1Orð Drottins kom til mín:
2Mannssonur, spáðu gegn hirðum Ísraels og segðu við þá: Svo segir Drottinn Guð: Vei hirðum Ísraels sem aðeins hirða um sjálfa sig. Eiga þeir ekki að halda fénu á beit?
3Þið drekkið mjólkina og klæðist ullinni, slátrið feitustu sauðunum en um hjörðina hirðið þið ekki.
4Þið hafið ekki hjálpað hinu veikburða, ekki læknað hið sjúka, ekki bundið um hið særða og hvorki sótt það sem hraktist burt né leitað þess sem týndist, en hið sterka hafið þið leitt með harðri hendi.
5Fé mitt tvístraðist þar sem hirðir var enginn og það varð villidýrum að bráð. Fé mitt tvístraðist
6og rásaði um öll fjöll og alla háa hóla. Sauðirnir úr hjörð minni dreifðust um allar jarðir en enginn spurði um þá og enginn leitaði þeirra.
7Heyrið því, hirðar, orð Drottins:
8Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Sauðunum í hjörð minni hefur verið rænt og fé mitt orðið villidýrum að bráð úti á bersvæði þar sem hirðir var enginn. Hirðar mínir leituðu ekki fjár míns en hirtu aðeins um sjálfa sig en ekki um sauði mína.
9Heyrið því, hirðar, orð Drottins.
10Svo segir Drottinn Guð: Hlustið. Ég ætla að halda gegn hirðunum og krefjast sauða minna úr hendi þeirra. Ég læt þá hætta að hirða um fé mitt, þeir skulu ekki fá að hirða um eigin hag framar. Ég bjarga hjörð minni úr munni þeirra, hún skal ekki verða fæða þeirra framar.
Góði hirðirinn11Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim.
12Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi.
13Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu.
14Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels.
15Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð.
16Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er.
17En þú, hjörð mín, svo segir Drottinn Guð: Ég dæmi milli kindar og kindar, milli hrúta og hafra.
18Nægir ykkur ekki að ganga í besta haglendi? Þurfið þið að traðka það niður sem eftir er af haga ykkar? Þegar þið hafið drukkið tært vatn, þurfið þið þá að grugga það sem eftir er með fótunum?
19Þá verða sauðirnir í hjörð minni að vera á beit í flaginu sem fætur ykkar hafa traðkað og drekka það sem fætur ykkar hafa gruggað.
20Þess vegna segir Drottinn Guð við ykkur: Ég mun sjálfur dæma milli vænna sauða og magurra.
21Þar sem þið ryðjið öllum hinum veikburða úr vegi með hupp og bógi og stangið þá með hornunum þar til þið hafið hrakið þá í burtu
22ætla ég að hjálpa sauðum mínum svo að þeir verði ekki framar teknir sem ránsfengur. Ég mun dæma milli kindar og kindar.
23Ég mun setja einn hirði yfir þá sem mun halda þeim í haga, þjón minn Davíð. Hann mun halda þeim í haga og hann verður hirðir þeirra.
24Ég sjálfur, Drottinn, verð Guð þeirra en Davíð, þjónn minn, verður höfðingi á meðal þeirra. Ég, Drottinn, hef talað.
25Ég mun gera sáttmála við þá þeim til heilla og eyða rándýrum úr landinu. Þá munu þeir búa óhultir í eyðimörkinni og sofa í skógunum.
26Ég læt þá og umhverfi hæðar minnar bera blessun og ég mun senda regn á réttum tíma, regn til blessunar.
27Trén á sléttunni skulu bera ávöxt og landið gefa af sér og þeir verða óhultir í landi sínu. Þeir munu skilja að ég er Drottinn þegar ég brýt okið af þeim og frelsa þá úr greipum þeirra sem þrælka þá.
28Þeir skulu ekki framar verða ránsfengur framandi þjóða og villidýrin í landinu munu ekki heldur rífa þá í sig. Þeir munu búa óhultir og enginn mun hrekja þá í burtu.
29Þeim til heilla mun ég rækta þeim garð svo að þeir verði ekki framar hungri að bráð í landinu og þurfi ekki að þola smánaryrði framandi þjóða.
30Þá munu þeir skilja að ég, Drottinn, er Guð þeirra. Ég er með þeim og Ísraelsmenn eru þjóð mín, segir Drottinn Guð.
31Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.