Viðaukar við Daníelsbók 10 - Biblían (2007)

Vitrun Daníels við Tígrisfljót

1Á þriðja ári Kýrusar Persakonungs barst Daníel, sem kallaður var Beltsasar, vitrun. Vitrunin var sönn en afar torskilin. Skilning á henni fékk hann í sýn.

2Á þeim tíma syrgði ég, Daníel, í þrjár vikur,

3ég neytti engrar gómsætrar fæðu og lagði mér hvorki kjöt né vín til munns. Ég smurði mig ekki fyrr en vikurnar þrjár voru liðnar.

4Á tuttugasta og fjórða degi hins fyrsta mánaðar var ég staddur á bakka árinnar miklu, Tígris,

5og ég leit upp og sá línklæddan mann og voru lendar hans gyrtar skíragulli.

6Líkami hans var sem berýlsteinn, andlit hans ljómaði sem elding, augu hans voru sem logandi blys, handleggir hans og leggir líkt og úr fáguðum eir og rödd hans hljómaði sem gnýr af mikilli mannþröng.

7Ég, Daníel, sá þessa sýn einn. Mennirnir sem með mér voru sáu sýnina ekki en þó greip þá mikil skelfing svo að þeir flýðu í felur.

8Ég var því einn um að sjá þessa miklu sýn. Ég var máttvana, náfölur og magnþrota og tókst ekki að safna kröftum.

9Ég heyrði hann tala og meðan ég hlustaði á hann seig á mig djúpur svefn svo að ég féll fram á ásjónu mína á jörðinni.

10Þá snart hönd við mér og reisti mig óstyrkan á fjóra fætur.

11Og hann sagði við mig: „Daníel, þú sem ert ástmögur, taktu eftir því sem ég segi þér og stattu á fætur því að til þín er ég sendur.“ Og er hann sagði þetta stóð ég upp og skalf á beinunum.

12En hann sagði við mig: „Óttastu ekki, Daníel, því að frá þeim degi sem þú fyrst ákvaðst að leita skilnings og auðmýkja þig fyrir Guði þínum hefur þú verið bænheyrður og vegna bænar þinnar er ég kominn.

13Höfðingi Persaveldis veitti mér viðnám í tuttugu og einn dag en nú hefur Mikael, fremstur höfðingjanna, komið mér til hjálpar eftir að konungar Persa töfðu för mína.

14Því er ég kominn til að veita þér skilning á því sem koma mun yfir þjóð þína á ókomnum dögum af því að enn er þetta sýn um þá daga.“

15Ég var niðurlútur og þagði meðan hann mælti þessum orðum til mín.

16Einhver, áþekkur manni, snart þá varir mínar og ég opnaði munninn, tók til máls og sagði við þann sem stóð frammi fyrir mér: „Herra minn, vegna þessarar sýnar kvelst ég og fæ ekki eflt mér þrótt.

17Hvernig gæti þessi þjónn herra míns talað við herra minn nú þegar ég er þrotinn að kröftum og kjarkur minn horfinn?“

18Sá sem líktist manni snerti mig þá aftur og styrkti mig.

19Hann sagði: „Óttastu hvergi, ástmögur, allt mun ganga þér í hag. Vertu hughraustur. Vertu hughraustur.“ Ég styrktist við er hann talaði við mig og sagði: „Talaðu, herra, því að þú hefur veitt mér styrk.“

20Þá spurði hann: „Veistu hví ég er kominn til þín? Nú verð ég að snúa aftur til að berjast við Persakonung. Og þegar ég fer mun leiðtogi Grikkja koma.

21Enginn mun hjálpa mér gegn þeim nema leiðtogi þinn, Mikael. En það sem skráð er í bók sannleikans mun ég tjá þér:

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help