Jobsbók 9 - Biblían (2007)

Andmæli Jobs

1Job svaraði og sagði:

2Víst vissi ég að þessu er þannig farið

því að hvernig getur maðurinn haft rétt fyrir sér gagnvart Guði?

3Vilji hann deila við Guð

getur hann ekki svarað einni spurningu af þúsund.

4Guð er vitur í hjarta og mikill að mætti,

hver hefur boðið honum birginn án þess að saka?

5Hann flytur fjöll þeim að óvörum,

hann umturnar þeim í reiði sinni,

6hann hrærir jörðina úr stað

svo að stoðir hennar nötra,

7hann skipar sólinni fyrir og hún kemur ekki upp

og hann innsiglar stjörnurnar,

8hann einn þandi himininn út

og gengur á ölduföldum hafsins,

9hann skóp Karlsvagninn og Óríon,

Sjöstjörnuna og stjörnumerkin í suðri.

10Hann vinnur stórvirki sem ekki verða könnuð

og kraftaverk sem ekki verða talin.

11Gangi hann fram hjá mér sé ég hann ekki,

fari hann hjá verð ég hans ekki var.

12Hann hrifsar burt, hver hindrar hann?

Hver getur spurt hann: „Hvað ertu að gera?“

13Guð hemur ekki reiði sína,

þeir sem hjálpuðu Rahab beygðu sig undir hann.

14Hvernig á ég að geta svarað honum,

valið orð mín gegn honum?

15Þó að ég hefði rétt fyrir mér gæti ég ekki svarað

og yrði að biðja dómara minn miskunnar.

16Mundi hann svara mér ef ég hrópaði?

Ég held að hann legði ekki hlustir við hrópi mínu,

17hann sem feykir mér í storminum

og fjölgar sárum mínum að ástæðulausu.

18Hann lætur mig ekki ná andanum

en mettar mig beiskju.

19Sé um kraft að ræða, er mátturinn hans,

sé um rétt að ræða, hver vill þá stefna honum?

20Hefði ég rétt fyrir mér sakfelldi mig munnur minn,

væri ég saklaus kæmi hann sektinni á mig.

21Ég er saklaus og mér er sama um líf mitt,

ég met það einskis.

22Allt ber að sama brunni, því segi ég:

Saklausum og óguðlegum tortímir hann.

23Þegar svipan deyðir óvænt

hæðir hann angist hinna saklausu.

24Falli land guðlausum í greipar

byrgir hann augu dómaranna.

Ef ekki hann, hver þá?

25Ævidagar mínir geysast áfram eins og hraðboði,

þeir þjóta hjá án þess að líta heill,

26renna áfram eins og reyrbátur,

líkt og örn sem steypir sér yfir bráð.

27Ef ég hugsa: „Ég ætla að gleyma harmi mínum,

breyta um svip og verða glaðlegur,“

28þá hryllir mig við þjáningum mínum,

ég veit að þú sýknar mig ekki.

29Ég er þegar sakfelldur,

hvers vegna erfiða ég þá til einskis?

30Þvægi ég mér úr snjó

og hreinsaði hendur mínar með lút

31mundir þú dýfa mér í díkið

svo að klæðum mínum byði við mér.

32Guð er ekki maður eins og ég, að ég geti svarað honum

og við mæst fyrir rétti.

33Enginn er til sem getur skorið úr málum vorum

og lagt hönd sína yfir oss báða.

34Ég vildi að hann létti af mér svipu sinni

svo að óttinn við hann kvelji mig ekki framar.

35Þá mun ég tala án þess að skelfast hann

en eins og komið er fyrir mér get ég það ekki.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help