Jobsbók 33 - Biblían (2007)

1Hlýddu nú á ræðu mína, Job,

ljáðu orðum mínum eyra.

2Ég hef lokið upp munni mínum,

tungan talar í gómi mínum.

3Ég tala af hjartans einlægni

og það sem ég veit segi ég í hreinskilni.

4Andi Guðs skapaði mig

og lífsandi Hins almáttka gefur mér líf.

5Svaraðu mér ef þú getur,

gakktu fram og flyttu mál þitt.

6Frammi fyrir Guði er ég eins og þú,

ég var líka mótaður úr leir.

7Ótti við mig þarf ekki að skelfa þig

og þvingun frá mér ekki að þjaka þig.

8En þú sagðir í eyru mín

og ég heyrði hljóm orðanna:

9„Ég er hreinn og syndlaus,

flekklaus og án sektar.

10Guð fann átyllu til að ásaka mig

og telur mig óvin sinn,

11hann setti fætur mína í gapastokk

og fylgist með allri breytni minni.“

12Í þessu efni hefurðu ekki rétt fyrir þér, svara ég,

því að Guð er meiri en maður.

13Hvers vegna hefurðu deilt við hann?

Hann svarar orðum mannsins engu.

14Guð getur talað á einn máta,

jafnvel tvo, án þess að menn gefi því gaum.

15Í draumi, í sýn um nótt,

þegar menn sofa djúpum svefni í rúmum sínum,

16opnar hann eyru manna

og skelfir þá með viðvörun

17til að hindra manninn í störfum sínum

og forða honum frá hroka.

18Hann bjargar lífi hans frá gröfinni,

frá því að fara yfir fljótið til undirheima.

19Einnig er maðurinn áminntur með kvölum í rúmi sínu

og sífelldu stríði í beinum sínum.

20Hann fær ógeð á mat,

missir lystina á eftirlætisrétti sínum,

21hold hans tærist og sést varla

og holdlausir limir hans sjást ekki lengur.

22Líf hans færist nær gröfinni,

hann nálgast stað dauðra.

23En sé engill hjá honum,

talsmaður, einn af þúsund

sem boða mönnunum hið rétta,

24og miskunni sig yfir hann og segi:

„Bjargaðu honum frá gröfinni,

ég hef fundið lausnargjald,“

25þá styrkist hold hans af æskuþrótti,

hann snýr aftur til æskudaga sinna.

26Hann biður til Guðs og hann miskunnar honum,

fær að sjá auglit hans og fagnar

og Guð gefur hinum dauðlega aftur réttlæti sitt.

27Hann syngur fyrir menn og segir:

„Ég syndgaði og beygði það sem var beint

en hann galt ekki líku líkt,

28hann leysti líf mitt frá gröfinni,

ég lifi og sé ljósið.“

29Allt þetta gerir Guð fyrir manninn,

tvisvar eða þrisvar,

30hann leiðir hann lifandi frá gröfinni

svo að ljós lífsins lýsi honum.

31Hlýddu á, Job, hlustaðu á mig,

vertu nú hljóður svo að ég megi tala.

32Hafirðu eitthvað að segja skaltu svara mér,

talaðu því að ég vildi að þú hefðir á réttu að standa.

33En hafirðu ekkert að segja skaltu hlusta á mig,

vertu hljóður og ég skal kenna þér speki.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help