakað á sig skalla, Askalon er þögnuð,

hve lengi ætlið þér að rista á yður skinnsprettur,

þér, sem eftir eruð af niðjum Anaks?

6Vei, sverð Drottins, hvenær hvílist þú?

Farðu aftur í slíðrið,

taktu á þig náðir.

Mál er að linni.

7Hvernig gæti það hvílst

því að Drottinn gaf því fyrirmæli?

Hann sendi það gegn Askalon

og landinu við strönd hafsins.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help