Jesaja 9 - Biblían (2007)

Friðarhöfðinginn

1Sú þjóð, sem í myrkri gengur,

sér mikið ljós.

Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna

skín ljós.

2Þú eykur stórum fögnuðinn,

gerir gleðina mikla.

Menn gleðjast fyrir augliti þínu

eins og þegar uppskeru er fagnað,

eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.

3Því að ok þeirra,

klafann á herðum þeirra,

barefli þess sem kúgar þá

hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.

4Öll harkmikil hermannastígvél

og allar blóðstokknar skikkjur

skulu brenndar

og verða eldsmatur.

5Því að barn er oss fætt,

sonur er oss gefinn.

Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,

hann skal nefndur:

Undraráðgjafi, Guðhetja,

Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

6Mikill skal höfðingjadómurinn verða

og friðurinn engan enda taka

á hásæti Davíðs

og í ríki hans.

Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,

héðan í frá og að eilífu.

Vandlæting Drottins allsherjar

mun þessu til vegar koma.

Dómsræður yfir Norðurríkinu

7Drottinn sendi orð gegn Jakobi,

því laust niður í Ísrael

8og allt fólkið varð þess áskynja,

íbúar Efraíms og Samaríu

sem sögðu með hroka og stærilæti í hjarta:

9„Tígulsteinarnir hrundu

en vér byggjum aftur úr höggnu grjóti.

Mórberjatrén voru felld

en vér setjum sedrustré í þeirra stað.“

10Þá efldi Drottinn fjandmann þeirra gegn þeim

og æsti upp óvini þeirra:

11Aramea að austan og Filistea að vestan

og þeir gleyptu Ísrael með gapandi gini.

En samt sefaðist reiði Drottins ekki,

hönd hans var enn upp reidd.

12Þjóðin sneri ekki aftur til hans sem laust hana,

þeir leituðu ekki til Drottins allsherjar.

13Þá hjó Drottinn höfuð og hala af Ísrael,

pálmagrein og strá á sama degi.

14Öldungar og virðingarmenn voru höfuðið

en falsspámennirnir halinn.

15Því að leiðtogar fólksins leiddu það afvega,

þeir sem leiddir voru villtust.

16Þess vegna þyrmdi Drottinn ekki æskumönnum sínum

og sýndi ekkjum sínum og munaðarleysingjum enga miskunn

því að þeir voru allir óguðlegir og illmenni

og sérhver munnur þvaðraði.

En samt sefaðist reiði Drottins ekki,

hönd hans var enn upp reidd.

17Því að illska þeirra brann eins og eldur

sem gleypti þyrna og þistla.

Hann kveikti í skógarþykkninu

svo að það þyrlaðist upp í reykjarmekki.

18Landið sviðnaði af heift Drottins,

fólkið varð eins og eldsmatur.

Enginn þyrmdi öðrum:

19Þeir rifu í sig til hægri og voru jafnsvangir,

átu til vinstri og urðu ekki saddir,

þeir átu hold ættmenna sinna:

20Manasse át Efraím og Efraím Manasse

og saman réðust þeir á Júda.

Samt sefaðist reiði Drottins ekki,

hönd hans var enn upp reidd.

Blog
About Us
Message
Site Map

Who We AreWhat We EelieveWhat We Do

Terms of UsePrivacy Notice

2025 by iamachristian.org,Inc All rights reserved.

Home
Gospel
Question
Blog
Help