1Um nóttina varð konungur andvaka. Bauð hann þá að komið væri til sín með Annálabókina, bók þá sem geymdi minnisverð tíðindi, og var lesið úr henni fyrir hann.
2Þar fannst skráð hvernig Mordekaí hafði komið upp um tvo geldinga konungs, hliðverðina Bigtan og Teres, sem sóst höfðu eftir lífi Xerxesar konungs.
3Konungur spurði: „Hvaða heiður eða upphefð hlaut Mordekaí fyrir þetta?“ „Hann hlaut ekkert að launum,“ svöruðu konungssveinarnir sem þjónuðu honum.
4Þá sagði konungur: „Hver er úti í forgarðinum?“ Haman var þá einmitt á leið inn í ytri forgarð hallarinnar til að tala um það við konung að Mordekaí skyldi festur á gálgann sem hann hafði reist og ætlað honum.
5Sveinar konungs svöruðu: „Haman er úti í forgarðinum.“ Konungur sagði þeim að vísa honum inn.
6Þegar Haman gekk inn sagði konungur við hann: „Hvað á að gera fyrir þann mann sem konungur vill sýna heiður?“ Þá hugsaði Haman með sér: „Hvern skyldi konungur vilja heiðra fremur en mig?“
7Hann svaraði konungi: „Vilji konungur sýna einhverjum heiður
8þá skal sækja konungleg skrúðklæði, sem konungur hefur sjálfur borið, og setja konunglegt höfuðdjásn á hest sem konungur hefur riðið.
9Skrúðklæðin og hestinn skal fá einum æðsta tignamanni konungs. Manninn, sem konungur vill heiðra, skal hann færa í skrúðklæðin, láta hann síðan ríða hestinum um borgartorgið og hrópa fyrir honum: Þannig er gert við þann mann sem konungur vill heiðra.“
10Konungur sagði þá við Haman: „Sæktu skrúðklæðin og hestinn tafarlaust eins og þú talaðir um og gerðu eins við Gyðinginn Mordekaí sem situr hér í hallarhliðinu. Og láttu ekkert á vanta af því sem þú varst að telja upp.“
11Haman sótti hestinn og skrúðklæðin, færði Mordekaí í þau, lét hann síðan ríða um borgartorgið og hrópaði fyrir honum: „Þannig er gert við þann mann sem konungur vill heiðra.“
12Síðan fór Mordekaí aftur að hallarhliðinu en Haman skundaði heim á leið hnugginn í skapi og huldi ásjónu sína.
13Haman greindi Seres, konu sinni, og vinum sínum frá öllu sem komið hafði fyrir hann. Og kona hans, Seres, og ráðhollir vinir hans sögðu við hann: „Það er farið að halla á þig í samskiptum við Mordekaí þennan. Og sé hann af ætt Gyðinga ert þú einskis megnugur og öruggt að þú bíður lægri hlut fyrir honum.“
Boð Esterar. Endalok Hamans14Meðan á þessum samræðum stóð komu geldingar konungs og fylgdu Haman í skyndi til veislunnar sem Ester hafði boðið til.
Who We AreWhat We EelieveWhat We Do
2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.